Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er engin önnur en lífskúnstnerinn Ásdís Olsen. Hér er brot úr þessu yndislega opinskáa og flotta viðtali:
Ásdís er margfaldur Íslandsmeistari á skíðum, sjónvarpskona, fyrrum flugfreyja, fræðimaður, kennari og fyrirlesari á sviði jákvæðrar sálfræði og núvitundar og hefur sérhæft sig í hagnýtum aðferðum til að auka vellíðan og hamingju fólks. Sem sagt kona sem hefur komið víða við. Gunnar hafði orð á því í byrjun viðtalsins hve ferilskrá Ásdísar væri löng og fjölbreytt, nánast heill doðrantur. Sagðist Ásdís hafa verið lengi að en að hún hafi alltaf haft áhuga á „mannlegum möguleikum,“ (e. human potential – to live and perform in alignment with the highest self.) sem er ákveðin hugmyndafræði og alltaf haft þrá til að upplifa það sem hægt er að upplifa í þessum veruleika.
Upplifði áfall 18 mánaða
„Það getur vel verið að ég sé svo fucked up að ég er bara að leita af sjálfum mér, alltaf,“ svaraði Ásdís með bros á vör þegar Gunnar spurði hvort hún væri með þráhyggjuröskun.
Ásdís hefur stjórnað þáttunum Undir yfirborði á Hringbraut en þar talar hún við einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að vera í andlegri leit og þá oft í kjölfar áfalla. Gunnar spurði hana af hverju hún hefði svona mikinn áhuga á þessu málefni og svaraði Ásdís að hún hafi alltaf verið leitandi og forvitin en að hennar eigin áföll séu þó eflaust hvatinn í þessari leit hennar.
„Traumað mitt er í frumbernsku, svo flýt ég ofan á og er mjög lukkuleg og gengur allt í haginn í langan tíma og hélt að ég væri bara sæl og sátt og væri að lifa góðu lífi,“ sagði Ásdís er hún segir bræðrunum frá áfallinu sem hún varð fyrir aðeins 18 mánaða gömul. Segist hún hafa snert á og unnið úr áfallinu með hjálp dáleiðslu sem og með notkun hugvíkkandi efna í serómónísku umhverfi.
Áfallið segir hún að snúi að spítalainnlögn þegar hún var aðeins 18 mánaða. Hún glímdi þá við veikindi í hálsi sem kröfðust þess að hún yrði lögð inn á spítala í talsverðan tíma. Á þeim tíma hafi ekki þótt eðlilegt að foreldrar hennar dveldu með henni á spítalanum. Segir hún að þessi tilfinning sem hún upplifði í kjölfar þess að vera yfirgefin aðeins 18 mánaða gömul hafi alltaf fylgd henni. Seinna þegar hún er aðeins eldri er hún send tímabundið á barnaheimili sökum anna foreldra hennar, sem byggðu hús fyrir fjölskylduna. Þá segist hún aftur hafa upplifað þessa tilfinningu höfnunar og að verða yfirgefin.
„Fyrir þetta eitthvað 50 og eitthvað árum voru börn sem fóru á sjúkrahús bara látin afskiptalaus, gráta og þjást og það mátti engin koma og heimsækja þau svo að það verður svona tengslarof og vantraust gagnvart foreldrum“, sagði Ásdís og hélt áfram: „Börn voru oft sett á barnaheimili þegar foreldrar voru að fara í frí og svona, svona eins og að setja þau í geymslu. Á þessum tíma voru uppeldishugmyndir skelfilegar, það var verið að umgangast börn eins og skynlausar skepnur. Ég held að foreldrar hafi á þessum tíma verið að gera sitt besta en gátu bara ekki betur.“
Fannst eins og hún væri að deyja
Líf Ásdísar hélt svo bara áfram og segir hún bræðrunum frá þeim tímamótum sem urðu til þess að hún vaknaði til vitundar um að hún væri ekki hugsanir sínar eða líðan heldur ljós sem aldrei í raun getur verið neitt annað en rými og kærleikur. En til þess að komast á þennan stað þurfti hún að upplifa mikla þjáningu sem kvíðinn við hið óþekkta olli. Ásdís segir frá því er hún var að glíma við rifbeinsmeiðsl eftir að hafa fengið í sig haka og brotið rifbein. Skömmu síðar er hún með manni sínum þáverandi og börnum í fríi úti á landi og fær allt í einu rosalegan sting að því er virðist í hjartastað. Ásdís fylltist ofsakvíða og hélt hreinlega að rifbein hefði stungist í hjartað og henni myndi blæða út innvortis. Hún reyndi að koma sér í einhverjar stellingar en þá fannst henni eins og rifbeinin stingi einnig gat á lungun og gerði henni þar af leiðandi erfitt með andardrátt. Hún í sannfæringu sinni var flutt upp á sjúkrahús en þegar skoðun hafði farið fram kom í ljós að ekkert amaði að henni. Hún var bara með brákuð rifbein en heilt hjarta og heil lungu. Í kjölfarið sótti hún Ham-námskeið en þar kynnist hún í fyrsta skipti núvitundariðkun sem eins og sagt er hér að ofan sleit þessa samsömun með huganum og öllu sem að því kemur. Hún komst að því að það er sem hún séu í raun tvær manneskjur, kjarninn og svo hinn hverfuli hugur.
„Ég hef oft lýst þessu kvíðakasti sem ég fékk, algjöru panik ástandi og það gerist á tímabili þar sem allt var gott í lífi mínu, þar sem að allt var fullkomið. Ég hugsa að nú stakkst rif inn í hjartað og ég er að deyja, og ég finn hitann og ég finn blóðið streyma út úr hjartanu. Og þá koma læknarnir með þessar upplýsingar að það sé ekkert að mér og það verður til þess að ég fæ algjört sjokk því að þá átta ég mig á því að það er eitthvað mikið að mér, mikið að hausnum. Fyrsta sem ég læri er að hugurinn á mér er fullur af bulli, hugur minn er alltaf að bulla í mér og að ég er ekki hugur minn, og mér fannst þetta það merkilegasta sem ég hafði lært í lífinu. Ég fór upp á geðdeild og leitaði mér hjálpar, ég bankaði upp á og sagði það er eitthvað að og ég er að fá kvíða og hugurinn minn er að segja mér eitthvað sem að er ekki rétt. Og þá er ég svo heppin að það er verið að bjóða upp á núvitundarkennslu þar inni í fyrsta skiptið fyrir fólk sem er með kvíða.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér fyrir neðan: