Drífa Snædal er nýjasti gestur Mannlífsins hjá Reyni Traustasyni en Drífa sagði í dag upp starfi sínu sem forseti ASÍ. Í viðtalinu ræðir hún um ástæðu uppsagnarinnar, valdablokk innan ASÍ og skæting og hótanir sem hún varð fyrir í starfi sínu. Hér er stutt brot úr viðtalinu:
Sólveig Anna eða Ragnar sagði að þú værir hluti af einhverjum valdakjarna Gylfa, fyrrverandi forseta.
„Mér finnst það alveg ótrúlega langsótt. Ég held að fólk hafi alveg orðið vart við það að það kom nýr tónn með mér inn í forystu ASÍ. Ég var ekki samherji Gylfa á neinn hátt. Þannig að mér fannst þetta frekar langsótt skýring.“
Þessi valdablokk; þetta er einhver blokk, Vilhjálmur, Ragnar og Sólveig. Hversu mikið afl hafa þau á þingi ASÍ?
„Það er ekkert alveg ljóst. Það eru margir fulltrúar sem eru á þinginu fyrir Eflingu og VR. Þeir eru ekkert endilega að greiða atkvæði samkvæmt einhverri harðlínu. Fólk er með sitt eigið atkvæði inni á þingunum.“