Bergsveinn Birgisson rithöfundur varð trillukarl 17 ára: ,,Ef Guð er dauður er allt leyfilegt“.

top augl

Gestur Mannlífsins að þessu sinni er Bergsveinn Birgisson rithöfundur og prófessor sem er meöal annars þekktur fyrir að hafa skrifað bókina Svar við Bréfi Helgu. Kvikmynd var gerð eftir bókinni. Bergsveinn á ættir sínar að rekja vestur á Strandir en er fæddur og uppalinn á Álfhólsveginum í Kópavogi, ekki fjarri hinum fræga Álfhól. Þá voru þar ekkert nema móar og mýrar, bóndabær í slakkanum og hestar víða.

Í kringum 1980 hófst uppbygging Engihjallanna og þá þótti drengjunum sem þarna bjuggu tilvalið að taka timbur ófrjálsri hendi og byggja sér kofa. Í augum ungra drengja voru þessir salir sem nýbyggingarnar voru ævintýraheimar.

Það var enginn mikið að skipta sér af drengjunum. Þeir stálu til að mynda eitt sinn bunka af timbri frá bóndanum og byggðu kofa. Hann kom þá röltandi í hægðum sínum og tók að hrósa þeim fyrir kofann. Hann væri fallegur og gólfið, maður lifandi, þarna væri hægt að halda dansiball. Hann tók svo í nefið, snýtti sér og sagði að endingu „jæja strákar, þið kannski skilið þessu við tækifæri.“

Hann fór svo í fótboltann eins og margir gerðu og þá var þarna íþróttafélag sem seinna varð gjaldþrota; ÍK, Íþróttabandalag Kópavogs. Hann var þar í góðum hópi drengja, m.a. Helgi Kolviðar, sem seinna varð atvinnumaður, Hörður Magnússon, Valdimar Hugi Sævarsson og Einar Hansen. Hann minnist þess helst hversu fljótur hann var að hlaupa. Menn sendu þá á hann bananabolta á meðan hann hljóp af sér vörnina og setti inn.

Það var ekki svo margt annað en knattspyrna í boði á þessum tíma fyrir drengina og spurður að því hvort hann hafi ekki sett sér það markmið að gerast atvinnu maður, jánkar hann því en hann hafi vaxið upp úr þessu og farið að gera einhvern annan óskunda eins og lesa bækur.

Bergsveinn fékk svo að fara í veit til ömmu sinnar og afa sem voru með bæinn Bakkagerði norðan við Drangsnes. Hann var svo sextán ára þegar hann leigði fyrst trillu af frænda sínum á Hólmavík og fór að róa á skaki en hann bjó að því að hafa farið á grásleppu með pabba sínum. Fyrir vikið var hann á Drangsnesi flest sumur þangað til að hann fékk stúdentspróf.

Að stúdentsprófi loknu ákvað hann að bregða sér í átta mánaða heimsreisu. Hann heimsótti 15 lönd í Afríku, Indland og Nepal. Þetta var lærdómsríkur tími og hann vann meðal annars sem sjálfboðaliði um tveggja mánaða skeið í Bahá‘í musteri í Nýju Delí sem lítur út eins og risastórt lótusblóm. Þangað kom fólk af öllum trúarbrögðum og frá öllum heimshornum.

Þeir kaþólikkar sem heimsóttu musterið spurðu nánast allir sömu spurningarinnar: hvar fenguð þið peninga til að byggja þetta musteri?

Bergsveinn lítur gjarnan á lífið sem litla mannfræðitilraun og oft með svolítið óvæntum niðurstöðum en á þessu ferðalagi telur hann að hann hafi áttað sig á hvaða braut hann vildi feta í lífinu. Hann hafði jú lokið stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og hafi gaman að bókmenntum en hann var ekki viss hvert leiðin myndi liggja við upphaf ferðalagsins en þarna eftir ferðina hafði hann séð framandi menningarheima og fyrir vikið langaði hann að fræðast um sína eigin menningu; sína eigin, gömlu norrænu menningu og því lá leiðin í íslenskunám og svo þaðan til Noregs til að nema norræn fræði og trúarbragðasögu.

Í hans huga er aðal sorgin eftir að hann hætti í akademíunni sem fræðingur á sviði norrænna fræða sú að söguleg vitund fólks sé að fjara út. Hann tekur dæmi um að áður en plastbátar komu var gríðarlegu púðri eytt í trébáta og hugur samtímafólks okkar rekur sífellt meira frá trébátnum.

Hann harmar að hann verði gjarnan var við það að þegar hann fylgir eftir sinni bókaútgáfu víða og hittir þá fyrir fólk úr akademíu fái hann veður af því að sífellt sé verið að leggja niður gömul fög á borð við norræn fræði, grísku o.þ.h. en með því tapast bæði gildi og viðmið auk þess sögulega viðmiðs sem sagan veitir okkur.

Hann vitnar í Dostoevsky:

„Ef guð er dauður er allt leyfilegt“ og bætir svo við að ef söguleg vitund hverfur geturðu gert hvað sem er við manneskjuna.

Bergsveinn lauk doktorsprófi í norrænum fræðum í Bergen í Noregi árið 2008. Í doktorsritgerð sinni fjallaði hann um elstu dróttkvæði sem til eru. Hann telur að þetta séu gríðarlega merkar heimildir því það bendi allt til þess að þær séu raunverulega frá heiðnum tíma. Í kvæðunum kemur fram lífssýn forfeðra okkar og við erum eins og geimverur gagnvart henni.

Hann lítur svo á að þessi 500 síðna doktorsritgerð sín sé það besta sem hann hefur skrifað en hún hafi alls verið lesin af þremur manneskjum, þ.e. þeim þremur sem sátu í nefndinni sem veitti honum gráðuna. Fyrir vikið komst hann að því að akademían ætti ekki við sig. Hann komst að því að grúskið ætti við hann en stofnunin ekki og því fór hann að skrifa bækur fyrir almenning. Hann vildi heldur skrifa í einskonar undrandi stíl þar sem hann gat verið í senn fræðimaður og rithöfundur en ekki bara stífur fræðimaður.

Bergsveinn ræðir svo um það hvernig vera hans í sveitinni á ströndum og sjómennskan vestra hefur haft áhrif á persónusköpun hans fyrir sögur sínar. Hann hefur oft verið spurður hvort persónur hans eigi sér hliðstæðu í raunveruleikanum og svar hans við því að sennilega séu margar persónur hans samsettar úr 4-5 persónum. Hann segir að fólkið sem hann hafi hitt í sveitinni sé oft bráðgreint en ekkert endilega búið að lesa of margar bækur. Það sé fólk sem þú getur ekki búið til, ekki frekar en blóm.

„Það er svo mikið af góðu fólki á Íslandi, það er auðurinn í þessu landi. Það er stærsti auðurinn þegar allt kemur til alls“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni