Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Birgir var sakaður um nauðgun í brúðkaupinu: „Sagan er alltaf að breytast og magnast“ EINKAVIÐTAL

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mesti hamingjudagur lífs Birgis Sævarssonar, breyttist í martröð. Það var í hans eigin brúðkaupi á Ítalíu sem hann var fyrst sakaður um nauðgun en Birgir missti nánast allt í kjölfar ásakananna, sem urðu þrjár alls en tveimur þeirra var vísað frá en eitt þeirra var tekið fyrir hjá dómstólum. Birgir var sýknaður í því máli en stendur eftir með laskað orðspor og tvær sjálfsvígstilraunir á bakinu. Birgir segir sögu sína í fyrsta sinn í viðtali við Reyni Traustason í hlaðvarpi Mannlífs.

Brúðkaupið

Þetta byrjaði allt í brúðkaupi Birgis á Ítalíu árið 2019.

„Dagurinn, brúðkaupið og brúðkaupsnóttin er ennþá besti dagur lífs míns, myndi ég segja.  Það voru margir sem sóttu þessa veislu. Við leigðum villu og margir gistu þó það hafi reyndar ekki verið pláss fyrir alla, en aðrir gistu í nærliggjandi bæjum. En það kom sem sagt á daginn, daginn eftir að ein af vinkonum okkar ásakaði mig um nauðgun.“

Reynir: „Þetta er náið vinafólk?“

Birgir: „Já, mjög náið. Þetta kom gífurlega flatt upp á mig þarna.“

- Auglýsing -

Reynir: „Þetta snýst um það að hún kemur upp á herbergi til þín.“

Birgir: „Já. Þetta var þannig að einhver ýjaði að því að það væri fyndið að henda brúðgumanum í sundlaugina en það var gríðarlega heitt þarna þessa daga, 41 gráða daginn sem við giftum okkur. Og það þótti fyndið að henda brúðgumanum í sundlaugina, sem var gert. Þannig að ég varð allur blautur í jakkafötunum og ballið var að klárast. Ég var að bjóða fólki að fá sér pylsur og svona. En ég þurfti að skipta um föt, ég nennti ekki að vera í blautum jakkafötum. Þannig að ég ákveð að fara upp og segi þáverandi konunni minni það og vinum.“

Reynir: „Brúðinni.“

- Auglýsing -

Birgir: „Brúðinni. Og fleirum. Að ég ætlaði að fara upp. Og hún sagðist ætla að koma með. Hún var ekkert að spyrja, hún sagðist ætla að koma með. Þetta er allt til í þessum skýrslum. Og ég fer upp og skipti um föt. Ég reiknaði bara með því að að hún ætlaði að fara á klósettið eða eitthvað slíkt. Og ég skipti um föt en ég ætlaði líka að sækja peninga því ég ætlaði að tipsa þjónana sem voru búnir að standa sig gríðarlega vel allt kvöldið. Og við erum að spjalla þarna, erum frekar drukkin en það gerðist ekkert, ekkert daður á milli okkar eða neitt. Ekki farið yfir nein mörk að neinu leiti en það var eitt faðmlag þar sem ég þakka henni fyrir að koma og hún sagði að þáverandi eiginkona mín væri besta vinkona hennar en hún var frekar drukkin og var að endurtaka sig mikið. Og við tökum þarna eitt faðmlag sem var langt og gott faðmlag en það var svolítið skringilegt langt eins og ég hef alltaf sagt en allt í góðu. Svo förum við bara nður og það er fengið sér pylsur og eitt rauðvínsglas í viðbót. Og svo förum við hjónin bara að sofa.“

Reynir: „Brúðkaupsnóttin.“

Birgir: „Já, brúðkaupsnóttin. Við vorum bara alveg búin, hefðum örugglega geta verið lengur undir venjulegum kringumstæðum.“

Ásökunin

Reynir: „En það sem gerist daginn eftir, þá kemur ásökunin fram.“

Birgir: „Já, þá ákváðu þau [vinkonan og maki hennar – innskot blaðamanns] að fara úr villunni án þess að láta okkur vita. Og við reyndum að stoppa þau og tala við þau en það var ekki hægt, þau vildu ekki tala við okkur. Sem sagt þau tvö og svo voru að ferðast með þeim þrír aðrir einstaklingar. Og þau vildu ekki tala við okkur og við skildum ekkert af hverju og við sendum þeim skilaboð og reyndum að hringja. Sögðum bara að það væri náttúrulega ekki í boði að haga sér svona og hvað er í gangi? Að fara bara í einhverju kasti. Við sáum alveg að það var ekki allt í lagi. En svo fékk kona mín þáverandi, skilaboð frá vini mínum, manninum hennar [vinkonunnar sem fór í fússi – innskot blaðamanns], að ég hefði gert eitthvað á hennar hlut. Nauðgað henni. Eða þetta var reyndar ekki fyrst þannig, ég man nú ekki hvernig þetta var orðað, þetta er orðið svolítið síðan. Já, þröngvað sér upp á sig.“

Reynir: „Þröngvað henni til samræðis?“

Birgir: „Já eitthvað svoleiðis, man ekki nákvæmlega hvernig það var orðað. En svo kom það í ljós seinna, samdægurs, að hún var að ásaka mig um nauðgun.“

Reynir: „Og hvernig varð þér við?“

Birgir: „Ég hef aldrei verið jafn hissa í lífinu. Og bara, ég skildi þetta ekki.“

Reynir: „En þetta hafði grasserað um nóttina, þau höfðu rifist.“

Birgir: „Já, við förum að sofa en svo frétti ég það töluvert seinna, þegar var farið að rýna í málið daginn eftir, þegar við erum að segja vinum okkar frá þessu, sem eru þarna, af hverju þau fóru svona snemma og hvað þau væru að ásaka mig um. En það var fullt af fólki ennþá að skemmta sér [kvöldið örlagaríka – innskot blaðamanns] og þau voru að rífast þarna og brotið eitthvað og bramlað í herberginu sínu. Það vissi auðvitað enginn hvað hafði gerst þeirra á milli. Þannig að greinilega hafði eitthvað mikið gengið á.“

Birgir segir að það sjáist í lögregluskýrslu um málið, sem var kært, að parið vilji meina að hann hefði verið að reyna að ná upp úr henni hvað hefði gerst á milli Birgis og hennar.

Birgir: „Því hann hafði grunað hana um eitthvað forplay eða framhjáhald. Mér leið þannig og líður alltaf þannig, að hún hefði misst eitthvað út úr sér sem hún hafi ekki getað bakkað með. Og ég lifði í þeirri meiningu lengi að þetta væru bara mistök. En svo kemur kæran og svo kemur hún fram í viðtalið hjá Eddu Falak. Og fer þar í gegnum hlutina. Þeir hlutir samræmast ekki skýrslunni, skýrslan samræmist ekki raunveruleikanum. Þannig að sagan er alltaf að breytast og magnast líka. Þetta er að verða alltaf meira og meira brot. Á meðan þetta var allan tímann bara eitt faðmlag.“

Flakkað á milli spítala

Reynir: „En þú áttar þig á alvarleika málsins strax þarna um morguninn því fyrsti dagurinn í hjónabandi ykkar hjóna fer í það að sækja gögn sem geta styrkt sakleysi þitt.“

Birgir: „Já, eftir að við heyrðum þetta sendum við þessum hópi, sem fór saman: „Farið strax, ef þið ætlið að halda þessu fram, til lögreglu ef þið ætlið að kæra, farið á sjúkrahús, láta tékka á sér“ en það var ekki gert. Þannig að ég vildi gera allt sem ég gæti. Við vorum náttúrulega í útlöndum, á Ítalíu og ofan á það, lengst inn í sveit. Það er lítill bær þarna við en það er langt í einhverja borg. Þannig að ég fer á spítala sem er nærst og spyr, með goggle translate, hvort ég get fengið tékk því það væri verið að saka mig um þetta, hvort ég get fengið lífsstrokusýni strax daginn eftir því ég var ekki búinn að fara í sturtu. En það var ekki hægt þar þannig að við förum á næsta spítala en þá þurftum við að keyra í dágóðan tíma, ég og kona mín, fyrrverandi. Þetta kvöld sem við vorum að flakka á milli sjúkrahúsa hringdi ég í lögregluna heima og spurði hvað ég ætti að gera, það væri verið að ásaka mig um þetta, hvað get ég gert? En það er auðvitað ekkert hægt að gera fyrr en eitthvað berst frá hinum endanum.“

Þannig að engin lífstrokusýni voru tekin af Birgi því það þurfti að berast kæra fyrst.

Þversagnir í skýrslunni

Reynir spyr Birgi út í þversagnir í lögregluskýrslunni. „Atburðalýsing er þannig að þú hafi komið út úr baðherbergi og þar með hefði upphafist þessi atburðarás sem hún lýsir.“

Birgir: „Já, hún sagði að ég hefði komið út úr baðherbergi á nærbuxum og nú er ég bara að vitna í skýrsluna, ég hef ekkert talað við hana. Þar segir að ég hafi sem sagt komið út af baðherberginu á nærbuxunum og byrjað að kítla hana og svo hafi ég snúið henni við á magann og átt við hana samfarir aftan frá, á einhvern þannig hátt. Ég held að í skýrslunni hafi verið talað um þrjár sekúndur en hjá Eddu Falak einhvern allt annan tíma. En ég var aldrei fyrir framan hana á nærbuxunum, það var bara skipt um föt bakvið skilrúm.“

Reynir: „Og svo er ekkert baðherbergi.“

Birgir: „Já, svo er það. Ég kom út úr baðherberginu [samkvæmt skýrslunni – innskot blaðamanns] en baðherbergið er ekkert á þessari hæð, það er á hæðinni fyrir neðan. Og þetta gat lögreglan staðfest í niðurfellingunni.“

Brúðkaupið var haldið í júlí 2019 en í september fékk Birgir símtal frá lögreglunni, þar sem hann var staddur erlendir í lotunámi en hann stundaði söngkennaranám, þar sem hann er beðinn um að koma í skýrslutöku.

Birgir: „Ég var sem sagt úti og fékk þetta símtal og sagði við Uve, félaga minn sem var með mér í bekk, „Heyrðu, segðu kennaranum að ég komi ekki, ég þarf að fara heim“. Bara áfall.“

Reynir: „Varstu búinn að reikna með því að málið færi ekkert lengra?“

Birgir: „Já, því ég var ekki búinn að heyra neitt, ég vissi alveg af ásökunum en mér datt ekki í hug að hún myndi kæra og ef hún væri búin að kæra myndi ég heyra af því fyrr. Að lögreglan myndi þá hringja strax í mig og boða mig í skýrslutöku. Ekki að ég þyrfti að bíða í einhverja tvo mánuði.“

Reynir spurði Birgi hvort hann hefði gert einhverja tilraun til að ræða við parið.

„Nei, ég neitaði náttúrlega fyrir þetta við vin minn, sagði honum að þetta væri bull. Ég hef aldrei reynt að hafa samband við hana. Hann sagði við mig að þetta væri bara víst þannig, hann tryði henni og ég ætla ekkert að setja mig upp á móti því, að menn standi með konunni sinni.“

Eftir að hafa mallað í kerfinu í tvö ár, var málið látið niður falla, árið 2021, án ákæru. En þá birtist næsta kæra.

Hægt er að horfa á allt viðtalið með því að smella hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -