Gestur Reynis í Mannlífinu að þessu sinni er einn okkar ástsælasti texta- og lagahöfundur, Bjartmar Guðlaugsson. Bjartmar segist ekki getað skrifað ævisögu sína því þetta hafi allt verið svo einfalt. Hann ólst upp á Fáskrúðsfirði í algeru mæðraveldi að eigin sögn, en pabbi hans var ekkert fyrir brennivín og var ástfanginn af mömmu hans í sextíu ár – sem var víst gagnkvæmt.
Spurður út í það hvernig það kom til, að eftir að hafa slegið í gegn með lögum eins og „Sumarliði er fullur“ var hann skyndilega orðinn glyspoppari í samfestingi, segist hann ekkert hafa vitað hvað var í gangi: „Þetta var aldrei neitt það sem ég ætlaði mér, sko. Ég var búinn að vera að yrkja síðan ég var barn og mér fannst svona að búa til texta við dægurlög, mér fannst það ekkert spennandi þótt ég væri í bullandi músík alltaf. Nema hvað að Siggi Bjóla sagði að þetta væri bull í mér og skömmu síðar var ég kominn í Hljóðrita að semja texta og lög. Og ég samdi bara fyrir aðra þangað til ég fór til Rúnars Júlíussonar. Ég kem af vertíð í Eyjum og þá var ég með þrjátíu lög sem ég hafði safnað upp á tíma. Ég kem til Rúnars og bið hann að útvega mér söngvara á þetta og hafði ákveðna menn í huga eins og Sigga Kjötsúpu og þessa gæja sem voru flottir rokksöngvarar. Hann hverfur eitthvað á bak við með Þóri Baldurssyni inn í eldhús og eru þeir eitthvað að spjalla og segja við mig: „Heyrðu þú átt að syngja þetta sjálfur“. Ég sagði bara: „Ég er ekki söngvari, ég hef ekkert sungið nema sem unglingur kannski!“, en þeir sögðu að það væri ekkert hægt að bakka með það, það væri búið að ákveða þetta. Og þar með var ég farinn að syngja eigið efni og það var ekkert sem ég ætlaði.“
Bjartmar á langan og fjölbreyttan feril að baki sem hann stiklar yfir. Bjartmar hvarf svo af sjónarsviðinu á sínum tíma og fluttist til Danmerkur til að einbeita sér alfarið að myndlistinni, en kom svo aftur og álpaðist þá aftur inn í tónlistina.
Bjartmar segist aldrei hafa verið tengdur pólitískum flokki og hefur til dæmis aldrei viljað spila á samkomum einhverra flokka, en hins vegar sé hann gagnrýninn áhorfandi. Í viðtalinu segir hann skoðun sína á íslenskum stjórnmálum í dag.
Þrátt fyrir skoðanir sínar segist Bjartmar ekki tjá sig mikið almennt; þurfi hann að skjóta eitthvað geri hann það í sínum textum!