Nýjasti gestur bræðrana Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpinu Þvottahúsið er frumkvöðullinn, dáleiðarinn og orkuheilarinn Sara Pálsdóttir.
Batinn kemur innan frá
Sara, sem hefur stundað dáleiðslu og orkuheilun samhliða lögmennsku í nokkur ár segir að þessi andlega vinna sé farin að taka meira og meira yfir og að nú hafi hún tekið ákvörðun um að hætta í lögmennsku og einbeita sér eingöngu að orkuheilun, dáleiðslu og námskeiðunum sínum Frelsi frá kvíða. „Það sem veldur því er það að þetta er minn tilgangur en við komum öll í þetta líf með einhvern ákveðinn tilgangi og fáum gjafir til að fylla upp í þann tilgang. Og þetta er minn tilgangur,“ svaraði Sara þegar bræðurnir spurðu hana af hverju hún væri að snúa sér alfarið inn á andlegu brautina.
„Allur bati verður að koma innan frá. Það sem ég glímdi við sjálf, alvarlegan fíknisjúkdóm, átröskunarsjúkdóm, krónískan og mjög alvarlegan kvíða, brotna sjálfsmynd. Ég glímdi við krónísk verkjavandamál, ég glímdi við síþreytu, ég var alltaf þreytt. Sjúkraþjálfarinn minn greindi mig með vefjagigt og ég var bara orðin algjörlega örmagna og örvæntingafull. Og þegar ég var í þessari líðan, í þessari örvæntingu, þá var enginn þarna úti sem gat sagt mér hvað var að mér. Ég leitaði til allskona sérfræðinga, mismunandi lækna, sjúkraþjálfara og kírópraktora, osteopata og það var enginn sem gat sest niður með mér og sagt mér „það er þetta sem er að valda þessu og það er þetta sem þarf að gera“. Og allt sem ég reyndi og allar þessar meðferðir sem ég reyndi voru ekki að skila mér þeim árangri sem ég vildi ná út úr lífinu sem var að fá algjört frelsi frá þessum neikvæðu einkennum og verða heilbrigð. Ég vildi ekki verða öryrki, ég gat ekki lengur unnið heilan vinnudag út af því að ég var svo ofboðslega veik.“ Segir Sara að nú vilji hún hjálpa fólki sem er að upplifa það sama og hún upplifði, að komast yfir þetta og losa það við neikvæða orku sem veldur oft þessum veikindum.
Dáleiddi Wiium bræður í beinni
Aðdáendur Þvottahússins muna sjálfsagt eftir Söru er hún kom til bræðranna fyrir hálfu ári, í þætti númer 70.
Í þeim þætti fór hún yfir sína sögu og aðdragandan inn i dáleiðslu og andlega velferð. Saga hennar er lituð af mikilli þjáningu og líkamlegum kvillum sem fylgdu mikilli uppsafnaðri neikvæðri orku sem hún hefur nú náð að losa sig við, líkt og hún lýsti hér fyrir ofan. Í lok þess þáttar leiddi hún Gunnar í djúpa dáleiðslu þar sem hann varð fyrir sterkri sálrænni reynslu sem að eigin sögn náði honum upp á nýtt vitundarstig sem einkennist af mikilli gleði og léttleika í leik og starfi.
Gunnar lýsti reynslu sinni á eftirfarandi hátt:
„Ég fór alveg úr líkamanum og sameinaðist öllu því sem er, algjört out off body experience. Ég tókst á við alvarleikan, sorg og sekt og var svo leiddur út úr dáleiðslunni hlæjandi og glaður, í algjörri sæluvímu og laus undan gríðalegum þunga sem ég hafði burðast með í áratugi.“
Í þessum nýjasta þætti sem er sá 92 í röðinni, fer Sara enn frekar yfir alla þá andlegu og líkamlegu kvilla sem stafa af uppsafnaðri neikvæðri orku sem við ýmist framleiðum sjálf með óheilbrigðu hugarfari eða söfnum fyrir innra með okkur sem þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir á lífsleiðinni.
Kvíði og þunglyndi, síþreyta og almennt orkuleysi, neikvæðar hugsanir, skert sjálfmynd, krónískir verkir, meðvirkni í samböndum, svefnleysi og martraðir, höfuðverkir, fóbíur eða áráttur, vöðvabólgur, húðvandamál, fíknivandamál, magaverkir og meltingarvandamál svo eitthvað sé nefnt eru þættir sem Sara segir að hægt sé að fá frelsi frá með því að ráðast í orsök vandans sem oft liggur i undirmeðvitund okkar í formi óuppgerðra áfalla sem birtist sem neikvæð orka. Þessa orku fáum við að sjá og finna fyrir þegar við förum í dáleiðsluástand og fáum þannig aðgang að undirmeðvitund okkar. Okkur er svo í raun boðið upp á úrvinnslu í þessu ástandi sem lýsir sér þannig að við getum annað hvort losað okkur við eða einfaldlega umbreytt neikvæðri orku yfir í jákvæða orku sem við svo njótum góðs af og verðum frjáls frá þeim neikvæðu einkennum sem uppsöfnuð neikvæð orka veldur.
Í þættinum var lokatakmarkið hinsvegar að leiða Davíð í dáleiðsluástand sem lausn við krónískum verkjum í kviðholi, brjósti og mjöðmum. Verkir sem Davíð er búin að vera glíma í einhverju formi síðan hann var unglingur. Dáleiðslan gekk afar vel og augljóst var að Davíð fór í djúpt ástand dáleiðslu sem færði hann að rótum vandans. Hann nefndi í því samhengi atburði úr æsku sem og áfall sem hann varð fyrir er bróðir hans týndist í Dublin fyrir nokkrum árum síðan og hefu aldrei fundist. Eins minntist hann á álagið sem fylgdi á að vera með rekstur og mikin mannforða sem hann þurfti svo að segja upp í COVID. Hann sagði að það hefði reynst honum gríðarlega erfitt sérstaklega svona stuttu eftir að hann missti bróðir sinn á eins dularfullan hátt og raun bar vitni. Í ljós kom að sú neikvæða orka sem fylgdi áföllum fortíðarinnar hafði safnast saman í magasvæði Davíðs og var að valda sárum og krónískum verkjum. Með því að tengja sig við undirmeðvitund Davíðs í dáleiðslunni gat Sara orkuheilað hann og losað þessa orku úr magasvæði hans. Eftir því sem leið á dáleiðsluna fór Davíð að líða betur og smátt og smátt eftir því sem Sara náði að fikra sig lengra inn í kjarnann fóru verkirnir að hverfa og í lok dáleiðslunar var hann orðin alveg verkjalaus og vart gat leynt undrun sinni yfir því. Óhætt er að segja að sjón er sögu ríkari!
Frá því dáleiðslan átti sér stað þann 27 júní síðastliðinn, hefur Davíð ekki fundið fyrir þessum magaverkjum sem hann og læknar stóðu ráðþrota gagnvart.
Í lok þáttarins auglýstu þau þrjú þriðja þáttinn sem verður tekin upp eftir einhverja mánuði þar sem Sara ætlar að framkalla svokallaða fyrralífs dáleiðslu þar sem Gunnar mun þá sitjast í stólinn og mögulega komast að því hver hann var og hvaða hlutverkum hann gengdi í sínum fyrrum lífum.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér starf og þjónustu Söru Pálsdóttur er bent á facebook síðu hennar Frelsi frá kvíða og svo heimasíðu hennar.
Þennan áhrifaríka og töfrandi þátt má heyra og sjá í heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan ásamt að Þvottahúsið má finna á öllum helstu streymisveitum.