Viðmælandi Guðna Ágústssonar að þessu sinni er Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna. Gunnar hefur rekið Gróðararstöðina Ártanga á samnefndri jörð í Grímsnesi frá því að hann og kona hans byggðu þar nýbýli árið 1986.
Gunnar tók við á erfiðum tímum fyrir Bændasamtökin en Hótel Saga ehf. sem rak samnefnt hótel og var í eigu Bændasamtakanna varð lýst gjaldþrota síðla árs 2021. Spurður hvort Covid-19 hafi sett hótelið á hausinn játar Gunnar því og kallar málið allt eina sorgarsögu „það eru ýmis kennileiti til ársins 2020 sem gerir það að verkum að þetta varð í rauninni ekki að neinu. Það er líka umhugsunarvert að þegar menn fara inn á Búnaðarþing, sko hvað er þetta 2017 frekar en 2016, með samþykkt kauptilboð frá stjórn inn á Búnaðarþing sem fellir þetta með örfáum atkvæðum. Síðan eftir það þá er farið í ýmsar ráðstafanir sem að leiða það að verkum að nánast allt eigið fé er brunnið upp til ösku. Farið í heilmikið viðhald og endurbætur sem kostuðu umtalsverða fjármuni og ég held að þetta hafi ekki verið góð ráðstöfun.“
Spurður út í starfsemi Bændasamtakanna vekur Gunnar athygli á því þegar búnaðargjald var afnumið, frá og með gjaldári 2018 í kjölfar dóms Mannrétindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjald, og það stillt á núll er í dag enginn Bjargráðasjóður og enn fremur litlir sem engir peningar til rannsóknasjóðanna „rannsóknir, tilraunir og kynbætur – þetta fór allt út með því að setja búnaðargjaldið í núll! Og svo segja menn að við verðum að reka Bændasamtökin á framlögum bænda eða sem sagt bændur reka sitt félagskerfi, gott og vel, en ég held að menn hafi bara ekkert hugsað þetta alla leið á þeim grunni að veltutengt búnaðargjald var 1,2% af allri veltu í íslenskum landbúnaði og tekjurnar sem Bændasamtökin höfðu á þessum tíma á þessum grunni voru um 800 milljónir króna. Á þessu ári erum við að berjast við að ná endum saman með um 180-190 milljónir króna í félagsgjöldum frá bændum og þá eigum við eftir að reka allt tilraunastarfið og allt hitt. Ég segi nú bara að ég held líka að bændur þurfi að horfa til þess að ef bændur ætla ekki að standa vörð um eigin hagsmuni þá mun enginn gera það fyrir þá.“
Þeir verða að standa á bakvið Bændasamtök Íslands ef þeir ætla að hafa einhvern sameiginlegan málsvara í slagnum. Það er bara þannig; standa sem heild í því.
Um hlutverk Bændasamtakanna segir Gunnar „Bændasamtök Íslands eru í raun og veru hagsmunasamtök bænda um hvernig eru lög og reglur um aðbúnaðarhætti og eftirlit og reglugerðir um starfsleyfi þeirra sem þurfa starfsleyfi. Svo samtalið við ríkisvaldið um hvernig við útfærum búvörusamninga.“
Það er álit Gunnars að búvörusamningar ættu að vera endurskoðaðir einusinni á ári í stað þess að vera gerðir á tíu ára fresti þar sem nú er uppi gerbreytt staða. Milli endurskoðunarákvæða áranna 2019 og 2023 hafi ýmislegt breyst eins og hækkanir á aðföngum til landbúnaðar og áburðarverð í sögulegu hámarki. Til lausna á áburðarvandanum stingur Gunnar upp á að umfram sú orka sem fellur til við álframleiðslu og fyrirhugað er að nýta til vinnslu raf-eldsneytis verði jafnframt nýtt til áburðarframleiðslu enda þurfi þær verksmiðjur sem vinna raf-eldsneyti litlar viðbætur til að framleiða áburð einnig.
Spurður út í byggðamálin lítur Gunnar svo á að Íslendingar séu velviljaðir íslenskum landbúnaði og að Íslendingar kjósi frekar að sjá blómlegar byggðir og slegin tún en arfa og illgresi „
það er ekki alveg gott að stýra byggðaþróun með framleiðslustyrkjum sko. Ef við ætlum að hafa landið í byggð sem allflestir eru sammála um þá þurfum við að gera það í gegnum stuðning um byggð og byggðir. Eini byggðastuðningurinn er kannski greiðslumark í sauðfé en þú ætlar kannski ekkert að vera þar sko. Þá segi ég bara og hvernig ætla menn þá að veita byggðastuðning í þessum dreifðu byggðum sem eiga undir högg að sækja.“
Gunnar nefnir svo að við sem þjóð og framleiðendur landbúnaðarvara ættum frekar að einblína á hágæða vöru til útflutnings en ekki líta til þess að framleiða þúsundir tonna af lambakjöti til Bandaríkjanna.
Við eigum að vera í gæðavöru sem er framleidd með hreinu íslensku vatni, engum sýklalyfjum og á þeim grunni eigum við að geta presenterað vöruna.