Árið 2005 komu samhliða út bókin og heimildarmyndin Skuggabörn. Myndina fjallar um gerð bókarinnar en hana gerðu Jóakim Reynisson og Lýður Árnason í samstarfi við Þórhall Gunnarsson. Efnistökin voru fíkniefnaneysla hérlendis á þessum tíma og meðal annars skyggnst inn í líf einstaklinga sem voru í neyslu.
Nú tæpum 20 árum síðar skyggnumst við inn í líf sumra þeirra einstaklinga sem komu fram í upprunalegu útgáfunni í þáttunum Hvað varð um Skuggabörn og við bjóðum að því tilefni upp á myndina í fullri lengd.
Í þessum fyrsta þætti tekur Reynir Traustason viðtal við Kristínu Guðmundsdóttur sem kom fram í myndinni sem aðstandandi dóttur sinnar en öll börn hennar ánetjuðust fíkniefnum. Síðan myndin kom út hefur annar sonur hennar fundist látinn, sem má rekja beint eða óbeint til fíkniefnaneyslu, og annar afplánar nú fangelsisvist fyrir morðið á fyrrum sambýlismanni hennar á Spáni árið 2020.
Kristín lýsir hvernig andlát sonar hennar bar að en hún telur að hann hafi verið myrtur og ræðir það ítarlega í þættinum.
Kristín segir frá því að fjölskyldan hafi verið á leið til Spánar árið 2017. Kvöldið fyrir ferðina til Spánar keyrði Kristín son sinn til að kveðja vinkonu hans og var það í seinasta skipti sem hún sá son sinn lifandi.
„Kvöldið áður þá keyri ég hann á ákveðinn stað til kveðja vinkonu sína og ætluðum að heyrast í hádeginu daginn eftir. Ég leitaði að honum alveg þar til rúmlega tvö daginn eftir og það svarar enginn síma og ekkert. Við vorum eiginlega búin að gefast upp, ég og dóttir mín, að leita að honum. Ég sagði: „Það er aldrei svo slæmt, hann hringir alltaf fyrir rest“ en þá áttum við að vera farin í loftið til Spánar. Ég ákvað bara „So, be it. Við förum bara seinna.“. Ég var hjá vini mínum klukkan hálf 10 um kvöldið og það er hringt í mig, lögreglan. Hún spurði hvar ég væri og ég sagði þeim það og hann spurði hvort hann mætti koma tala við mig. Ég sagði nei, hann gæti bara sagt mér í símann. Það gæti ekki verið svo slæmt. Þá tilkynnti hann mér það í símann að sonur minn væri látinn.“
Hér má sjá þáttinn í heild sinni.