Elín Hirst er einhver vinsælasta sjónvarpsstjarna á Íslandi. Hún var um tíma fréttastjóri Ríkisútvarpsins, Stöðvar 2 og DV. Óneitanlega glæsilegur ferill.
Elín tók svo U-beygju og ákvað að fara á Alþingi. Eftir eitt kjörtímabil náði hún ekki endurkjöri. Þetta átti ekki við hana og Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði henni.
„Það er mjög sjaldgæft að sitjandi þingmaður fái ekki brautargengi. Ég held ég hafi ekki passað inn í. Þegar Bláskjár var kominn þá var hann ekki ofsalega hollur,“ segir Elín Hirst í viðtali við Mannlífinu.
„Eftir á að hyggja er þetta mjög mikilvægur partur af skóla lífsins að hafa farið þarna inn. Það er ofsalega skrýtið að koma inn eftir öll þessi ár á vinnumarkaði og hreinlega vera algjör byrjandi. Ég fann mjög mikið fyrir því og það tók mig heilt ár að læra undirstöðuatriðin varðandi störf þingsins; hvernig þingið vinnur og hvernig best sé að vinna til að koma einhverju áfram. Þetta er svo flókið kerfi. Hið lýðræðislega kerfi er svo flókið og stundum finnst manni það hægfara og það þarf að passa svo vel upp á öll sjónarmið. Ég myndi segja að ég hafi aldrei fundið mig þarna almennilega. Samt gaf ég kost á mér aftur. Ég myndi alls ekki hafa viljað missa af þessari reynslu; ekki fyrir nokkurn pening.“
Elín er í dag í óskastarfinu á Hringbraut og tekur sjónavrpsviðtöl og skrifar leiðara í Fréttablaðið.