Gestur Guðna Ágústssonar að þessu sinni, stórbóndinn, félags- og mannfræðingurinn Hjördís Leifsdóttir á Brúnastöðum í Fljótum, hefur áhyggjur af afkomu sauðfjárbænda.
„Það eru gríðarlega erfiðir tímar fyrir sauðfjárbændur. Ég hef miklar áhyggjur af hvað verður. Ég held að núna þessa dagana sé fólk að taka afdrifaríkar ákvarðanir um sína framtíð því fólk er að panta og kaupa áburð og það er bara stærri biti en margir ráða við þannig að ég held að fólks sé að velta fyrir sér hvað verður með framtíðina því að það er ekki bara þannig að þetta sé að skella á núna heldur hafa undangengin ár verið svo erfið og fólk er búið að ganga svo á bæði fjármagn og þol því það hefur alltaf kannski trúað því að eitthvað betra sé framundan en maður sér það ekki alveg í hendi sér að svo sé. Það er ekki bara áburðurinn sem mun hækka heldur öll aðföng og þó ég viti núna að staða birgða sé góð þá held ég ekki að það muni duga til. Það mun þurfa að verða mikil hækkun [afurðaverðs] ef endar eiga að ná saman, það er bara svoleiðis.
Það er svo auðvelt að vera með orðræðu sem gengur í fólk að matvælaverð sé allt of hátt og það sé miklu lægra annarsstaðar en málið er að ef við hugsum um það þá kostar að framleiða mat ef við ætlum að borga fólki mannsæmandi laun, hafa aðbúnað eins og við sættum okkur við við skepnurnar þá kstar að framleiða þessa vöru og ef hún kostar ekki mikið þá er einhversstaðar pottur brotinn, það segir sig sjálft.“
Ær, kýr og fósturbörn
Hún telur að þegar komi að innfluttum afurðum þurfi að skoða aðbúnað skepnanna, hvaða lyf þau hafi fengið og gera þurfi sömu kröfur til innlendra og innfluttra afurða.
Hjónin Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Ríkharðsson fluttu að Brúnastöðum árið 2000 og reka þar fjölbreytt bú. Þau halda þar 750 ær og með um 2000 kindur í afrétti, Anguskýr, geitur, eru skógarbændur, reka lítinn húsdýragarð auk þess að eiga í samstarfi við grænlenskan landbúnaðarháskóla og taka að sér fósturbörn.
Ostaframleiðsla
Í vinnslu þeirra framleiða þau bæði kjörafurðir sínar en leggja jafnframt mikinn metnað í framleiðslu geitaosts.
„Allt umhverfi smáframleiðslu er orðið okkur svo vinsamlegt. Við byrjuðum á að taka námskeið um beint frá býli þar sem við fengum svo mikla handleiðslu varðandi hvaða reglugerðir gilda og hvernig maður á að leita sér aðstoðar og sækja styrki en þetta er svo nauðsynlegt þegar maður ætlar að hella sér út í [framleiðslu] því þetta kostar svo mikla peninga. Við létum slag standa og gerðum þessa vinnslu sem þýðir að við erum ekki bara að búa til osta heldur getum við meðhndlað allar okkar afurðir; kjöt og annað. Nú erum við búin að vera í þessari otaframleiðslu í rúmt ár og það hefur gengið ótrúlega vel. Okkar heppni eða skynsemi var að fá með okkur í lið gott teymi. Við fengum frábæran ostagerðarmann með okkur, Guðna Hannes, en það er algert skilyrði að fólk viti hvað það er að gera og geri það vel. Jóhannes er alger snillingur í ræktun og þú þarft að kunna að umgangast skepnurnar til að fá frá þeim afurðir. Svo er ég í sölumálum og krakkarnir sjá um tæknimálin. Þetta er flókið og dýrt ferli því maður pakkar ekki bara vörunni upp í bíl og keyrir á einhverja afurðastöð og einhver tekur við keflinu þar.“
það eru heilu sveitirnar komnar í eyði
Hjördís lítur svo á að nauðsynlegt sé að þétta byggð á landsbyggðinni til að koma til móts við ferðaþjónustuna þegar hún mun færast aftur í vöxt „Það er bara einhvern veginn þannig að þurfa allir hvor á öðrum að halda og það er orðið stjrálbýlt víða nú þegar, mjög. Maður keyrir um landið, sérstaklega austurfyrir, og það eru heilu sveitirnar komnar í eyði. Þetta er svo sorglegt að sjá því hurðinni hefur verið lokað á bæjunum og það eru ekki ljós. Það eru engir ríkir aðilar að kaupa þetta til að nýta sem sumarhús og á þessum strjálbýlu svæðum sem eru ekki vinsæl til ferðaþjónustu, það er ekki einusinni markaður fyrir jarðirnar og folk virðist ganga út eignalaust. Þetta er ótrúlega sorglegt. Viljum við að landið sé svona? Að folk keyri um landið og það séu heilu sveitirnar í eyði. Viljum við að fólk upplifi það?“