„Gúrkusali“ ræðir við Guðna: Jarðaberjaræktun stopp eftir að húsin fuku í fárviðri

top augl

Gunnlaugur Karlsson, sem sjálfur hefur tekið sér titilinn „gúrkusali“, en ber opinberlega titil framkvæmdarstjóra Sölufélags Garðyrkjumanna er gestur Guðna Ágústssonar að þessu sinni.

Gunnlaugur var strax sem barn farinn að stunda garðyrkju ásamt móður sinni og fjölskyldu á Flúðum. Hann nam svo Iðnrekstrarfræði en lauk svo í framhaldinu alþjóða markaðsfræði. Þegar hann tók við starfi sínu hafði hann fyrirhugað að stoppa þar aðeins í stuttan tíma en hefur nú í ár starfað hjá fyrirtækinu í tuttugu ár.

Í viðtali sínu við Guðna vekur hann athygli á þeim sorglegu atburðum sem urðu þegar húsakostur einna fremstu jarðaberjaræktenda í Norður-Evrópu hreinlega gaf sig í ofsaveðri nú í vetur. Um ræðir Jarðaberjaland í Reykholti í Biskupstungum sem rekið er af Hólmfríði Geirsdóttur og eiginmanni hennar Steinari Jensen.

Segja má að þau hafi verið nánast búin að fullkomna ræktunina þegar tjónið varð og eftir bakþanka hafa þau þó tekið ákvörðun um að halda rekstrinum áfram en þau ljón eru í veginum að ekki hefur fengist aðili til að steypa undirstöðurnar að nýjum húsakosti með þeim afleiðingum að uppbyggingin hefur stöðvast með öllu.

Segja má að Íslenskir grænmetisbændur hafi verið frumkvöðlar á matvælasviði árið 2002 þegar þeir tóku í notkun vörumerkið „Þú veist hvaðan það kemur“. Á þeim tíma voru áherslurnar erlendis mestmegnis á verðlagningu, og í einhverjum tilfellum vörumerki einstakra framleiðenda, en í dag skiptir rekjanleiki vörunnar neytendur gríðarlegu máli sem endurspeglast í breyttri framsetningu framleiðenda.

Gunnlaugur tekur undir það með Guðna að þessi hugsun og nálgun á markaðssetningu eigi við í allri íslenskri matvælaframleiðslu. Neytendur dagsins í dag gera kröfu á að geta rakið matvæli sín bæði með merkingum á umbúðum og jafnvel sótt sér frekari upplýsingar með strikamerkjum og QR kóða auk þess sem kolefnisfótspor vörunnar skiptir neytendur miklu máli.

Í tengslum við Sölufélag Garðyrkjumanna hefur verið stofnað fyrirtækið Matartíminn sem sérhæfir sig í því að dreifa hollum gæða mat til íslenskra grunnskóla. Þarna er ekki eingöngu sýslað með grænmeti heldur bera þau á borð kjöt og fisk að auki og er allt hráefnið íslenskt.

Gunnlaugur telur að það séu gríðarleg sóknarfæri í aukinni matvælaframleiðslu á Íslandi þar sem við búum yfir bæði þekkingu og þeim auðlindum sem þarf til að vinna gæða afurðir en í tilfelli garðyrkjustöðvanna þurfi að skoða reglugerðir á borð við flutningsgjöld á rafmagni þar sem þær kveða á um það í dag að tekið sé mið af fjölda ábúenda svæðisins þegar kemur að ákvörðun gjaldtöku og dæmi séu þess að þar sem garðyrkjustöð og byggðarkjarni nýta sama rafstreng greiði stöðin hærra gjald af þessum sökum.

Matvælaframleiðsla okkar hérlendis tryggir okkur bæði fæðuöryggi og jafnframt dregur úr þörf á að afla gjaldeyris til að kaupa aðflutt matvæli og aðföng.

Það eru mikil sóknarfæri í ræktun á t.d. korni en Gunnlaugur gerði sér það að leik að reikna andvirði þess strandreyrs sem Flúðasveppir nota við sína ræktun byggt á því verði sem reyrinn fyrir utan braggann fræga í Öskjuhlíðinni í Reykjavík fékkst á og komst að þeirri niðurstöðu að þar lægi andvirði 20 milljarða. Hvort það sé eiginlegt gangverð á stráum skal ósagt látið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni