Í öðrum þætti Kíkt í Heimsókn lítur Valdís Samúels í heimsókn til Andra Más, lýtalæknis, á Læknastofum Reykjavíkur. Andri Már nam í Svíþjóð hvar hann svo starfaði og fór meðal annars fyrir teymi sem annaðist smásjárskurðlækningar en slíkar aðgerðir teljast frekar til uppbyggjandi lýtaaðgerða en fegrunaraðgerða.
Hann segir frá því að hérlendis hafi hann ásamt samstarfsfélögum sínum eitt sinn þurft að endurgera upphandlegg á litla stúlku sem hafði greinst með beinkrabbamein. Til að fjarlægja krabbameinið hafi þurft að fjarlægja stóran hluta af beininu og um helming vöðvanna en teyminu tókst að endurgera beinið í upphandleggnum og axlarliðinn með því að nýta sperrilegginn úr öðrum fætinum.
Andri segist ekki geta gert upp á milli fegrunaraðgerða og uppbyggjandi lýtalækninga þó hann sé vissulega að mestu leyti í fegrunaraðgerðum í dag, eftir að hann flutti aftur til Íslands. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að hjálpa fólki hvort sem um ræðir að hjálpa skjólstæðingi sem af einhverjum sökum líður illa vegna þess sem gæti talist til lýtis eða viðgerðir vegna meðfæddra galla eða i kjölfar sjúkdóma, slysa o.þ.h.
Áður en Andri tók ákvörðun um að nema læknisfræði hóf hann sálfræðinám. Honum fannst það ekki henta sér en í lok þáttarins bauð hann Valdísi á bekkinn og rifjaði upp gamla takta. Hvort hann hefði orðið góður sálfræðingur ef lýtalækningarnar hefðu ekki orðið fyrir valinu verður hver og einn að dæma um fyrir sig.
Þættirnir Kíkt í Heimsókn eru í opinni dagskrá.