Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er gestur Reynis Traustasonar í persónulegu viðtali í þættinum Sjóarinn.
Sem ungur maður var hann til sjós í fimm ár, fyrst árið 1956 sem hjálparkokkur á Hval 1 undir skipsstjórn Friðberts Elís Gíslasonar frá Súgandafirði og svo aftur þremur árum seinna sem í háseti í fjögur sumur.
Hvalur var stofnaður 1947 en Kristján segir að það sé rangtúlkun að faðir hans og Vilhjálmur Árnason hafi átt félagið því það hafi veriðið einskonar almenningshlutafélag þar sem það hafi verið yfir hundrað hluthafar á þeim tíma.
Að loknu námi í Wales sneri Kristján aftur heim til Íslands, hóf störf á skrifstofu Hvals fyrir föður sinn og hefur ekki unnið annað starf síðan.
Starfsemi Hvals var stöðvuð síðasta sumar þegar matvælaráðherra setti á tímabundið bann við veiðum á langreyðum. Aðgerðin hafði í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir fyrirtækið og í framhaldinu komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að bannið samrýmdist ekki kröfum um meðalhóf og því ekki í samræmi við lög.
Spurður út í hvernig hægt væri að reka fyrirtækið þegar engin væri innkoman svarar hann því til að það sem hafi bjargað þeim væri það að fyrirtækið væri ágætlega stætt og rekið, hefði verið um fyrirtæki sem ekki væri fjárhagslega öflugt að ræða væri það farið á hausinn.
Kristján segir jafnframt að málarekstur við ríkið taki fleiri ár, menn hafi ekkert úthald í það og gagnrýnir framgang vinstri grænna í málinu.
„Stalínistarnir vilja hafa þetta svona. Þetta samþykkja þeir allir í vinstri grænum og það eru allir með í þessu. Þetta er klappað upp á flokksþinginu, skilst mér, og forsætisráðherrann og þingmennirnir allir tekið undir þetta. Þetta eru stalínistar og ef menn vilja fá yfir sig svona stjórnarhætti á Íslandi þá kjósa þeir vinstri græna.“