Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferða-, menningar- og viðskiptaráðherra, fæddist í Breiðholtinu í Reykjavík árið 1973. Hún er dóttir Guðnýjar Kristjánsdóttur, prentara, og Alfreðs Þorsteinssonar, borgarfulltrúa, framkvæmdastjóra og íþróttafréttaritara.
Foreldrar hennar kynntust á ráðstefnu ungra Framsóknarmanna og sem barn stóð Lilja í þeirri trú að Framsóknarflokkurinn væri hinn pólitíski armur Knattspyrnufélagsins Fram, hvar faðir hennar var gallharður stuðningsmaður.
Lilja sótti menntun sína í Fellaskóla og æfði fimleika með Gerplu. Hún hélt þaðan í Menntaskólann í Reykjavík og nam þar við fornmáladeild. Eftir útskrift fór hún sem skiptinemi til Suður-Kóreu en kom svo aftur heim og lagði stund á stjórnmála- og hagfræðinám við Háskóla Íslands. Áður en hún svo lauk námi sínu við Columbia University of New York gerðist hún einnig skiptinemi við háskólann í Minnesota.
Lilja starfaði hjá Seðlabanka Íslands og var þar við störf þegar hrun íslenska bankakerfisins reið yfir.
Þegar hún lauk störfum hjá Seðlabankanum gekk hún til liðs við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og gerðist verkefnastjóri þar og kom að verkefnum aðlútandi losun fjármagnshafta í kjölfar bankahrunsins, sem má segja að hafi verið lokahnykkurinn á fjármálahruninu. Vogunarsjóðirnir slepptu tökum sínum á íslenskum eignum gegn eignum í erlendri mynt. Þeir 690 milljarðar sem skiluðu sér í ríkiskassann í kjölfarið eru í raun þeir fjármunir sem hafa nýst til að létta þær byrðar sem Ríkissjóður hefur þurft að taka á sig til að koma Íslandi í gegnum yfirstandandi Covid-tímabil.
Í kjölfarið óskaði Sigmundur Davíð svo eftir því að hún kæmi inn í stjórnmálin og kom hún inn í ríkisstjórn hans sem utanríkisráðherra til skamms tíma, þar sem langan tíma tók að mynda ríkisstjórn árið 2016.
Hún fór svo í framboð og varð mennta- og menningarmálaráðherrra en margir útgefendur telja hana einn mesta velgjörðarmann bókmenntanna út af endurgreiðslukerfinu sem komið var á í hennar tíð og fyrir hennar tilstilli. Hún lítur svo á að menntakerfið sé mesta jöfnunartækið milli stétta og vilji maður hafa hreyfanleika milli stéttanna þarf öflugt menntakerfi, en þar skipti lesturinn svo miklu máli. Lilja segir lesturinn grunninn að öllu sem við gerum og því þurfi að vera til fjölbreytt lestrarefni.
Hún sá það þegar hún var að byrja í stjórnmálum að bókaútgáfa var að dragast saman. Upphaflega hafði hún þá hugmynd að lækka virðisaukaskatt á bókum en hún sá að til staðar var endurgreiðslukerfi í kvikmyndageiranum. Eftir að þetta var sett á laggirnar hefur það haft í för með sér að bókaútgáfa hefur aukist um 37 prósent í heildina en hún hefur lagt sérstaka áherslu á efni fyrir börn og ungt fólk, og er aukningin þar 50 prósent.
Hún telur að við stöndum frammi fyrir þeim vanda að ung börn í dag fái spjaldtölvu til afnota jafnvel 9 mánaða gömul og það hafi í för með sér að börnin heyri strax tvö tungumál, sem svo skilar sér í að máltaka barna gerist seinna og þetta hefur áhrif á málþroska þeirra. Þess vegna sé mikilvægt að halda íslenskunni sem mest að börnum. Ekki síst eigi þetta við börn innflytjenda sem oft fái ekki þann stuðning við íslenskunámið heima við sem þörf er á.
Lilja hefur mikinn metnað til þess að tengja ferðaþjónustuna við menninguna og hinar skapandi greinar því hún telur að hér á landi sé svo margt að sjá; bókmenntirnar, kvikmyndirnar, leikhúsin og fornsögurnar.
Lilja vill svo efla söfnin okkar og segir „Það verður gaman að móta ferðaþjónustuna á næstu árum og það þarf að leggja meira í söfnin okkar. Nú í fyrsta sinn er að rísa náttúruvísindasafn sem ég vil að sé náttúruvísindasafn frekar en náttúruminjasafn. Ég vil sjá að við séum með söfn og afþreyingu sem er á heimsmælikvarða. Að fólk komi á svona safn og fræðist um allt sem tengist jarðvísindum og náttúru. Jarðvísindin hér á Íslandi eru svo heillandi; þetta er ein stór tilraunastöð. Að fólk sem hefur komið til landsins geti fræðst um jarðvísindin, eldsumbrot og margt fleira.“
,,Söfnin þurfa að vera lifandi, skemmtileg og barnvæn. Þegar þér tekst að fá börnin inn á söfnin þá munu þau svo koma með börnin sín í framtíðinni. Mikilvægt að vera með safn sem tengir börn, vísindi og söguna. Fólk sem kemur til landsins hefur áhuga á að börn þeirra fræðist. Svo má til dæmis líta til sögusýningarinnar „1238“ á Sauðárkróki þar sem verið er fara yfir Örlygsstaðabardaga. Þarna erum við að kynnast sögunni í gegnum sýndarveruleika sem er rosalega flott. Við eigum að gera meira af þessu.“
Lilja telur að við eigum að nýta þau sóknarfæri sem finnast í gæðum íslensk hráefnis. „Ég sé það fyrir mér að við höldum áfram að efla ferðaþjónustuna og byggðina hér í kringum allt landið með því að kynna íslenskan mat og íslenskt hráefni. Þetta er í hæsta gæðaflokki og lífrænt ræktað. Ullin okkar fer áfram sigurför um heiminn og er aftur komin í tísku. Það sem við eigum að gera er að nýta íslenska hönnun og íslenska framleiðslu og lyfta þannig því upp sem við erum að gera hér og skapa okkur sérstöðu.
Við eigum að vera að framleiða miklu meira af grænmeti hér á Íslandi. Frekar en að vera að flytja inn grænmeti þá ættum við að vera að fltyja út grænmeti. Við eigum alltaf að vera að hugsa það hvernig við getum aukið verðmætasköpun og hvernig við getum framleitt með hagkvæmari hætti og til þess líka að landbúnaðurinn eflist þarf það líka að eiga sér stað að ungt fólk vilji fara inn í greinina og að það geti lifað vel af henni.“
Að lokum segir Lilja: „Það er ekki spurning að fólk vill í auknum mæli búa á landsbyggðinni og það hefur verið að breytast í Covidinu. Fólk vill aðra búsetu og það er innbyggt í okkur að vilja vera nálægt náttúrunni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þarna eru sóknarfæri í að byggja landsbyggðina og því er mikilvægt að við stöndum framarlega í tækninni, því fólk þarf að geta haft færanlega atvinnu.“