Mummi barðist við meingallað kerfi: „Félagsþjónustan í Hafnarfirði drap þessa stúlku“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium er engin annar en Týr Þórarinsson sem er kannski betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni. Mummi er rokkari, mótórhaus, bindindismaður og kvikmyndagerðarmaður í grunninn og listaspíra inn við hjartað.

 

Mummi gengur nú undir nafninu Týr.
Ljósmynd: Aðsend

Götusmiðjan

Mummi var villingur, tossi að eigin sögn. Gekk illa í ferköntuðu skólaumhverfinu og fljótt var hann farinn að misnota fíkniefni. Honum var svo reyndar sparkað úr meðferð af Vogi eftir sjö daga fyrir að vera ekki nógu góður alki eins og hann orðaði það en nú hefur hann verið edrú í um 30 ár.

Mummi er einna helst þekktur fyrir ötult starf með unglingum í fíknivanda og rak í um 14 ár meðferðarheimilið Götusmiðjan sem að eigin sögn skilaði mjög góðum árangri. Hann fann sig í þessum bransa eftir að hann hóf störf í félagsheimili þar sem hann kenndi unglingum kvikmyndargerð. Þar hitti hann unglinga sem hann tengdi strax við, unglingsdrengi sem virtust eiga erfitt uppdráttar og oft á tíðum bjuggu við mikinn óstöðuleika heima fyrir. Segir hann að hann hafi fundið að þessar týpur sóttu mikið í hann og að hann nyti virðingar sem hann svo nýtti sér til framdráttar í vinnu sinni með þessum hópi seinna meir. 

Smátt og smátt færðist hann meira og meira yfir í að hýsa þessi ungmenni sem mörg hver áttu sér engan samastað. Allt frekar tímabundin verkefni sem ollu oft á tíðum fjarðarfoki hjá hinu opinbera. Hann hefur verið ásakaður um ýmislegt í gegn um tíðina og það lýsti sér strax í byrjun í viðtölum með hinu opinbera. Hann var meðal annars spurður út í þennan áhuga á ungun drengjum og hvort þær væru af einskonar anarlegum hvötum byggðar. 

Mummi horfði upp á þessi ungmenni fara inn og út úr meðferðum og sum hver deyja. Hann heyrði hið opinbera lýsa því yfir að vandi húsnæðislausra ungmenna í fíknivanda væri engin og því tók hann af skarið og opnaði Götusmiðjuna, meðferðarúrræði með óskilgreindan tíma þeirra sem nýttu sér úrræðið. Eina skilyrðið var að börnin væru undir 18 ára og hafði barnaverndarstofa svokallaða yfirumsjón með milligöngu þeirra ungmenna sem nýttu sér úrræðið. Á þeim 14 árum sem Götusmiðjan var starfrækt fóru um 2.000 ungmenni í gegnum úrræðið og með mjög góðum árangri að eigin sögn. Hann nefndi í viðtalinu tölfræði sem miðuðu við það að að tveimur árum liðnum úr meðferð voru um 50% ungmenna í góðum málum og sjálfbær félagslega og fjárhagslega, með vinnu og þak yfir höfuðið.

Kerfið drepur

Ferill var settur af stað með samkomulagi milli Mumma og Braga Guðbrandssonar, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu um að barnaverndaryfirvöld myndu taka við heimilinu og Mummi myndi stíga til hliðar eftir öll þessi ár í 150% vinnu. Yfirtakan fór af stað eins og samið var um en áður en síðustu samningarnir höfðu verið undirritaðir fór af stað atburðarrás sem varð til þess að Götusmiðjunni var lokað rétt sí svona, börnunum hrúgað upp í rútu og keyrð í burtu. Bragi og Mummi hafa síðan eldað grátt silfur saman og endaði þessi atburðarrás í réttarsal þar sem Mummi stefndi Braga vegna átta ummæla sem hann lét falla í fjölmiðlum í tengslum við þetta mál og var Bragi sýknaður með öllu.

„Málið er það að Bragi fór ekkert dult með það að hann ætlaði að taka mig niður. Og það var talsvert áður en Götusmiðjunni var lokað,“ sagði Mummi við bræðurna. Ástæðuna sagði Mummi vera margþætta. „Ég var kjaftfor, þetta gekk vel, þetta virkaði, ég var gagnrýninn á kerfið, mjög gagnrýninn. Eins og félagsfræðingar hvísluðu að mér sögðu, ég vildi að ég gæti talað en ég er bundinn þagnareið. Ég efast um að það sé mikið skárra en kerfið var svo grútmáttlaust og möskvarnir í öryggisnetinu voru svo stórir að það féllu einhvernveginn flestir niður um þá.“ Mummi nefnir svo dæmi um 16 ára stúlku sem kom upp í Götusmiðju en saga hennar var mikil harmsaga, ofbeldi og misnotkun inni á heimilinu en mamma hennar seldi hana og systur hennar. „Þessi stelpa talaði ekki, hún bara urraði. Og reyndi að vera eins óaðlaðandi og hægt var. Nema hvað að hún er hjá okkur í tvö ár, tekur bílpróf, fær dellu fyrir hestum en við vorum með hesta og tónlistarsmiðjur og listasmiðjur og fleira. En daginn sem hún varð svo 18 ára, þá þvoði félagsþjónustan í Hafnarfirði hendur sínar af henni. Við vildum halda henni til tvítugs en nei, það var engin miskun, hún átti bara að fara. Við fórum á fund eftir fund og bara „please“ en það var bara „computer says no“. Ég sagði þeim að þetta væri sérstakt tilfelli og ég vilji vera með hana áfram en að þau verði að hjálpa mér með þetta, borga henni vasapening eða eitthvað. En nei, hún er orðin 18, þá verður hún að fara. Það eina sem félagsþjónustan bauð henni var lítil stúdíóíbúð lengst út í Hafnarfirði, því hún var þaðan. Stelpugreyið náði að vera edrú í kannski mánuð. Hálfum mánuði seinna var hún dáin. Það var á þriðja hjartastoppi eftir að hún byrjaði að sprauta sig aftur. Ég segi, félagsþjónustan í Hafnarfirði drap þessa stúlku.“

Æviráðinn Bragi

Wiium bræður spurðu Mumma nánar út í þátt Braga í að ná honum niður.

„Hann hlustaði á endalausar kvartanir frá kerfinu um mig og einhversstaðar skapaðist alveg veruleg óvild í minn garð. Bragi var þarna forstjóri Barnaverndarstofu. Og gargandi fyllibytta. Það eru endalausar fylleríssögur af honum út í á einhversstaðar skilurðu, þetta er ekkert leyndarmál, þjóðin veit þetta. Hann er bara mjög tjónaður einstaklingur. En æviráðinn. Barnaverndarstofa verður til í tíð Jóhönnu en þau eru góðir vinir. Bragi smíðar Barnaverndarstofu, tekur forstjórastólinn og rekur það batterí alveg frá byrjun. Hann var með æviráðningu en einn ráðherrann sem var þá við völd hringdi í mig og spurði „hvernig í andskotanum losna ég við þennan mann?“, skilurðu, hann var sjálfur að koma sér út í horn. En hann Bragi var búinn að segja við mig að hann skyldi koma mér niður, með góðu eða illu.“

„En af hverju?“ spurði Gunnar Mumma. „Ég geri ráð fyrir að ég hafi verið illa liðinn af kerfinu, félagsþjónustum, barnavernd. Ég hlífði engum. Ég var ekki að meiða fólk en ég réðist á stofnanirnar alveg einbeittur.“

Bragi hélt því fram að meðal annars að undirrót lokunar Götusmiðjunnar væri stjórnunarvandi forstöðumannsins Mumma sem væri farinn að bitna á meðferðinni og skaða börnin sem væru í meðferð. Bragi vildi meina að  samskipti Mumma við börnin væru farin yfir velsæmismörk og framganga hans farin að valda vanlíðan og óöryggi, auk þess átti Mummi að hafa lagt starsmenn í einelti og ekki síst hótað ungmennum líkamsmeiðingum.

Sagan sem Mummi sagði hinsvegar í Þvottahúsinu í miklum smáatriðum stangast hinsvegar algjörlega á við ásakanir Braga sem nú gegnir hlutverki innan nefndar á vegum Sam­ein­uðu þjóð­anna sem fer með rétt­indi barna.

Viðtalið við Mumma í Götusmiðjunni er eitt það lengsta sem Þvottahúsið hefur tekið upp, heilar 2.5 klst. Handritið sem lagt var upp með í byrjun hljóðaði upp á rúma klukkustund en flæðið bauð ekki upp á annað enda er Mummi mikil sögumaður og með mikið líf á bakvið sig. 

Viðtalið má sjá og heyra í heild sinni hér á spilaranum fyrir neðan en einnig má finna Þvottahúsið á öllum helstu streymisveitum eins og Spotify svo eitthvað sé nefnt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni