„Afi var meðhjálpari í kirkjunni þannig að þau trúðu einlæglega á Guð og að Guð gæti bjargað fólki. Hún lét mig þess vegna fara með bæn á hverju kvöldi. „Góður Guð, ekki láta mömmu mína deyja. Þetta er kannski ekki mjög skynsamleg uppeldisaðferð þegar maður fer að hugsa um það út frá sálarlífi barnsins; að litli drengurinn skuli vera minntur á það á hverju kvöldi að móðir hans kunni kannski að deyja,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, í einlægu viðtali í hlaðvarpinu Mannlífinu. Hann lýsir þeirri þjáningu sem fylgdi því að móðir hans var berklaveik og í lífshættu.
Ólafur segir einnig frá hundinum Samson sem er klónuð eftirlíking af Sámi þeirra Dorritar. Hann segir að hundurinn sé ekki aðeins nákvæmlega eins í útliti heldur sé hann með sömu skapgerð.