„Svo féll ég af þingi. Fyrst er það náttúrulega að fylgi Samfylkingarinnar hrundi eftir þetta stjórnarsamstarf. Það bara hrundi og við náðum ekki inn þingsætinu mínu, þannig að ég varð varaþingmaður,“ segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrum alþingismaður, fræðimaður og rithöfundur. Ólína er gestur Reynis Traustasonar í nýjasta þætti Mannlífsins.
Var komin í andstöðu við formanninn
„Þá urðu þau hörmulegu tíðindi að félagi minn, Guðbjartur Hannesson, sem var fyrsti þingmaðurinn fyrir Samfylkinguna í kjördæminu, fékk krabbamein og varð mjög veikur og ég kom inn fljótlega fyrir hann. Því miður entist honum ekki ævin. Hann dó á miðju kjörtímabili og þá sat ég sem þingmaður í hans stað fram að næstu kosningum; það var nú reyndar ekki nema tvö ár,“ segir Ólína.
„Ég var komin í andstöðu við Árna Pál Árnason, sem var formaður flokksins á þeim tíma. Svo voru komnar væringar innan flokksins. Það var svo margt búið að ganga á í sambandi við þessi fiskveiðistjórnunarmál og eitt og annað. Árni ætlaði sér þingsæti í Norðvesturkjördæmi; var farinn að hringja til að safna stuðningi við sig, fann ekki stuðninginn og hætti við, en var þá auðvitað búinn að grafa undan mér og þá kom auðvitað Guðjón Brjánsson sem sá sér leik á borði og stökk inn og náði í prófkjöri fyrsta sætinu.“
Gaf ekki kost á sér nema í fyrsta sæti
„Ég var búin að láta vita að ég gæfi ekki kost á mér nema í fyrsta sæti. Ég náði því ekki og þá stóð ég bara upp og fór.“ Ólína sagði sig úr Samfylkingunni í fyrra. „Ég fylgdi þeim nú að málum og var góður flokksmaður alveg þangað til fyrir svona ári síðan. Þá sagði ég mig úr flokknum, en ég lét það ekki fara hátt. Það var rétt fyrir kosningar og ég vildi af virðingu við félaga mína ekki vera að gera einhvern úlfaþyt úr því; fólkið sem ég hafði starfað með og var að berjast fyrir þingsætinu sínu meðal annars og ég þagði yfir því. Það er ekki fyrr en núna sem ég er farin að segja frá því að ég sé ekki lengur í Samfylkingunni.“