Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er Vilmundur Möller Sigurðsson, rafeindarvirkjameistari og dýnuhvíslari.
Fárveikur á heilsudýnu
Vilmundur uppgvötvaði fyrir að um 5 árum að heilsudýnan sem hann hafði keypt dýrum dómi árið 2006 væri í raun alvarlega heilsuspillandi. Hann var farin að glíma við alvarlega heilsukvilla á borð við króníska verki um allan líkamann, sár, útbrot, hárlos, bólgur og gigt. Þá var hann kominn með kæfisvefn og ofsasvita, stöðuga síþreytu og draugaverki sem færðust til um líkamann án nokkurs samengis.
Vilmundur var orðinn fárveikur og botnaði ekki í hvað væri raunverulega að veikja hann. En síðan uppgötvaði hann ástæðuna: Skaðleg útgufun úr svampefnum í svefnvöru. „Þegar ég uppgötvaði þetta var ég orðinn eins og kannski manneskja sem nær sér ekki eftir Covid, sinnum þrír, ef ekki meira.“
Vilmundur stofnaði Facebook-hóp um málefnið og þar eru rúmlega 10.000 manns. „Ég hélt ég gæti bara gengið inn á landlækni og sagt honum að ég vissi um stórhættulegt efni sem er að veikja hundruði ef ekki þúsundir manna hér á landi og það þyrfti að bregðast við þessu.“
Léleg viðbrögð landlæknis
Aðspurður um viðbrögð landlæknis sagði Vilmundur: „Ég fékk léleg viðbrögð. Bæði Þórólfur og Alma sögðu að það væri ekkert sem þau gætu gert þar sem þetta væri ekki vísindalega sannað. Að þetta væru veikindi frá efnavöru og þar af leiðandi gætu þau ekkert gert. Ég sagði þeim að það væri veikt fólk til umræðu en það virðist ekki hafa neitt vægi. Ég sagði þeim að „það er fullt af veiku fólki hérna, hópur sem er stofnaður og sögur þar inni, hundruðir af sögum þar sem fólk er að lýsa því hvernig það hefur verið veikt og hvernig það nær aftur betri heilsu með því að fara úr svampefnunum og yfir í heilnæmari efni.“ Og ég náði nú að kreista mig á þrjá fundi með landlækni og tvo með umhverfisstofnun. Og einn fund með fulltrúa heilbrigðisráðherra og einn með heilbrigðisráðherranum að lokum. Og það er bara stutt og laggott. Ekkert að gerast hjá þeim sem eru heilbrigðisráðherra og landlæknir. Umhverfisstofnun er hins vegar að vinna svolítið í þessum efnum núna og koma með einhverjar rannsóknir og yfirlýsingar um að mjúkt plast sé hættulegt en þau hafa ekki farið ennþá í það að segja að svefnvaran sé hættuleg.“
Viðbrögðin fram úr björtustu vonum
Ákvað Vilmundur ásamt eiginkonu sinni að prófa að flytja inn heilnæmar dýnur og athuga hvort ekki væri áhugi fyrir því í Facebook-hópnum. „Og það urðu þetta líka svakalegu viðbrögð. Fólk stóð bara í röð fyrir utan hjá okkur þegar við opnuðum fyrst.“
Gunnar vildi fá að vita hvað væri í þessari dýnu sem Vilmundur fann í Bretlandi. „Ég var að leita að einhverju sem kæmi stutt frá og svo var ég búinn að sjá að ull væri málið. Af því að ull í fatnaði er æðislegt. Og þarna í Englandi var hægt að finna ullarsvefnvörur sem innihéldu upp, hamp, gorma og lífrænan bómull, að það væri ekkert útgufunarplastefni í því.“ Endingartíminn á slíkum dýnum er um 12 til 15 ár.
Davíð spurði Vilmund hvernig þessar dýnur standa gegn stoðkerfisvanda og almennum svefngæðum. „Þetta er ekki alveg einfalt að útskýra sko. En við getum sagt að ef þú ert með bólgur í líkamanum þá þarftu svona þrýstijöfnunardýnu en um leið og hún er að leysa þetta mál með þrýstijöfnun þá er hún að auka bólgur. Eða hún er að viðhalda bólgum. Hún bjó til þessar bólgur til að byrja með þegar þú varst nokkuð slæmur og þurftir kannski bara að hreyfa þig eða eitthvað en þú keyptir þér þessa æðislegu dýnu sem átti líka að hjálpa þér og hún er með svona þrýstijöfnuð. En hún fer jafnvel að auka bólgurnar og þar af leiðandi þarftu á þrýstjöfnunardýnu að halda til þess að geta bara fúnkerað í lífinu.“
Þöggun Rúv
Fjölmiðlar hafa sýnt máli Vilmundar nokkurn áhuga en hann lenti þó í því að vera tekinn út úr kvöldfréttum Rúv. „Það var tekið við mig viðtal sem átti að birtast í kvöldfréttum Rúv, það kvöldið. Og síðan fékk ég bara að heyra það rétt fyrir kvöldfréttir að það yrði fellt niður. Að þetta yrði fellt niður eftir að þeir töluðu við söluaðila svefnvara. Þetta var bara saga um mín veikindi. Og saga um veikindi fleiri fólks.“
Gunnar spurði Vilmund af hverju það breytti einhverju, að Rúv hafi talað við söluaðila heilsudýna. „Kannski hótuðu þeir að taka allar auglýsingar út úr miðlinum. Söluaðilinn var nafngreindur en ég veit ekkert hvað fór þeim í millum en það var þetta sem gerist, að þessi frétt er dregin til baka. Eftir þetta er ég orðinn svo desperat því ég vissi um svo mikið af veiku fólki, alla daga, í skilaboðum og í símtölum en þetta var áður en ég hóf innflutning á dýnunum. Þannig að ég var búinn að tala við þau á Rúv og Kveik og Kastljós og heyrði það seinna að ég væri bara orðinn einhver vandræðagemsi á Rúv, pirrandi gaur.“
Þennan upplýsandi og sjokkerandi þátt má sjá í heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan ásamt að þætti þvottahússins má finna á öllum helstu streymisveitum.