Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er sálfræðingurinn Lilja Sif Þorsteinssdóttir. Lilja sem stendur á bakvið sálfræðiþjónustuna Heilshugar hefur fengist við ýmislegt innan hefðbundinnar sálfræði. Heilshugar virðist samt sem áður bjóða upp á nýjungagjarnar aðferðir hvað varðar andlega heilsu og heilun.
Tjáskipti trjáa
„Heilshugar er svona batamiðað rými með skaðaminnkandi áherslum þar sem að ég er að blanda saman þessum top down aðferðum og bottom up aðferðum,“ sagði Lilja aðspurð um fyrirtæki hennar, Heilshugar.
Sem dæmi um aðferðir má nefna trommuhringiHún Lilja vill meina að takturinn sé gífurlega áhrifaríktverkfæri þegar kemur að andlegu heilbrigði. Að beina athygli að trommuslætti eins og um ákveðna möntru eða endurtekningu sé að ræða, segir hún hjálpa okkur að komast í svokallað „flow state“, sem er það ástand sem við þjálfum upp í hugleiðslu.
Hún vildi meina að allt þetta flæði upplýsinga og hraði samfélagsins sé í raun aðeins að auka á fjarlægðina á milli okkar og meðbræðra og -systra í samfélagi. Í trommuhringjunum skapast vettvangur fyrir fólk til þess að leika af fingrum fram og leyfa sköpunarkraftinum að flæða, í hópi fólks, sem stuðlar að ákveðinni samstillingu og tengingu milli þátttakenda. Segir hún ennfremur að nútímamaðurinn lifi í samfélagi sem hann hafi ekki verið hannaður fyrir og auðvitað líði honum því ekkert vel. Svo spyr hún bræðurna hvort þeir kannist við hugtakið „Wood wide web“ sem hún líki þessu við. Þegar þeir neita því svarar hún þeim. „Wood wide web vísar til þess að ef þið horfið á skóg af trjám þá lítur þetta út fyrir að vera samansafn af einstaklingum en ef að þið kíkið undir svörðin ofan í moldina komist þið að því að öll þessi tré eru rosalega tengd í rótar- og sveppaþráðakerfi. Þar í gegnum tala þau saman, þau senda næringu og skilaboð til vina. Þau gera ekki mannamun heldur trjáamun, þau senda næringu mest til foreldra og svo til systkina,“ segir Lilja og bætir svo við: „Ef að þau fá pest í sig geta þau sent til vina ekki bara að þau séu með pest heldur hverskonar pest þau eru með svo þau geti myndað mótefni. Það eru heilu stríðin sem eru háð þarna á milli tegunda í formi efnavopnaárása, alveg rosalega mikil tjáskipti í trjám. Mér finnst þetta svo góð líking fyrir okkur því við mannfólkið erum eins og trén. Tengingin á milli okkar, hún sést ekki en hún er ofboðslega mikið til staðar og þarf ekki nema eitt neikvætt eða jákvætt orð og það fer allt af stað inni í okkur. Þetta er allt það sama, ef ég fer aftur að líkja okkur við plöntur, ef þú ert ekki með rétta jarðveginn og réttu næringuna til þess að þrífast þá þrífstu ekki. Samfélagið er ekki hannað fyrir okkur,“ segir Lílja og þegar hún segir okkur, þá meinar hún fyrir okkur manneskjur sem heild.
Áföll eru áverkar á taugakerfið
Gunnar spurði Lilju út í það sem hann telur að sé grunnur alls ásetnings í hverskonar leit að hjálp í þessum efnum en það eru einfaldlega áföll eða áfallaeindirnar sem sitja innra með okkur vegna óuppgerðrar fortíðar. Fortíð sem svo mótar okkur og öll okkar viðhorf til lífsins og samferðafólks okkar. Lilja vildi meina að áföll sem mikið er talað um í dag í hinu og þessu samhengi sé í raun ekkert annað en áverki, áverki á taugakerfi sem svo framkallar áframhaldandi skaða á flestum ef ekki öllum sviðum líkama og hugar. Minningar sem við berum innra með okkur í ár eða áratugi geta orðið að einskonar stafrænum truflunum og er í raun baneitrað og þá oft í formi einskonar ranghugmynda því sagan einfaldlega breytist með tímanum ásamt því að vera filteruð í gegnum ófullkomið tilfinningalíf. Einn stór hrærigrautur óuppgerða sagna og atburða sem móta okkur miklu meira en hver og einn oftast gerir sér grein fyrir.
„Það sem ég meina með áverka er að bara einfaldlega það að það sem við erum að vinna með er ekki hluturinn sem gerðist heldur sporin sem sitja eftir í líkama og heila viðkomandi.“
Sagði hún að með því að vinna rétt úr minningum, reynslu sem við höfum orðið fyrir, náum við stað þar sem minningin sem slík er aðeins innra með okkur sem reynsla og stundum dýrmæt reynsla en ekki eitthvað sem við upplifum sem óþægilega og hræðilega, þannig að við þurfum ekki lengur að upplifa sársauka í hvert skipti sem minningin kemur upp.
„Það sem þetta snýst um er svolítið að taka þessa tilfinningahleðslu úr minningunni, þú getur svolítið fundið hver hleðslan er með því að hugsa til baka. Færðu ennþá þessi líkamlegu viðbrögð, kjánahrollinn eða skelfinguna eða ógeðið eða hvað sem er? Þá þýðir það að eitthvað tauganet veit ekki að þetta er búið.“
Lilja sagði að oft átti fólk sig ekki strax á því að það hafi orðið fyrir áfalli.
„Það er oft sem fólk er kannski ekki átta sig á fyrir en löngu seinna að það hafi lent í einhverjum erfiðum hlutum, en það er að bregðast við fortíðinni í nútíðinni. Það kannski gerist eitthvað smávægilegt en það springur upp í tilfinningu sem er kannski ekki alveg í samræmi við það sem gerðist og þá er það oft að atvikið hefur triggerað taugakerfið og við förum beint í varnarkerfið.“
Hugvíkkandi efni ofmetin í meðferðum
Úr þessari umræðu um heilun áfalla og úrvinnslu á reynslum, barst talið að námskeiðum sem sálfræðiþjónusta hennar, Heilshugar bíður upp á. Eitt slíkt námskeið ber heitið Stuðningsnámskeið fyrir ferðalanga. Gunnar spyr Lilju hverjir þessir ferðalangar eru og hvert ferðinni sé heitið. Námskeiðið er undirbúnings- og úrvinnsluvinna fyrir einstaklinga sem leggja af stað í einskonar ferðalög með hjálp hugvíkkandi efna. Þau hugvíkkandi efni sem um ræðir eru öll ólögleg og því undirstrikaði Lilja að aldrei undir neinum kringumstæðum mælir hún með notkun þessara lyfja eða efna við neinn mann né hefur nein tengsl við þá aðila sem framkvæma svo sjálfa athöfnina. Hún aðeins undirbýr í samtali viðkomandi eins vel og hún getur undir ferðalagið sem framundan er og tekur svo við viðkomandi að ferðalagi loknu þar sem hjálp frá fagaðila er oft bráðnauðsynleg og oft á tíðum vanmetin í þessum málum.
„Oft er það þannig að shamanar eru að vinna með eitt eða tvö efni, þannig er svona traditional en svo á Vesturlöndum er fólk kannski meira allt í blandi í poka. Þá erum við komin aðeins úr þessari þúsunda ára notkun þar sem að shamaninn virkilega þekkir sitt efni og vinnur með sitt efni. Sambýli við þann anda sem býr í efninu.“
Gunnar taldi upp þau hugvíkkandi efni sem um ræðir í þessum meðferðum hér á landi. LSD, MESCALIN (PAJOTE EÐA KAKTUS), DMT (AYAHUASCA), PSILOCYBIN (SVEPPIR), KETAMIN og MDMA, svo eitthvað sé nefnt. Lilja segir að auðvitað út í heimi séu efnin meira einangruð við einhver ákveðin svæði eða mörg þúsund ára hefðir þess vegna en á Vesturlöndunum sé oft mun meiri flóra og úrval þessara efna, því hefðin er einfaldlega ekki með okkur og því bara allt tekið. Hún vildi meina að í mjög mörgun tilfellum þar sem fólk er að fara aftur og aftur á hin og þessi tripp með hinum og þessum aðilum og hinum og þessum efnum sé fólk í raun ekki að vinna vinnuna sem þarf til ef raunveruleg úrvinnsla eigi að eiga sér stað. Hún vill meina að þessi efni séu gríðarlega öflug og geti unnið mikið gagn en ef þau séu ekki notuð rétt þá geti þau alveg eins unnið mikinn skaða.
„When you get the message, hang up the phone, og ef að fólk er að fara aftur og aftur í þessar serómóníur þá hef ég það svolítið á tilfinningunni að fólk sé ekki að vinna vinnuna því þessi lyf eru ekki töfralyf. Þau geta sýnt þér hvar þú átt að vinna og svo byrjar ferðalagið.“ Þess vegna er það sem meðferðarvinnan fyrir og eftir ferðalag skiptir ekki minna máli, og í raun meira máli, en ferðalagið sjálf.
Lilja segir bræðrunum frá upphafi MDMA í parameðferðum.
„Það er gaman frá því að segja varðandi MDMA að þetta var notað í parameðferðum í mörg ár áður en þetta var bannað og þegar þetta var bannað árið 1985, þá var fimm dómara panill og það voru allir sammála um það að banna þetta til afþreyingar en leyfa þetta áfram í meðferðartilgangi en það var einn dómari sem beitti neitunarvaldi. Þess vegna höfum við ekki geta haft aðgang að þessu efni í meðferðum síðan.“
Höfum byggt dýragarð í kringum okkur
Lilja vonar að notkun og beiting hugvíkkandi efna í heilunartilgangi verði á endanum raunhæfur valkostur og viðbót við hefðbundin geðlyf. Lyf á borð við SSRI, ADHD lyf, róandi og kvíðastillandi segir hún að geti alveg gert eitthvað gagn í einhverjum tilfellum en eins og allt annað eru þau engin töfralausn ef úrvinnslan á sér ekki stað. Hún sagði í viðtalinu að lyfjaiðnaðurinn hafi í raun ekki sýnt fram á mikla framþróun í þessum efnum síðustu hálfa öld hér um bil.
„Það sem að þyrfti að gerast til að losna við alla þessa lyfjagjöf þá þyrftum við nýja samfélagsgerð, við erum í dýragarði bókstaflega, við erum búin að byggja dýragarð utan um okkur.“
Lilja vonast eftir áframhaldandi vitundarvakningu í málum hugvíkkandi efna og að notkun þeirra fari smátt og smátt að koma inn sem raunhæfur möguleiki fyrir þá sem kjósa að fara þá leið.
„Það er verið að afglæpavæða þetta á mörgum stöðum í heiminum. Sko, þegar þetta er gert á réttan hátt þá er þetta að gefa miklu meira en þetta er að taka,“ sagði Lilja um framtíðina er snertir lögleiðingu á hugvíkkandi efnum í meðferðartilgangi. „Ég hef þá trú að með fleiri rannsóknum og með fleiri lagabreytingum úti í heimi, þá verði Ísland að fylgja með.“
Gunnar spyr hana Lilju hvort hún telji að lyfjafyrirtækin vilji raunverulega lækna sjúklinga sína og hvort hugvíkkandi efni séu að fara að leysa almenn geðlyf af hólmi.
„Til að svara þessari spurningu bara beint þá held ég að lyfjafyrirtækin vilji bara alls ekki missa kúnnana sína,“ svaraði Lilja og bætir svo við:
„Yfirleitt í rannsóknum er þetta talið sem eitt af mikilvægustu augnablikum lífs þíns og jafnvel ofar fæðingu fyrsta barns að taka svona efni, þetta er rosalega stór lífsreynsla en þetta er ekki töfrapilla. Ef að þú breytir engu í umhverfinu þínu og ef að þú breytir engu í hegðun þinni… ég meina, það sem þessi efni gera er að þau leyfa heilanum að tala meira saman og allt í einu getur þú farið að sjá hluti frá fleiri sjónarhornum en þú hefur aðgang að í venjulegu vitundarástandi. Það koma fleiri tengingar á milli taugafruma, það er í rauninni það sem nám er, þegar nýjar tengingar verða. Ef þú svo ekki viðheldur þessum nýju tenginum með allskonar leiðum, festir þessar breytingar í sessi, jú þá bara rýrna þær aftur.
Lífið fyrir og eftir „ferðalagið“
Gunnar spurði hana hvað hafi ollið því að hún hafi ákveðið að fara þessa leið sjálf sem lærður sálfræðingur, leið sem oft innan hins akademíska heims hefur mætt vissum fordómum. Hún segir að útslagið hafi verið þegar hún sjálf fór í svokallað ferðalag og að í hennar tilfelli upplifir hún eins og hægt sé að tala um líf hennar fyrir og eftir ferðalagið, svo mikil áhrif hafði það á hana. Hún hafi í kjölfarið sökkt sér í lestur á bókum og rannsóknum á þessum lyfjum ásamt því að sækja sér námskeið og reynslu frá fleiri stöðum. Út frá þessari reynslu ásamt greinilegri þörf sem er að skapast með auknum fjölda ferðalanga innan hins hugvíkkandi heims hafi hún ákveðið að taka þessi skref af hugrekki en með fagmannlegri nálgun þar sem engin afsláttur er gefin hvað varðar lög og siðareglur.
„Til að svara því hve langt ég má ganga þá þarf ég að halda mig innan ramma laganna og ég þarf að halda mig i innan ramma siðareglnanna og það er einmitt þetta, ég get komið að því sem gerist á undan og ég get komið að því sem gerist á eftir en allt sem hefur með efnin sjálf að gera er bara lokuð bók fyrir mig.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan ásamt því að finnast á öllum helstu streymisveitum.