Sigríður Rannveig Jónsdóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttarins Mannlífið. Hún hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir á lífsleiðinni en í janúar árið 1995 missti hún unga dóttur sína í snóflóðinu í Súðavík sem og tengdaforeldra. Hér er brot úr seinni hluta viðtalsins:
Sigríður Rannveig notaði málaralistina til að takast á við sorgina við að missa 18 mánaða gamla dóttur sína.
„1996 byrja ég að mála og fer að átta mig á því að ég get málað frá mér sorgina og tilfinningar. Að mála eitt málverk jafnaðist á við að fara í tíu, tuttugu sálfræðitíma,“ segir Sigríður Rannveig þegar Reynir spyr hvenær hún hafi farið að mála. Hún heldur áfram: „Mörg málverkanna hef ég grátið. Og ég finn þegar sorgin, eða sársaukinn er að losna. Það er með ólíkindum hvað málverkin gera. Og listin, hvað listin getur gert mikið.“
Reynir segist hafa farið á málverkasýningu Sigríðar Rannveigar en þar var málverk sem sýndi hana með dóttur sinni, Haddý Stínu, sem lést í snjóflóðinu 1995. „Það er mjög sterk mynd,“ samsinnir Sigríður Rannveig Reyni og heldur áfram: „Og hefur mikið tilfinningalegt gildi í hjartanu mínu. Og þegar ég er að mála hana, þá er ég að mála hana örugga í faðmi mínum. Og hún heitir Örugg í faðmi móður. Það er það sem maður vill að börnin sín séu, alltaf örugg.“
Hægt er að hlusta á seinni hluta viðtalsins í heild sinni hér.