Í seinni hluta viðtalsins við Konráð Eggertsson, Hrefnu Konna, fer hann yfir sjómennskuna og hrefnuveiðarnar. Bannárin voru erfið en þá var samt veitt. Hann fór fyrst til sjós 1958, þá 15 ára gamall, á Dynjanda.
Það var saltaði í húsi við bryggjuna og tvær áhafnir gistu á efri hæðinni. Þar voru tvær ráðskonur en þær gistu annarsstaðar; í Sætúni hjá Hagalín. Benni nokkur Alla lét sig gjarnan hverfa upp í Sætún, en því fylgir sögunni að hann hafi eitthvað þurft að láta lækna krukka í klofinu á sér árinu áður, og höfðu menn grun um að hann væri eitthvað að föndra við aðra ráðskonuna sem hét Bára. Spurður út í þetta sagði hann að hann væri að spila við Hagalín gamla, hann hafði svo gaman að því að spila og þá flaug þessi:
Þreytast spil á kyrrum kvöldum,
kona göfug, fríð og ung.
Bylti sér á Báru-földum
Benedikt með nýjan pung.
Konni hefur ekki tölu á því hvað hann hefur skotið af hrefnu en hann lýsir því hvernig hrefnuveiðarnar þróuðust frá því að fara eingöngu fram með skutlum, en þá þurfti stundum allt að fjórum skutlum til að fella dýrið, hvernig fílariffillinn kom svo til sögunnar og breytti öllu og að lokum tilkoma sprengiskutulsins.
Eftir að það var gert ólöglegt að veiða hrefnu héldu menn þá áfram en þá var aflanum dröslað upp í skúr hjá Konna og áskrifendur látnir vita sem komu þá og vitjuðu aflans hjá honum þar. Fjórum húsum frá Konna bjó sýslumaðurinn, Ólafur Helgi, í alveg eins húsi en dag einn birtist þar hjá honum kona nokkur sem spurði hvort það væri þarna sem hún fengi hrefnukjötið. Hann svaraði henni þannig að hún ætti að prófa að banka uppá fjórum húsum í burtu!
Hann hélt að þetta væri haugalygi en hann hitti konuna fyrir fyrir tveimur árum og fékk þetta staðfest.
Konni náði að móðga sjálfan forsætisráðherra sem heilsaði honum með einum fingri.