Gestur Sjóarans er fyrrverandi Sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, sem stóð meðal annars fyrir því að strandveiðikerfið var sett á laggirnar.
Hann ætlaði sér þó aldrei að verða Sjávarútvegsráðherra þó svo að hann hafi verið einn af þeim sem mótuðu stefnu Vinstri Grænna í sjávarútvegsmálum á þeim tíma þar sem það hafði verið rætt áður en til stjórnarmyndunnar kom að hann yrði Samgöngu- og Sveitastjórnaráðherra.
Á daginn kom að þau áform gengu ekki upp. Á fundi með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni var þá rætt að hann tæki stól Sjávarútvegsráðherra og hefur Jón það eftir Jóhönnu að við það tækifæri hafi hún hváð.
„Verður LÍÚ þá ekki vitlaust? Þeir eru búnir að segja okkur að þeir vilji alls ekki Jón Bjarnason.“
Í þættinum ræðir Jón meðal annars strandveiðikerfið og baráttuna við það að koma þeim í gegnum þingið og aðild Íslands að Evrópusambandinu.