Að þessu sinni lagði Sjóarinn leið sína til Malmö í Svíþjóð og hitti þar fyrir skipstjórann og heimshornaflakkarann Brynjólf Sigurðsson. Brynjólfur, eða Binni, fæddist á Ísafirði en ólst upp í Grindavík.
Ferill Binna hefur gengið stórslysalaust fyrir sig að mestu en undantekningin varð þegar hann sigldi á fraktskipi fyrir sænskt félag þar sem verið var að flytja stærðarinnar rúllur af pappír. Þegar verið var að losa voru tveir menn í lestinni sem höfðu það hlutverk að annast losunina. Töluverð slagsíða var á skipinu stjórnborðsmegin en þrátt fyrir að þeir höfðu kallað til þeirra upplýsingar um slíkt losuðu þeir samt með þeim hætti að rúllurnar fóru að rúlla af stað. Einn mannanna stóð ofan á rúllunum þegar hreyfing komst á þær og sá þurfti því að stökkva á milli rúllanna en svo fór að hann náði ekki yfir og fór á milli. Binni hljóp þá niður í lest til að vitja mannsins. Þegar hann kom að var maðurinn meðvitundarlaus og svo fór að hann lést skömmu síðar í höndunum á Binna.
Hann lýsir því að í barnaskóla hafi bekkur hans verið spurður út í framtíðardrauma sína og eftir að aðrir í bekknum höfðu lýst háleitum draumum sínum kom að honum og þá mun hann hafa sagt að kannski einn í bekknum myndi ná þessum takmörkum sínum og restin myndi enda á sjónum og því ætlaði hann að verða skipstjóri, sem svo gekk eftir.
Faðir hans lést er hann féll fyrir borð á Dísarfellinu sem var gríðarlegt áfall fyrir hann. Hann segir þó að þetta hafi síður en svo dregið úr honum þá löngun að verða sjómaður, þvert á móti.
14 ára viðraði hann það við fóstra sinn að hann langaði til sjós og spurði hvort hann væri til í að tala við Pétur í Höfn, skipstjóra á Hrafni Sveinbjarnar, og spyrja hann hvort hann gæti útvegað honum pláss á sumarnetum. Fóstri hans mun þá hafa svarað því svo að maður skyldi sækja um vinnu sjálfur. Hann bankaði því uppá hjá Pétri sem lauk upp hurðinni og spurði hann þá hvort hann væri að selja Morgunblaðið. Þegar Binni svo sagði honum að hann væri þarna til að sækja um pláss uppskar hann hláturskast frá Pétri því hann var ekki hár í loftinu en úr varð að hann samþykkti þetta og þar með var ekki aftur snúið.
Binni varð skipstjóri skömmu eftir tvítugt en flutti til Svíþjóðar í kringum 1990. Hann hefur á ferli sínum stundað fiskveiðar, fraktflutninga og svo í seinni tíð hefur hann starfað sjálfstætt sem skipstjóri og meðal annars ferjað stórleikarann Tom Cruise í tengslum við gerð Mission Impossible myndar.