Snorri Ásmundsson byrjaði snemma að ögra: „Góðan daginn, helvítis mellan þín“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium er enginn annar en fjöllistamaðurinn Snorri Ásmundsson. 

Snorri, sem hefur fengist við gjörningalist síðan hann man eftir sér, lifir einnig og þrífst í málaralistinni. Hann segist í raun lifa á henni, en að gjörningalistformið sé það sem stendur honum næst í einhverjum kjarna.

Reiðin er eldsneytið

Gunnar spurði Snorra hvaðan listin kæmi og þá hvort að gjörningalistformið kæmi frá sama stað og málningin. Hann hugsaði sig um og sagðist ekki halda að svo væri. Hann segist elska að mála, finnst það skemmtilegt, en gjörningurinn komi frá allt öðrum stað. „Mín nánd við málverkið er ekkert endilega eins og hjá þeim sem fara í nám. Mér finnst bara gaman að mála eins og barni finnst gaman að lita og ég er mjög ánægður með myndirnar sem ég mála, svona flestar sko. Þetta er ólíkt, það er að segja að það er einhver annar kraftur sem á sér stað þegar ég er í gjörningi.“

 

Fjallkonan Snorri í góðra vina hópi

Gunnar spurði hann hvort að eldsneytið væri reiði og Snorri sagði að líklega væri það svo. Þá að ef reiðin sé eldsneytið væri hún ekkert annað en ótti við eitthvað sem er staðnað, storknað. Þaðan komi þessi þörf fyrir að sprengja allt í loft upp og brjóta niður efnið sem njörvar sálina.

„Ég spyr hann, Goddur hver er minn drifkraftur og þá segir hann, ANGER, og ég var alveg ha? – tengdi ekkert við það, en málið er að það er kraftur í reiðinni. Og já, oft verður gjörningur til þegar ég hef fengið nóg,“ segir Snorri og er að tala um það þegar Goddur, hinn þekkti listamaður og rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands og vinur Snorra, uppljóstraði um það hvaðan drifkrafturinn væri kominn.

Góðan daginn helvítis mellan þín

Snorri hefur verið í einhvers konar listgjörningum síðan hann var lítill drengur. Gunnar spyr hann einmitt um gjörning sem Snorri framkvæmdi sem ungur drengur á götum Akureyrar þar sem hann bjó á þeim tíma. Gjörninginn myndu flestir bara túlka sem dónaskap og ósvífni, en í augum Snorra var bara eitt markmið, að ögra og sprengja kassann. Hann sem sagt heilsaði öllum gömlum konum sem hann mætti með því að bjóða góðan daginn, en bætti svo við: „helvítis mellan þín“.

„Hún spurði mig: „Heyrðu Snorri, viltu hitta sálfræðing,“ oftar en einu sinni og ég sagði bara nei, ég hef engan áhuga á því og þá var það bara útrætt,“ segir Snorri af samskiptum sínum við móður sína sem ungur drengur.

„Ég er alltaf í einhvers konar leik og talandi um það að ögra, ég þarf líka fyrst og fremst að ögra sjálfum mér, mér finnst einhvern veginn stöðnun ekki vera í boði.“

Fékk vitrun í fangaklefa

Snorri var drykkjurútur að eigin sögn. Hann upplifði „blackout“ í fyrsta skiptið sem hann drakk og þar með var ekki aftur snúið. Helgarnar lengdust og svo komu efnin. Amfetamín, kannabis og e-pillur er eitthvað sem hann notaði óspart með tilheyrandi vökustundum og partíum. Hann sagðist þó aldrei hafa skapað list undir áhrifum, þar virðist sem einhver aðskilnaður hafi verið til staðar. Botninum náði hann þegar hann var handtekinn heima hjá foreldrum sínum fyrir norðan og settur í gæsluvarðhald. Í fangaklefanum fékk hann guðlega vitrun þar sem hann spurði sjálfan sig einnar spurningar. Spurningin var hvort hann ætlaði sér að vera dópisti og ræfill það sem eftir var eða hvort hann ætlaði sér að fara út í heiminn og verða stórkostlegur listamaður. Hann valdi á þessum tímapunkti seinni kostinn. Snorra var svo sleppt úr gæsluvarðhaldi og það fyrsta sem hann gerði var að grafa upp dópið sem hann hafði falið fyrir lögreglunni, klára það og svo ekki söguna meir. Hefur hann ekki snert áfengi eða eiturlyf síðan. 

Snorri var skírður og fermdur og upplifði sig sem mikið Guðsbarn, en í kringum 1990 skráði hann sig úr Þjóðkirkjunni eftir að komst upp um kynferðisafbrot Ólafs Skúlasonar biskups. Samhliða því las hann bók þar sem fram kom að um 7% allra kaþólskra presta væru haldnir djúpstæðri barnagirnd. Þessu költi vildi Snorri ekki tilheyra og skráði sig úr Þjóðkirkjunni í kjölfarið. 

Gunnar spurði hvort að hann upplifði sig sem upphafsmann eða eins konar brautryðjanda slaufumenningarinnar. Snorri sagðist nú ekki vita neitt um það, en sagði nú samt að hann væri þekktur fyrir að sjá inn í framtíðina og kannski hefði hann í þessum efnum bara séð 30 ár fram í tímann.

Vill dansa við dauðann

Snorri vakti upp mikil viðbrögð fyrir nokkrum árum þegar hann auglýsti eftir líki til að dansa við í eins konar listagjörningi. Hann óskaði eftir því að fá að nota jarðneskar leifar fólks í myndbandsverki. Vel var tekið í þessa hugmynd af mörgum sem skráðu sig á lista sem hann fékk lögfræðing til að krota upp fyrir sig. En allir þessir einstaklingar lifa enn svo af þessum gjörningi hefur ekkert orðið, enn sem komið er.

 

Ljósmyndin er sviðsett. Vona ég.

„Ég er reyndar mjög sterkur, en ég veit líka að það mun verða mjög þungt og þetta verður mjög klaufalegt, mjög klaufalegur dans en ég sé það fyrir mér að hann verði mjög skemmtilegur, svona dansinn við dauðann,“ sagði Snorri um fyrirhugaðan dans sinn við lík.

„Já, eða bara fíngert lík, manneskja, náttúrulega best að þetta væri kona af því að ég er karlmaður og dansa, en ég er ekkert gay eða neitt þannig og ég er ekkert á móti dvergum heldur,“ segir Snorri er Gunnar spyr hann hvort það væri ekki best að dansa við látinn dverg svona af praktískum ástæðum. Snorri bætti við: „Flestir eru bara ágætir, við erum eiginlega öll ágæt fyrir utan þessa nokkra sem eru eiginlega alveg óþolandi.“

Það má segja að einu sinni hafi komist smá hreyfing í málið þegar Bandaríkjamaður sem frétti af þessu skrifaði Snorra og lýsti því yfir að hann mætti fá sitt lík til afnota. Hann skrifaði ekki undir neitt þessu tengt, en Snorri frétti svo af því að maðurinn hefði svipt sig lífi en hann glímdi við alvarleg geðræn vandamál. Snorra brá að sjálfsögðu við þessar fréttir en svo upplifði hann þá tilfinningu að maðurinn hefði reynt að þvinga sig inn í verkið. Ferlið hafi samt sem áður verið mikilvægt spjall sem hann hafi átti við dauðann og klárlega hluti af gjörningnum sem enn er ekki útfærður að fullu. 

Kötturinn Reykjavík á Akureyri

Snorri fór einnig yfir það í viðtalinu er hann bauð sig fram til forseta. Hann sagði þó að hann hefði alls ekki gengið alla leið með það, því of mikill hiti hafi verið byrjaður að skapast út frá vafasamri fortíð hans. Hann hafi einfaldlega bara hætt við þetta og þá sérstaklega eftir að dóttir hans, sem var fimm ára, grátbað pabba sinn að vera ekki forseti heldur bara halda áfram að vera listamaður. Snorri upplifði einfaldlega létti fyrir vikið, enda mikil ábyrgð sem fylgir því að vera forseti. Gunnar spurði hann hvernig forseti hann héldi að hann hefði orðið. Snorri yppti öxlum og sagðist örugglega bara hafa hætt og sagt upp, hann hefði ekkert endilega nennt því til lengdar.

 

Krossfestur kattavinur – frelsari kattakyns

„Ég man að ég var að lesa lagabókina, pabbi var lögfræðingur, eitthvað sem hét lögbókin þín og málið er að mér hefur alltaf fundist að ég eigi að vera forseti eða eitthvað, en málið er að ég sé að ég verð að vera 35 ára gamall og ég ákvað að ég ætlaði bara að bjóða mig fram þegar ég er orðinn 35 ára, svo það var ekkert dýpra en það, þetta var bara gamall æskudraumur að bjóða mig fram til forseta Íslands.“

Snorri hefur nú samt ekki skilið við pólitík því í haust stofnaði hann fyrir norðan nýtt stjórnmálaafl, Kattaframboðið. „Ég er búinn að fá kött þarna í fyrsta sæti sem heitir Reykjavík,“ segir Snorri um Kattaframboðið.

Hann segist ekkert endilega vera búinn að missa trúna á mannkynið eða manninn en að hugmyndin um kosna fulltrúa á þing, haldi einfaldlega ekki vatni. Fólk er að ota sínum tota og reyna endalaust að stjórna öðrum með ofbeldi og dólgshætti. „Þarna í pólitíkinni hangir alltaf eitthvað á spítunni og það er egóið sem menn eru að hugsa svolítið mikið um. Fólk er alltaf að drepast úr stjórnsemi og stjórnsemi er náttúrlega ekkert nema ótti.“

Þess vegna hafi hann stofnað Kattaframboðið. Kattaframboðið hafi orðið til sem afleiðing þeirra reglna sem settar voru norður á Akureyri hvað varðar bann á lausagönguköttum. Gunnar spurði Snorra hvort að þetta sneri að Akureyringum og hvort að Akureyringar væru ekki bara upp til hópa skrítinn þjóðflokkur. Snorri sagðist alltaf hafa borið þá upplifun innra með sér að Akureyringar væru frekar sér á báti, en fyrir ekki svo löngu hafi hann dvalið í einhvern tíma fyrir norðan og þá hafi hann náð sáttum við Akureyringa og séð þá í allt öðru ljósi. „Ég alltaf verið pínu hrokafullur gagnvart Akureyringum þótt að ég sé fæddur og uppalinn á Akureyri.“

Hvað varðar Alþingi er Snorri á því að draga þurfi kennitölur fólks inn á þing, svona eins og í Lottóinu. „Ég er á kennitölu-lóttóinu, þú verður bara valinn til að sitja á þingi í einhver viss mörg ár, þú ert bara dreginn inn á kennitölu, bara eins og kviðdómurinn í Bandaríkjunum. Þegar ég fór að lesa mér til um anarkisma þá sá ég að það ekkert mikill munur á anarkista og frjálshyggjumanni.“

Meistari Hilarion

Uppátæki Snorra hafi jafnan vakið mikla athygli hér á landi en hann hefur meðal annars selt aflátbrét og látið krossfesta sig, svo fátt eitt sé nefnt. Þá var hann einnig með samkomu í Egilshöll þar sem meistari Hilarion, heilari og prestur í musteri sannleikans í Atlantis, líkamnaðist í Snorra.

 

Snorri að Snorrast

„Ég er náttúrlega oft svo barnslega bjartsýnn að ég hélt að ég yrði milljarðamæringur bara á því að selja aflátsbréf,“ sagði Snorri er Gunnar spurði hann hvort hann hefði grætt mikið á að lána meistara Hilarion líkama sinn.

„Það var nóg pláss og þetta var mögnuð samkoma sko, vinkona mín sem hefur fylgst með mér í gegnum tíðina sagði mér að það hefði bara eitthvað gerst þarna, málið er að ég var náttúrlega að opna fyrir fimmtu víddina.“

Aðspurður hvað fimmta víddin væri nákvæmlega, svaraði Snorri:

„Ég veit það ekki, ég rugla öllum þessum víddum saman, fimmtu og sjöttu og sjöundu vídd, en þið getið bara opnað inn á þetta í hugleiðslu.“

Að lokum er Snorri beðinn um að segja einhver vel valin lokaorð:

„Þetta er bara í góðum farvegi, þetta fer allt eins og þetta á fara og við eigum ekkert betra skilið.“

Þetta stórbrotna tímamótaviðtal við einn ástsælasta og fjölhæfasta listamann Íslands má sjá og heyra hér á spilaranum fyrir neðan, auk þess sem nálgast má þætti Þvottahússins á öllum helstu streymisveitum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni