Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er enginn annar en rithöfundurinn, afglæpasinninn og hampaktivistinn Þorsteinn Úlfar Björnsson. Hér er brot úr viðtalinu.
Glímdi við þunglyndi í 30 ár
Gunnar spurði Þorstein hvort að THC í það litlu magni að það valdi ekki vímu, sé óhollt fyrir fólk. „THC er ekki óhollt, punktur. Þeir eru búnir að reyna að drepa hunda, þeir eru búnir að reyna að drepa fólk, með því að gefa þeim hreint THC.“
Gunnar spurði þá að bragði „Já en hvað gerir THC fyrir okkur?“ Þorsteinn glotti og svaraði: „Það lætur okkur líða vel.“ Gunnar spyr áfram „Burtséð frá því, af því að þú getur tekið snefilmagn af THC og þú ert kannski ekki að upplifa mikla vímu, hvað er það að gera fyrir kerfið?“ „Þetta hefur sjálfsagt til dæmis róandi áhrif eða einhver áhrif hefur hann ef hann virkar þannig en þetta er allt í rannsóknum og óstaðfest sjáðu til.“
Gunnar sagði Þorsteini frá því að CBD hefði breytt lífi hans síðustu ár og hafði Þorsteinn frá svipaðri reynslu að segja en í hans tilviki var það sveppurinn sem bjargaði bókstaflega lífi hans. „Eins og sílósíbin gerði fyrir mig,“ sagði Þorsteinn og átti við sveppameðferð gegn þunglyndi. „Ég fór í svona sólósíbin meðferð, búinn að vera að drepast úr þunglyndi í 30 ár og hef oftar en tvisvar og oftar en þrisvar staðið á brúninni með að drepa mig. Ég fer í eina meðferð, eina alvöru meðferð fyrir þremur árum, það er undirbúningur með sálfræðingi, það er meðferð með meðferðaraðila sem sat yfir mér allan tímann og svo eftirvinnsla á eftir. Og ég var bara „Vá, þetta var mögnuð reynsla og bla, bla, bla“ en svo líða einhverjar þrjár vikur og ég er úti í bílskúr eitthvað að gera, sennilega að troða mér í pípu eða eitthvað, þegar ég finn þessa gamalkunnu tilfinningu, svona doðatilfinningu í herðunum og niður handleggina. Ekki óþægileg tilfinning, ekki þægileg en óhugnanleg tilfinning vegna þess að ég vissi hvað hún táknaði. Ég hugsaði með mér „Ó fuck, er ég að fá þunglyndiskast núna?“ en svo liðu fjórar, fimm sekúndur og ég hugsaði bara „Nei, ég er ekki að fá þunglyndiskast núna, þetta er bara rugl“ og hélt áfram. Og ég hef ekki fundið fyrir þunglyndi síðan!“
En hvað er það sem sveppurinn er að gera fyrir mann í svona meðferð?
„Hann er að endurtengja heilabrautir sem þú hefur ekki notað síðan í frumbernsku. Rétt á meðan þú ert á trippinu.“
Gunnar spyr þá hvort hann skilji þetta rétt, að þegar tilfinningin kemur, sem hann tengdi áður við þunglyndiskast, getur hann um leið hoppað yfir í aðra tengingu og komið þannig í veg fyrir kastið. Sagði Þorsteinn að það væri alveg rétt skilið hjá honum.
Búfénaður hætti að nærast á hampi
Wiium bræður minnast á það í viðtalinu að vitað sé um sirka 130 ólíkir kannabínóðar Kannabisplöntunar en þeir þekktustu eru THC og CBD. Þeir kannabínóðar eru mest rannsakaðir og því mest vitað um þá. Má segja að THC sé eini kannabínóðinn í plöntunni sem veldur vímuáhrifum á meðan kannabínóði eins og CBD veldur ekki vímu. Rannsóknir hafa sýnt að CDB sé að hafi gríðarlega mikil áhrif á hug og líkama í gegnum kerfi sem er skammstafað ECS en stendur fyrir endocannabinoid system.
Þetta kerfi var uppgvötvað fyrir um 30 árum síðan af ísraelskum vísindamönnum.
Um er að ræða kerfi innan líkama hverrar manneskju sem er sérstaklega hannað til að taka á móti kannabínóðum og aðeins þeim. Þekktir viðtakarar innan þessa kerfis voru tveir þar til fyrir stuttu er einn til viðbótar bættist við. Síðan Kannabis komst á svarta listann fyrir um 100 árum hefur ECS kerfið svelt og eru afleiðingarnar afar slæmar.
Búfénaður sem áður nærðist á hampi fór að éta gras og það þýddi að við fórum að hætta að fá CBD meðal annars með kjötinu sem við átum, mjólkinni sem við drukkum og eggjunum sem við borðuðum. Læknar fengu ekki að uppáskrifa Kannabis lengur og því hvarf virkni þessa kerfis og heldur Þorsteinn að þess vegna séum við að horfa á vaxandi sjúkdóma tengt bólgum svo eitthvað sé nefnt sem og geðsjúkdóma og vaxandi alkahólisma.
Möguleikar hampsins óendandlegir
Möguleikar hampsins sem hráefni eru óendanlegir. Þeir ræddu um í viðtalinu hvernig bæta þurfa inniviði hampræktar á Ísland með reynslu sem og aukinna möguleika á nýtingu og sölu hampsins eftir ræktun. Þetta vildi Þorsteinn meina að sé í vinnslu og að þetta ferðalag taki tíma og að við séum að sjá breytingar í veldisvexti frá ári til árs. Þorsteinn sér mikinn möguleika í hampinum á Íslandi og segir að við eigum í raun ekki annarra kosta völ en að færa okkur inn í umhverfisvænni framleiðslu á hráefnum fyrir iðnað. Hann segist vera bjartsýnn og viti að miklar breytingar séu í vændum og að stórfyrirtækin sjái hag sinn í auknu mæli í að rækta hamp eða kaupa hamp af bændum landsins.
Þegar Þorsteinn er beðinn um að koma með lokaorð stendur ekki á svari: „Það þarf að afglæpavæða þetta og fara að framleiða lyfjahamp. Og gera út á túrista, það er gert í Hollandi, þar gera þeir út á Kannabis-túrisma sem skilur eftir mikinn pening í hagkerfinu. Tælendingar gera þetta líka. Þjóðverjar, Ítalir og Frakkar, þeir gera út á gott vín, af hverju gerum við ekki út á gott Kannabis? Það er miklu minna vesen af Kannabis-reykjurum en fyllibyttum nokkurntímann.“
Þennan afar athyglisverða þátt má sjá i heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan eða heyra á flestum streymisveitum.