Sverrir tók þátt í klikkuðustu landkynningu Íslands: „Jakob Frímann er með botnlausar hugmyndir“

top augl

Nýjasti gestur Mannlífsins er kontratenórinn og lífskúntsnerinn Sverrir Guðjónsson. Flestir Íslendingar þekkja Sverri en hann er eini kontratenór þjóðarinnar en hann var ekki nema átta ára gamall þegar hann hóf söngferil sinn.

Í viðtalinu segir Sverrir frá barnastjörnuárunum, söngferlinum, óvæntu ævintýri sem Jakob Frímann Magnússon kom honum í þegar hann bjó í Lundúnum og ýmislegt fleira sem á daga hins bráðskemmtilega manns hefur drifið.

Ein magnaðasta en um leið umdeildasta landkynning Íslandssögunnar er gjörningur sem framkvæmdur var á íslenskri menningarviku í Gulbenkian-galleríinu í Lundúnum árið 1991. Jakob Frímann Magnússon var þá menningafulltrúi Íslands í Lundúnum og stóð fyrir þessari menningarviku. Datt honum í koll þá hugmynd, í miðjum blaðamannafundi, að auglýsa gjörning án þess að vera búinn að ræða það við þá sem áttu að framkvæma hann. Sverrir segir Reyni Traustasyni frá því þegar Human Body Percussion Ensemble-gjörningurinn sló í gegn í Lundúnum en reiddi Íslendinga.

„Jakob Frímann er með botnlausar hugmyndir,“ segir Sverrir og Reynir tekur undir. Heldur hann svo áfram: „Og margar frábærar. Og ég vissi ekki alveg hvað á mig stóð veðrið þegar hann hringdi í mig en þá bjó ég úti í London, var þá að takast á við kontratenórsöng, og barrokkmúsík og samtímatónlist, var á kafi í þessu. Þá kemur hringing frá Jakobi. Þá var hann menningarfulltrúi Íslands í gegnum sendiráðið og er að búa til stemmningu fyrir 1. desember hátíð Íslendingafélagsins. Og hann er svo stórtækur þannig að hann býr til myndlistasýningu, hann býr til tónleika, alls konar tónleika og ég veit ekki hvort það var leikrit líka. Og hann er að reyna að kynna þetta fyrir blaðafólki í London. Og hann er að nefna öll þessi nöfn sem við þekkjum en enginn þekkir úti í London. Og það er enginn áhugi fyrir þessu og blaðamennirnir eru farnir að færast nær útidyrunum. Voru farnir að láta sig hverfa af þessum fundi sem þeir vildu ekki vera á.“

Sverrir segir að Jakob hafi þá fengið flugu í höfuðið, til að ná athygli blaðamannanna:

„Og þá segir hann „Jú, það er eitt atriði í viðbót og það er The Human Body Percussion Ensemble “. Bara nafnið er stórkostlegt.“

Reynir: „Og það varð til á staðnum bara?“

Sverrir: „Já, já en að vísu hafði hann hugsað þetta nafn einhvern tíma. Þannig að það var í heilanum á honum og hann bara kastar þessu fram og það bara stoppa allir á sinni leið út úr salnum.“

Þegar forvitnir blaðamenn spyrja Jakob nánar út í þetta atriði var hann með svörin á reiðum höndum, að sögn Sverris: „Hann fer að lýsa því að þetta sé bara stundað á Íslandi. Að þetta sé einhvers konar sambland af glímu og svo yfir í búkslátt, til að halda á sér hita og allt þetta. Og þeir grípa þetta.“

Í kjölfarið hrönnuðust upp pantanir fyrir þennan furðulega gjörning og hóaði Jakob þá í Didda fiðlu, Röggu Gísla, sem þá var eiginkona Jakobs og Sverri, sem öll slógu til og slógu svo rækilega í gegn, meðal annars í vinsælum sjónvarpsþætti Jonathan Ross. Ekki voru þó allir ánægðir en margir Íslendingar urðu reiðir yfir þessari frumlegu landkynningu.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.

Hér fyrir neðan má síðan sjá hinn frumlega gjörning sem um er rætt:

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni