Arngrímur Viðar Ásgeirsson sagði frá kynnum við álfa í viðtali sem má finna í þættinum Komin á kortið, sem kom út á dögunum á vef Mannlífs. Blaðamaður sat með honum við rætur Álfaborgarinnar á Borgarfirði eystri og spurði hvort hann kynni einhverjar álfasögur, en þær eru margar til í tengslum við staðinn.
„Það var 2014, þá komu tveir gestir til mín. Þetta var fimm daga ferð og þeir fóru alltaf hérna niður eftir á kvöldin, kíktu í Álfaborgina,“ segir Arngrímur Viðar.
„Svo síðasta daginn vildu þeir endilega fá mig með – það væri eitthvað þarna í Álfaborginni sem þeir skynjuðu, sem væri ekki í lagi. Ég sendi einhvern með þeim og þeir fóru hérna upp með þessum leiðsögumanni. Þeir sýndu henni staðinn; það var eitthvað hérna uppi sem þeim bara fannst ekki vera í lagi.
Hún sá ekki neitt en svo mættu þau konu á tjaldstæðinu sem leiðsögumaðurinn minn vissi nú að væri svona… já, ágætlega tengd, getum við sagt. Hún fór með þeim upp og þá birtist henni sem sagt álfkona sem var að biðja um hjálp, af því að það væri lítið barn hérna í álfheimum sem væri veikt og þau gætu ekki læknað það, og báðu um aðstoð frá mannheimum til þess að lækna barnið.“
Hægt er að horfa á viðtalið við Arngrím Viðar í heild sinni hér. Í þættinum skellir valtur blaðamaður sér einnig í sjóferð auk þess að lundarnir sem halda til á Borgarfirði eystri sýna sínar bestu hliðar.