Tom segir mikla framtíð í hampsteypunni: „Eitt tré myndar ekki skóg heldur mörg tré“

top augl

Hampfélagið fer af stað með HAMPKASTIÐ sem eru umræðuþættir í hljóði og mynd og fjalla að sjálfsögðu um HAMP. Þáttastjórnendur verða Sigurður Hólmar og Þórunn Þórs sem bæði eru stjórnarmenn í Hampfélaginu. Fyrstu gestir þáttarins verða bæði íslenskir og erlendir sérfræðingar á sínu sviði um nýtingu hamps. 

Tom með hampinn

Nýjasti gestur Hampkastsins er breski arkitektinn Tom Woolly sem má segja að sé faðir hampsteypunar í Evropu og eflaust á heimvísu. Tom býr í Írlandi og er sérfræðingur í sjálfbærum og náttúrulegum byggingaraðferðum. Tom sem lærði arkitektúr á sjötta áratugnum í Edinborgarháskóla, sýndi strax merki þess að vera á skjön við það sem var kennt, sem einkenndist mikið af stórum dýrum, steyptum byggingum. Tom hefur verið þekktur fyrir það alveg frá fyrstu tíð hans í arketektúr að hugsa út fyrir boxið sem hefur í raun alltaf leitt af sér sjálfbærni í tengslum við bæði hráefni, form og byggingaraðferðir.

 

Fyrirlesturinn sem breytti öllu

Sem ungur maður í leit sinni að náttúrulegum byggingaraðferðum gekk hann í samtök um umhvefisvænar byggingar í Bretlandi en fann þar að umhverfisvitundin þar var ekki að hans mati nógu sterk. Á ráðstefnu sem samtökin héldu í lok níunda áratugarins í London heyrði hann fyrirlestur arkitekts að nafni Ralph Carpenter sem fjallaði um byggingar sem gerðar höfðu verið í Frakklandi úr hampsteypu. Fann Tom á því augnabliki að þetta væri það sem hann hefði alltaf verið að leita að. Á þessum fyrirlestri blandaði Ralph steypu og gerði prufur sem gestum fannst ekkert mikið um og í lok fyrirlestrarins fóru allir gestirnir sína leið nema Tom, hann varð eftir og endaði í samstarfi við Ralph. Tom ferðaðist til Frakklands og í samvinnu við Ralph tókst honum að setja saman hampsteypuleiðbeiningar sem svo Tom notaði í þeim fyrstu húsum sem byggð voru úr hampsteypu í Bretlandi.

Fyrstu húsin sem Tom byggði í Bretlandi voru úr innfluttum hampi sem þeir Ralph keyrðu í sendibílum yfir til Bretlands en svo eftir því sem tíminn leið fóru að spretta upp ræktanir í Bretlandi sem svo urðu að hráefni fyrir breskar hampsteypubyggingar. Tom talaði um uppruna hampsteypunnar og vísaði þá í sögusagnir sem fjölluðu um hampsteypuframleiðslu forn rómverja en ekkert sé til í raun sem styrkir þær sögusagnir þó svo að það sé staðfest að rómverjarnir hafi fundið upp limestonebinderinn sem svo er notaður með hampi og vatni í framleiðslu á hampsteypu í dag. Framleiðsla á hampsteypu er því tilturlega ný af nálinni og talið er að í kringum 1980 hafi Þjóðverjar og Frakkar byrjað að notað hampsteypu í viðgerðir á gömlum húsum sem svo leiddi til þess að fyrstu hampsteypuhúsin voru byggð nokkrum árum seinna.

Kostir hampsteypunnar

Varðandi hampsteypuna segist Tom hafa fundið hana í leit sinni að hráefni sem gæti mögulega leyst af notkun hefðbundinnar steypu og plasts í byggingum sem eru ekkert annað en umhverfisskaðvaldar. Helstu áhyggjur sérfræðinga í byrjun hampsteyputímabilsins voru að náttúrlegt efni eins og hampur í bygginum myndi auðveldlega brenna, burðarfræðilegur styrkur væri ófullnægjandi, lélegt einangrunargildi, myglu og að mýs og annar skaðvaldur myndi frekar sækja í náttúruleg efni framyfir steypu og plast. Það sem svo hefur komið í ljós með hampsteypuna er að burðarfræðilegur styrkur er sambærilegur við steypu, einangrunargildið er á pari með hefðbundinni einangrun ef ekki betri, mygla þrífst ekki í hampi eins og í öðrum náttúrlegum efnum eins og korki og ull. Hampsteypan hefur það háa brunavörn að hann nánast brennur ekki og mýs og annar skaðvaldur sækja alls ekki í hann. Reynslan er að sýna að hampsteypan sé í raun heilt yfir talsvert betri sem byggingarhráefni en önnur efni sem eru ráðandi á markaðnum í dag.

Talið er að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Tæplega helmingur þeirrar losunar kemur frá byggingaefnum, einkum steinsteypu.

Tom fræðir áhugasama um hampsteypuna

Helstu kostir hampsteypunnar er hvað hún er umhverfisvæn. Hampurinn bindur ekki bara koltvíoxíð meðan hann vex, því hampsteypan heldur áfram að sjúga það í sig næstu áratugi. Hampsteypa andar líka og er einangrandi og brennur hvorki né myglar. Það hljómar næstum of gott til að vera satt.  

Eftir að plantan hefur verið skorin niður er hún ýmist færð inn í hús til þurrkunnar eða látin liggja úti og brotna niður. Eftir að hún er þurrkuð eru trefjarnar skildar frá, en þær má nota í hluti eins og textíl og reipi. Stöngullinn er hins vegar kurlaður niður.  

Í framhaldinu er hampkurlinu hrært saman við kalk og vatn, efjunni sturtað í mót, þjöppuð niður og látin harðna. Þar með er eitt stykki útveggur orðinn til en hann er borinn upp af grind, yfirleitt úr timbri.

Brad Pitt hefði getað breytt miklu

Vandmálið hvað varðar hampsteypuna í Írlandi til dæmis segir Tom vera skert aðgengi að arkitektum og hönnuðum sem séu tilbúnir að hanna og setja nöfn sín við hönnun hampsteypubygginga en hann vill meina að þetta séu bara smá skref og þau virðast vera tekin í rétta áttt. Hann talaði um að kannski þurfi einhvern þekktan áhrifavald sem talsmann hampsteypunar í stað eldri hugsjónamanns eins og hann sjálfur er. Á tímabili átti Brad Pitt stórt sveitasetur í Frakklandi þar sem mikill hampur var ræktaður og planið var hjá Brad að byggja stórt hamphús sem hafði vakið mikla athygli vegna frægðar hans en hann svo skildi við eiginkonuna sem hann var giftur og setrið var selt svo ekkert varð úr þeirri byggingu sem hefði vakið mikla athygli.

Lífhúsið

Biobuilding, eða Lífhúsið, er tilrauna- og þróunarverkefni á vegum arkitektastofunnar Lúdika, sem er í eigu þeirra Önnu Karlsdóttur og Jans Dobrowolski. Í sumar fékk stofan styrk frá Hönnunarsjóði til að hanna 15 fermetra smáhýsi úr hampsteypu. Til stendur að reisa það í Grímsnesi í vor og kanna hvernig það stenst íslenskar aðstæður. Í tengslum við þetta verkefni hélt Lúdíka í samvinnu við Hampfélagið, vinnustofu í haust þar sem Tom var með kynningu á gerð og sögu hampsteypunnar ásamt því að tilraunaveggur var byggður. Mikil undrun einkenndi gesti vinnustofunnar því um leið og steypunni hafði verið hellt og þjappað í mót sem byggð höfðu verið gátu þau fjarlægt mótin og steypan stóð og hreyfðist ekkert úr stað sem gerir framleiðslu á hampsteypuveggjum með eindæmum auðvelda og viðráðanlega.

Skortur á fjárfestum

Á Íslandi segir Tom að vanti fjárfesta til að leggja peninga í úrvinnslustöðvar fyrir hampinn. Margir séu farnir að sýna hampinum áhuga og íslenskir ræktendur á hampi hafi nú sýnt það síðustu ár að ræktun er möguleg á Íslandi en vandamálið er að það eru engir staðir eða tæki til að taka við hampinum og vinna úr honum svo hægt sé að nota til framleiðslu á húsnæðum og öðrum hlutum sem hægt er að vinna úr hampinum. Þetta vandamál er enn til staðar að einhverju leiti á Írlandi þar sem hann býr en það má segja að Íslendingar séu einum 20 til 30 árum á eftir og að þetta ferli taki tíma. Í raun snýst þetta um að framleiðendur og fjárfestar opni augu sín fyrir sjálfbærni, styrk og möguleikum hampsins og leggist í þá vinnu sem þarf til svo að framleiðsla á íslenskum hampi verði raunhæf. Hann segir okkur einnig vera heppin því við séum með vatnið með okkur og orkuna sem til þarf. 

Tom segir að enn sé þörf á vísindarannsóknum því margir sem vinna með hampsteypuna vinni út frá reynslu sem er gríðarlega dýrmæt og þýðingarmikil en hafi kannski ekki nógu mikið vægi þegar kemur að því að sannfæra markaðinn. Til dæmis má nefna að hampsteypan virðist halda á í raun óútskýranlegan hátt hitasigi í 14 gráðum óháð innri hitagjafa og ytra hitastigi sem gerir hampsteypuna ákjósanlegan kost fyrir matvæla og víniðnaðinn svo eitthvað sé nefnt. En þessi staðreynd sem er orðin skýr út frá reynslu er enn frekar óútskýrð út frá vísindalegum rannsóknum.

Margir kúrekar í bransanum

Tom segist vera kominn á stað í sinni vinnu þar sem hann er að reyna að gera hampsteypuna ennþá meira umhverfisvæna og því er hann að gera tilraunir með leir sem náttúrlegt jarðefni í stað Limebindersins sem er í raun kalk afurð sem er ekki jafn umhverfisvæn og leirinn til dæmis. Einnig segir Tom að honum langi að gera tilraunir á bambus burðargrind í stað hefðbundins timburs því timbrið er orðið umhverfislega séð að verðmætri afurð og bambus er mjög fljótvaxinn eins og hampurinn og býr yfir gríðarlegum styrk. 

Í lokin segir Tom að mikilvægt sé að sýna nærgætni og virðingu fyrri framleiðslu á hampi og hampsteypu. Hann vill meina að það séu margir „kúrekar“ ef svo mætti kalla í þessum bransa, sem eru fljótir með yfirlýsingar en vanda svo ekki til verks. Hann nefnir í því samhengi áhugasama einstaklinga sem eru yfirlýsingaglaðir um áform sín með ræktun og byggingu hamphúsa hér á landi en svo þegar raunveruleg vinnustofa er sett upp með sérfræðingi í hampsteypu þá geti þessir „kúrekar“ ekki einu sinni séð sér fært á að mæta og afla sér þeirra þekkingar sem til þarf fyrir verkefnið sem til þarf til, auk þess sem það myndi stuðla að tengslum og hópmyndunar fólks í sömu hugleiðingum svo að þeir geti frætt og lært af hvort öðru. „Eitt tré myndar ekki skóg heldur mörg tré.“

Þetta upplýsandi viðtal má sjá á spilaranum hér fyrri neðan auk þess að finnast á öllum helstu streymisveitum. Einnig má benda á auðvelt er að skrá sig í Hampfélagið á hampfelagid.is og fá þar reglulegar tilkynningar á því sem er að gerast í hampbransanum á Íslandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni