Hampfélagið fer af stað með HAMPKASTIÐ sem eru umræðuþættir í hljóði og mynd og fjalla að sjálfsögðu um HAMP. Þáttastjórnendur verða Sigurður Hólmar og Þórunn Þórs sem bæði eru stjórnarmenn í Hampfélaginu. Fyrstu gestir þáttarins verða bæði íslenskir og erlendir sérfræðingar á sínu sviði um nýtingu hamps. Fyrsti viðmælandi í Hampkastinu er Þórunn Þórs Jónsdóttir, gjarnan kölluð Tóta. Sigurður hefur orð á því í byrjun viðtalsins að Tóta sé móðir hampsins á Íslandi.
Tóta sem er einstæð tveggja barna móðir er fædd í Reykjavík en elst upp í Hafnarfirði og miðbæ Reykjavíkur. Hún segist hafa sterka strengi til þessara staða, á stóran vinahóp í Hafnarfirði sem og í miðbæ Reykjavíkur og lítur á sig sem grjótharðan FH-ing.
Tóta sem er einn stofnandi Hampfélagsins kynntist fyrst kannabis í lækningaskyni fyrir tíu árum þegar vinur hennar var að takast á við fjórða stigs krabbamein í hálsi. Tóta er viskubrunnur á þessu sviði kannabis og þegar hún var búin að vera 10 ár að stúdera kannabis og CBD og hjálpa fólki með allskonar sjúkdóma fannst henni mikilvægt að taka skömmina af þessu og kynna þessa mögnuðu plöntu og í kjölfarið var Hampfélagið stofnað af árið 2019 af fjölbreyttum hópi fólks sem voru að að nálgast hampinn og kannabis úr mjög álíkum áttum.
Fyrsta stóra verkefni Hampfélagsins var málþing sem bar heitið Hampur fyrir framtíðina og mun það nafn verða yfirskrift viðburða á vegum félagsins í framtíðinni. Markmið málþingsins var að skapa umræður og fræða samfélag okkar um fjölbreytta notkunarmöguleika hamps og mikilvægi þess að gera plöntunni hærra undir höfði en gert hefur verið síðustu áratugi. Málþingið var haldið á Grand Hótel Reykjavík og er óhætt að segja að undirtektir hafi verið framar vonum því salurinn yfirfylltist og þurfti stór hópur fólks að sitja á gangi fyrir framan salinn. Miklar umræður sköpuðust fyrir og eftir málþingið í fjölmiðlum og í samfélaginu öllu. Í framhaldinu var sett fram þingsályktunartillaga af Halldóru Mogensen, þingmanni Pírata sem ber heitið „CBD í almenna sölu“.
Sigurður þáttarstjórnandi nefnir í þessu samhengi með hampinn viðtökur Alþingis á efnum tengt hugvíkkun, Psilosobin og hvernig það einfaldlega virðist vera að renna í gegn þökk sé því að sá armur virðist hafa akademíuna með sér í liði og það virðist vera svo að sérfræðingar og akademikarar séu það eina sem ráðamenn hlusti á. Í því samhengi finnst Tótu finnst magnað að ekki sé búið að finna lækna hér á landi sem eru til í að tala fyrir CBD. Hún segist hafa farið á sínum tíma og talað við Kára Stefáns hjá Decode og útskýrt fyrir honum hvernig hún hafi í gegnum árin hjálpað krabbameinssjúklingum með notkun CBD og THC en um leið og hún minntist á taugasjúkdóma þá hafi hann farið í algjöran baklás og alls ekki viljað ræða þetta þó svo að hann sé taugalæknir.
„Það sem mér finnst svo skrítið að ef þú ert læknir, þú ert vísindamaður og þú ert með sjúkling sem þú ert búin að vera að sinna ógeðslega lengi og þetta gengur ekki nógu vel og hann er með með mjög skert lífssgæði og svo bætir þú bara einhverjum dropum inn í líf hennar sem þú veist að eru ekki skaðlegir og þú verður ekki einu sinni forvitin.“
Tóta segir að Bændablaðið sé búið að vera gríðarlega duglegt að fylgja þessari hampbyltingu og eigi þeir skilið miklar þakkir. Eftir að Covid skall á fljótlega eftir ráðstefnuna og lítið búið að gerast síðan þó svo að Hampfélagið sé núna farin að leggja drög að nýrri ráðstefnu sem verður betur kynnt síðar. Einnig er nýafstaðin vinnustofa í samvinnu við Ludika arkitektum þar sem sérfræðingur á sviði hampsteypu kom til landsins og fræddi landan um möguleika hampsteypunar sem eru vægast sagt ótrúlegir. Í tengslum við vinnustofuna sótti Ludika um styrk til að byggja tilraunahús úr hampi. Húsið sem verður 15 m2 verður tilraunahús og klædd á tvo vegu, hampklæðning annarsvegar og timburklæðning hinsvegar og verður svo takmarkið að ná í svokallaða CE vottun í samvinnu með Mannvit þannig að hægt sé að nota íslenska hampsteypu. Tóta segir að hampsteypa sé málið, hún myglar ekki, brennur ekki, andar og er hita og kulda einangrandi.
Tóta er búin að vera ötul í að byggja upp tengslanet síðustu 15 ár bæði hérlendis og erlendis og fengið að kynnast ótrúlega mörgum sem koma að hampinum úr öllum áttum. Hvað hana varðar þá segir hún að drifkraftur hennar sé að fyrst og fremst að hjálpa fólki með þá fyrst og fremst með CBD olíunni. Tóta hefur verið mikið í kringum fatlaða einstaklinga, bróðir hennar var fatlaðisti einstaklingurinn á Íslandi og hún segist búa yfir mikilli samkennd gagnvart fólki og sérstaklega fólki sem er að glíma við kvilla sem hún veit að geta fengið bót mála sinna með hjálp kannabis.
„Maður sér að þetta var sprengja og svo sér maður fólkið sem ætlar sér að vera i þessum bransa, þetta var svolítið eins og gullgrafaradæmi til að byrja með en sem betur fer er það að líða yfir og fólk er bara að reyna finna leiðir en á flestum stöðum eru það bara reglugerðir sem eru að standa í veg fyrir, það vantar að sleppa tökunum aðeins, það er alltaf verið að setja fótinn fyrir.“
Sigurður segir að í BNA sé ekki hægt að notast við kort í viðskiptum á hampi eða kannabis sem gerir það að verkum að öll viðskipti fara fram í reiðufé sem kallar á allskonar hættur og mörg dæmi eru um að fólk sem vinnur í kringum hampi og kannabis séu rænd. Þó svo að Tóta vilji meina að yfirvöld standi oft í vegi fyrir möguleikum kannabis með þröngsýnum reglugerðum þá vill hún meina að margt gott sé að gerast í dag út um allan heim og ber að nefna hvað sé búið er að vera gerast í Tælandi. Fyrir nokkrum árum síðan áttir maður sem tekin var með snefilmagn af kannabis á götum Tælands það í hættu að þurfa eyða mörgum árum í fangelsi fyrir vikið en nú er öldin önnur segir Tóta. Kannabis er búið að fylgja okkur í tíu þúsund ár og í Tælandi hefur kannabis oft verið notað í helgi athöfnum og trúarhátíðum fyrir guðina þrátt fyrir að vera ólöglegt en nú á síðustu tveim árum erum stjórnvöld í Tælandi búin að snúa algjörlega við blaðinu hvað varðar mótþróa gegn kannabis. Þeir eru búnir að lögleiða lyfjahamp og hampræktun og gáfu milljón kannabisplöntur til fólks sem vildu taka þær með sér heim og nýta sér.
Talið berst að krabbameini en Tóta er með mikla reynslu á því sviði. Það sem Tóta hefur séð á þeim sjúklingum sem hún hefur verið í samskiptum við síðustu ár er að þeir sem hafa ásamt hefðbundnum krabbameinsmeðferðum notað ýmist CBD eða THC virðast koma mun betur út úr veikindum sínum. Virðast þeir koma betur út hvað varðar aukaverkanir og endurheimt að meðferð lokinni en þeir sem fara einungis í hefðbundna meðferð.
Hún segir að rannsóknir sýni að CBD einfaldlega drepi og útrými ákveðnum krabbameinsfrumum. Í því samhengi segir hún að við hormónakrabbameini myndi viðkomandi fara í meðferð með háu innihaldi af CBD og lágu af THC en ef ekki væri um hormónatengt krabbamein að ræða þá myndi meðferðin einkennast af háu THC-innihaldi og lágu af CBD.
Tóta talar einnig um mikilvægi réttrar fæðu fyrir líkamann. Til dæmis þurfi þurfi fólk að hreinsa lifrina svo hún sé í stakk búin til að takast á við lyfjagjöf sem fylgi hefðbundnum krabbameinsmeðferðum. Hún talar um hvernig hún upplifir að sjúklingarnir leggist oft kylliflatir fyrir framan lyfjalausnina eina sér. Byrja að dæla í sig lyfjum og einhvern veginn afsali sér allri ábyrgð sem fylgir að vera með alvarlegan sjúkdóm og bíði eftir að læknirinn eða kerfið bjargi sér.
Á sama tíma og það er skortur á lyfjum við til dæmis krabbameini þá er algjörlega litið fram hjá rannsóknum og reynslu margra nágrannaþjóða okkar á meðhöndlun með ýmist CBD eða THC gegn krabbameini. Hún telur að Íslendingar séu aftarlega á merinni og í raun um tuttugu árum á eftir mörgum öðrum þjóðum í þessum málum.
Í Covid fór Tóta af stað með að gera heimildarmynd um hampinn og ferðaðist Tóta um allt land og heimsótti hampbændur. Árið 2020 voru ræktaðir á Íslandi um 30 hektarar og ári seinna árið 2021 voru ræktaðir um 150 hektarar sem er svipað magn sem ræktaðir voru síðasta sumar árið 2022. Tóta vill meina að það sé búið að margsanna það að hægt sé að rækta hamp á Íslandi þó svo að það sé alveg ljóst að veðrið hafi alveg rosalega mikið að segja ásamt landsvæðum og segir Tóta að því meiri tími sem notaður í að undirbúa jarðveginn því betri verður uppskeran.
Hvað varðar framtíðarsýn Tótu í hampmálum á Íslandi segist Tóta veðja á byggingariðnaðinn þó svo að hún hafi vonast eftir að sjávarútvegurinn myndi koma sterkari inn með notkun hamplasts og í netagerð. Hún segir að hampiðjan sem eitt sinn framleiddi allt úr hampi sé nær einungis að vinna með nylon plast sem er helsti skaðvaldurinn í sjónum hvað varðar umhverfismál. Hún segist hafa tekið smá spjall með nokkrum skipstjórum um daginn um netamál og komist að því að meðalnotkunartími á plastnetum í dag sé um ár, þau eru ekki bætt, þeim er bara hent. Eftir fimm hundruð ár byrja þau að brotna niður. Hampurinn byrjar að brotna niður í sjó eftir 18 mánuði og vill Tóta meina að það sé þó allavaga hægt að blanda saman nylon og hampi upp á fljótara niðurbrot neta í sjónum. Sjávarútvegurinn er helsti skaðvaldur lífríki sjávar og finnst henni að þeir eigi að axla ábyrgð og hætta notkun plasts og snúa sér að hampinum.
„Þarna er stærsta vandamálið okkar, það byrjar þarna. Við getum verið að tala um einhver plaströr sem eru 0,0001%, hvernig væri að skoða fiskinet eða foampakkningar, allt þetta sem fylgir sjávarútveginum. Þeir eru að græða mest og eru minnst ábyrgir.“
Hún segir að byggingariðnaðurinn sé fullkomin fyrir Ísland að leggja áheyrslu á. Það sé ekki flókið að rækta fyrir stönglana auk þess að vinnslan sé ekki flókin. Hún segist líka vera áhugasöm á að rækta innnandyra fyrir stöngla. Hún segir að ef við á Íslandi ætlum í iðnað þá þurfum við lágmark 2000 hektara á ári eða um 500 tonn af hampi og við þurfum að tryggja okkur það að við getum staðið undir þeirri framleiðslu.
Að lokum segir Tóta:
„Það er engin fyrirstaða nema fólkið og ég er í raun bara að auglýsa eftir einhverjum hugrökkum manni eða fólki sem er til í að breyta einhverju, gera betur. Á þessum tíma sem við erum að upplifa þurfum við að verða meira sjálfbær og við þurfum að fara að fara opna augu okkar meira gagnvart bændum og þeirra starfi, ég held að fólk sé ekkert meðvitað um hvað þetta skiptir miklu máli og við þurfum að finna betri farveg að þeir þurfi ekki alltaf að vera að berjast í bökkum og við þurfum að vera meira ábyrg fyrir því að rækta landið okkar og nýta það sem við eigum.“
Viðtalið má nálgast í heild sinni hér að neðan.