„Á leiðinni kom maður hrópandi á móti hópnum. Hann hafði ætlað að fara á bak við stein að ganga örna sinna en þá lá þar meðvitundarlaus maður sem hafði leitað vars,“ segir Hjalti Björnsson í hlaðvarpinu Mannlífinu. Hann rifjar upp skelfilegt ástand sem ríkti á Laugaveginum í sumar þegar óveður skall á og fjöldi manns lenti í neyð.
„Það byrjaði að streyma að fleira fólk fyrir utan okkur. Fyrst þegar ég þreifaði á manninum hélt ég að hann væri dáinn. Hann var svo svakalega kaldur og lífvana. Ég er ekki læknir og get ekki úrskurðað fólk látið. Það eru bara læknar sem gera það. En ég var sannærður um að svo væri. Ég hafði aldrei séð svona lífvana einstakling.“
Hjalti rifjar upp ferðir sínar á fjöllum sem fararstjóri undanfarin ár.Um áratugaskeið starfaði hann sem dagskrárstjóri á Vogi og átti þar farsælan feril. Einn dag var hann svo rekinn.
Skjólstæðingar Hjalta í gegnum áratugina eru margir og er hann spurður hvað sé það sorglegasta sem hann hefur upplifað varðandi þá.
„Ég man sérstaklega eftir ungum manni sem kom í meðferð og gekk illa. Hann kom nokkrum sinnum til okkar og þá var ég á Staðarfelli í Dölum.“
Hjalti segir að maðurinn hafi orðið edrú. Hann fór í háskóla og lauk námi. „Mjög greindur maður og flottur. Svo heyrði ég einn daginn að hann væri látinn. Hann hafði þá fallið og fyrirfór sér. Það gerist stundum þegar fólk er að falla í þessum sjúkdómi að örvæntingin er svo mikil og sérstaklega þegar um er að ræða ungt fólk og þá grípur það til örþrifaráða. Og hann sá enga aðra leið út úr þessu.“
Hjalti segist hafa orðið svolítið hissa á viðbrögðum sínum en dauði mannsins hafði mikil áhrif á hann. „Mér fannst þetta ofboðslega sorglegt.“