Steinunn Einarsdóttir er nýjasti gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn. Steinunn var sjómaður um árabil á báti foreldra sinna.
Áralöng útgerðarsaga foreldra Steinunnar, Guðrúnar Pálsdóttir og Einars Guðbjartssonar, endaði snögglega er snjóflóð féll á smábátahöfnina á Flateyri árið 2020. Aðeins stóð einn bátur eftir af flota Flateyringa.
„Þetta var rosalegt sjokk,“ segir Steinunn við Reyni þegar hann spyr hana út í snjóflóðið en hún var á staðnum er það féll, rétt eins og þegar hið mannskæða snjóflóð féll á þorpið 25 árum fyrr. Og Steinunn heldur áfram: „Bæði útgerðarinnar vegna og líka að upplifa aftur svona snjóflóð. Þetta rífur svolítið upp.“
Reynir spyr hvort að foreldrar Steinunnar hefðu þarna ákveðið að nú væri komið nóg.
Steinunn: „Já en þarna eru þau líka farin að nálgast sjötugt. En þetta tók langan tíma, tryggingarnar náttúrulega,“ segir hún og brosir. „Þetta tók örugglega hálft ár og þegar maður er á sjötugsaldri að fara að byrja upp á nýtt, smíða nýjan bát, það er ekkert … svona bátar liggja ekkert á sölu sko.“
Reynir spyr Steinunni hvernig hún sjái framtíðina á Flateyri, en þar vill hún búa ásamt fjölskyldu sinni. Reynir spyr hvort synirnir muni búa þar eftir að þeir slíta barnsskónum.
„Já sko, það er magnað alveg, mamma og pabbi eru náttúlega miklir Önfirðingar, alveg langt aftur í ættir. Og ég hef verið mikill talsmaður Flateyrar og er rosalega stoltur Flateyringur. Og þeir eru pínu svona líka.“