Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ábreiða íslenskrar söngkonu af laginu Húsavík slær í gegn: „Maður roðnar bara“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ábreiða Katrínar Ýrar af laginu Húsavík, úr Eurovision-kvikmynd Wills Farrel Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum. Á fyrstu 12 tímunum fékk myndbandið 2.000 áhorf á YouTube og fallegum skilaboðum rignir yfir söngkonuna, sem segist vera alveg í skýjunum.

Katrín Ýr starfar í tónlistarbransanum í London þar sem hún hefur komið töluvert fram ásamt því að raddútsetja, syngja lög eftir aðra og syngja bakraddir og fleira fyrir aðra listamenn. Hún hefur einnig staðið fyrir tónleikum til heiðurs söngkonunni Adele á Íslandi og á síðasta ári stóðu hún og Erla Stefánsdóttir á bakvið tónleikana Konur í rokki sem voru haldnir í Reykjavík. Katrín er á Facebook og YouTube undir @IntroducingKat:
Facebook.com/IntroducingKat
youtube.com/IntroducingKat

„Þetta hefur verið alveg vonum framar,“ segir Katrín Ýr, þegar hún er spurð hvernig ábreiðu hennar af laginu Húsavík hafi verið tekið. „Ég bjóst við að fá kannski 2.000 áhorf, en það tókst á 12 tímum. Þetta er komið í 10.000 áhorf núna og videóið er bara búið að vera uppi í rúmlega tvo daga. Ég er búin að fá fullt af yndislegum kommentum frá fólki allstaðar að úr heiminum og falleg skilaboð á samfélagsmiðlum. Maður roðnar bara við að lesa þetta allt.“

Katrín horfði á myndina með kærastanum og segist hafa kolfallið fyrir laginu um leið og hún heyrði það. „Ég féll strax fyrir því. Laglínan er svo flott og textinn fallegur. Lögin í myndinni eru fín. Þau eru kannski ekki öll sérstöku í uppáhaldi, en Demi Lovato lagið er flott, segir hún og vísar þar í lagið In the Mirror sem söngkonan heimsfræga syngur af mikilli innlifun.  Svo gat ég ekki losnað við Ja Ja Ding Dong úr höfðinu í marga daga á eftir,“ bætir hún við og hlær.
Lagið hljóðritaði Katrín Ýr heima í stofu hjá sér og fékk góðvin sinn Loucas Hajiantoni til að taka upp píanóundirspil við lagið, og annan vin sinn Jon Ray til að hljóðblanda lagið. Myndbandið við lagið tók hún svo líka upp í stofu, fékk að nota myndefni af Íslandi úr smiðju frænku sinnar Láru Stefánsdóttur og plataði kærasta sinn Ed Broad til að klippa myndbandið.

„Ég er búin að fá fullt af yndislegum kommentum frá fólki allstaðar að úr heiminum og falleg skilaboð á samfélagsmiðlum. Maður roðnar bara við að lesa þetta allt.“

En hvað varð til þess að hún tók sig til og gerði ábreiðu af Húsavík? „Svarið við því er nú bara einfalt. Þegar ég var að horfa á myndina fattaði ég fyrst ekki að persóna Rachel McAdams væri að syngja að hluta til á íslensku. Ekki fyrr en ein persónan í myndinni segir: ‘Wow, she’s singing in Icelandic’. Þá þurfti ég að hlusta á lagið nokkrum sinnum og gúgglaði textann til að skilja hvað hún er að syngja. Svo heyrði ég að fleiri Íslendingar ættu í erfiðleikum með að skilja hana. Þannig að mig langaði til þess að syngja lagið til þess að fólk fengi að heyra hvernig ætti raunverulega að bera íslenku orðin fram. Fyrir utan það þá saknaði ég þess bara heilmikið að syngja fyrir fólk þar sem ég bý í vestur hluta London og vinn í fullu starfi sem tónlistarkona og hef ekki mátt koma fram undanfarnar vikur og mánuði vegna fjöldatakmarkana sem eru í gildi. Þetta er svona mín leið til að geta gert það.“

Erlendis hefur verið haft orð á því að myndin sé móðgun við bæði Íslendinga og Eurovision-keppnina, en Katrín Ýr segist nú alls ekki hafa orðið vör við að fólki í kringum hana finnist það. Þvert á móti. „Nei, ég hef ekki heyrt það. Ég skil nú svo sem alveg að fólk gæti haldið það. En þetta er grínmynd og maður verður bara að taka myndinni þannig. Ef eitthvað er hefur þessi mynd vakið enn meiri athygli á Íslandi og Eurovisionkeppninni, sem mér finnst nú bara jákvætt,“ svarar hún enda segist hún sjálf vera mikill Eurovision-aðdáandi. „Já, ég er algjör aðdáandi! Ég horfi á keppnina á hverju ári og hef gert síðan ég var barn og ég var meira að segja í dómnefnd eitt árið,“ segir hún og játar að hana dreymi um að fá að taka þátt í keppninni. „Já, og ég hef góða trú á því að það verði að raunveruleika einn daginn.“

Í ljósi vinsælda Húsvíkur-ábreiðunnar er ekki úr vegi að spyrja hvort söngkonan ætli sér að taka fleiri lög úr myndinni upp á sína arma. „Það er spurning. Það eru margir sem vilja endilega heyra Ja ja Ding Dong. En mér finnst In the Mirror með Demi Lovato mjög flott lag. Spurning hvort að það komi næst. Annars var spurði einhver hvort ég ætlaði ekki að semja íslenskan texta við Húsavík. Það væri líka gaman,“ segir hún glaðlega.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -