Ólafur Darri Ólafsson leikari viðurkennir að hann sé fordekraður, feitur og frægur miðaldra karl sem geti grátið yfir BYKO-auglýsingum. Hann segist þola illa frekju og hroka og vill halda í sakleysið í sjálfum sér.
Í viðtali við Mannlíf ræðir hann sveiflurnar á leikaraferlinum, meðal annars prufu fyrir stórmyndina Hobbitann þar sem hann segist hafa gert upp á bak. Í gær kom út Netflix-kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga þar sem Ólafur Darri leikur á móti kvikmyndastjörnunum Will Ferrell og Rachel McAdams. Leikarinn segir það auðvitað kitla að tugir ef ekki hundruð milljóna áhorfenda víða um heim horfi á hann leika. Og ef honum finnst hann þurfa klapp á bakið fari hann á Heathrow-flugvöll í Lundúnum.
„Ég á mjög erfitt með freka miðaldra karla enda er ég einn af þeim.“
Frekir karlar
Beðinn um að lýsa sjálfum sér segir Ólafur Darri það ekki flókið mál. „Ég myndi lýsa mér sem stórum, feitum miðaldra karlmanni. Sem nær stundum að fá fólkið sitt til að hlæja. Og ekki bara alltaf að sér, líka stundum með sér. Mér finnst aðeins of gaman í vinnunni og ég vil hafa álag. Geðslag mitt er yfirleitt ágætt en þessa dagana á ég í mestu vandræðum með mitt eigið kyn. Ég á mjög erfitt með freka miðaldra karla enda er ég einn af þeim,“ segir Ólafur Darri. „Okkur finnst svolítið mikið eins og allir eigi bara að stoppa og hlusta þegar við byrjum að tala. Það er best að byrja á sjálfum sér svo ég er að reyna að vera minni frekja og meiri manneskja. Mér finnst að við miðaldra karlar eigum að taka okkur allir saman og hætta að vera svona frekir.“
Getur alveg farið í megrun
„Hér áður fyrr þurfti fólk að hrista allt af sér, það mátti ekki sýna viðkvæmni heldur bara styrk. Vonandi er þessi tími liðinn. Ég vil reyna að vera eins lítill og brothættur og ég get því ég vil innbyrða allt tilfinningamynstrið sem lífið býður upp á. Ég get lítið breytt útliti mínu, jú ég gæti svo sem farið í megrun eða eitthvað en ég verð alltaf það stór að ég rek mig utan í hluti,“ bætir Ólafur Darri við.
„Ég er sáttur við mig. Ég er stór og feitur og mér finnst það bara allt í lagi. Við eigum líka að vera alls konar. Mér hefur sjaldan verið strítt vegna vaxtarlagsins. Ég er alveg með munninn fyrir neðan nefið og þannig náði ég líka að snúa upp á fólk áður fyrr til að koma í veg fyrir stríðnina.
Ég gleymi því aldrei sem Guðrún Ásmundsdóttir leikkona sagði: „Það er svo gaman að sjá stóra menn létta á sviði.“
Grætur yfir auglýsingum
Um leið og Ólafur Darri lýsir sér sem stórum og miklum manni segist hann samt svo brothættur á sama tíma. Að geta grátið, beðist afsökunar og verið auðmjúkur finnst honum merki um styrk. „Eiginlega hreyki ég mig af því að gráta yfir bíómyndum og undir ákveðnum kringumstæðum þá get ég grátið yfir BYKO-auglýsingunum. Ég held til dæmis að ýmsir aðilar mættu treysta okkur, samborgurum sínum, fyrir mistökum sínum. Við erum, jú öll, alltaf að gera mistök og ég er ekki undanskilinn því,“ segir hann.
„Það að eitthvað heppnist ekki eins og til stóð verður oft til þess að hlutirnir verði miklu meira spennandi og safaríkari. Mistök eru hluti af lífinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr og það er eins gott að gera það besta úr þeim.“
Lestu viðtal við Ólaf Darra í Mannlíf.