Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Ágústa Sverrisdóttir: „Óskar er með ólæknandi krabbamein – Þetta er búið að dreifa sér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hann er með ólæknandi krabbamein. Við fengum að vita það í lok september.“

Þögn

„Þetta er búið að dreifa sér.“

Þetta segir Ágústa Sverrisdóttir en eiginmaður hennar, Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson, sem er 39 ára, greindist með ristilkrabbamein 7. desember í fyrra. Á morgun verður akkúrat eitt ár liðið.

„Desembermánuður í fyrra fór svolítið í óvissu af því að það eru allir þessir rauðu dagar í desember, frí hjá læknum og svona. Á Þorláksmessu fór hann í segulómun þar sem lifrin var skoðuð betur. Okkur var sagt að taka því rólega um jólin en það var erfitt. Við vorum í mikilli óvissu sem er ekki alveg það besta yfir hátíðarnar. 4. janúar fengum við svo að vita að það sem hafði áður sést á tölvusneiðmynd reyndist vera krabbamein sem dreifst hafði í lifrina.“ Óskar byrjaði í geislameðferð í lok janúar og segir Ágústa að hann hafi farið 25 sinnum í geisla. Svo tóku lyfjameðferðir við og fór hann á þriggja vikna fresti í lyfjagjafir. Þá voru það myndatökur inn á milli.

4. janúar fengum við svo að vita að það sem hafði áður sést á tölvusneiðmynd reyndist vera krabbamein sem dreifst hafði í lifrina

Í júní fór hann í aðgerð þar sem hluti af lifrinni var tekinn og segir Ágústa að það hafi verið stærri partur af lifrinni en haldið var í fyrstu. „Sú aðgerð gekk vel og var talað um að Óskar þyrfti að bíða í fimm vikur til að jafna sig áður en hann gæti farið í aðra aðgerð þar sem taka átti æxlið í ristlinum. Svo var sumarfrí hjá skurðlæknum og við fjölskyldan fórum vestur á firði og vorum hjá foreldrum hans í góðu yfirlæti,“ segir Ágústa en Óskar er frá Suðureyri í Súgandafirði. Hjónin hafa búið á Eyrarbakka síðan árið 2014.

- Auglýsing -

„Í lok ágúst hné Óskar niður inni á baðherberginu og kom ég að honum meðvitundarlausum. Hann var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík og kom í ljós að hann var með stóra blóðtappa í báðum lungum. Það var tekin ákvörðun á staðnum þegar við vorum á slysó að gerð væri þræðing og var farið í gegnum nárann og náð handvirkt í stærstu tappana og svo áttu blóðþynningarlyf að vinna á restinni. Ég sat á meðan í herbergi fyrir aðstandendur og var farin að skipuleggja jarðarförina í huganum. Ég vissi ekkert hvernig þetta gengi og var búið að segja við mig að það gæti komið blæðing hvar sem er í líkamanum og þess vegna í heilanum og þá fór maður að hugsa um verstu mögulegu útkomu.“

Hann var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík og kom í ljós að hann var með stóra blóðtappa í báðum lungum

Aðgerðin gekk vel og fékk Ágústa að hitta manninn sinn á gjörgæsludeild þar sem hann lá í tvo daga. Hann var síðan færður á lungnadeild þar sem hann lá í átta daga og má geta þess að á þeim tíma kom upp Covid-smit á deildinni en hann smitaðist þó ekki.

Hjónin gerðu svo ráð fyrir að Óskar færi í aðgerðina á ristlinum þremur mánuðum eftir blóðtappann. Ágústa segir að í lok september hafi þeim verið tilkynnt að krabbameinið hefði dreift sér í eitla nálægt nýrum. Einn þeirra væri of nálægt stórri slagæð til að hægt væri að skera þetta í burtu.

- Auglýsing -

„Læknirinn sagði að aðgerðin á ristlinum væri hættuleg og af því að þeir gætu ekki tekið allt vildu þeir ekki framkvæma aðgerðina og töldu sig ekki vera að gera Óskari neinn greiða með að framkvæma hana. Það væri líka mikil hætta á að hann fengi blóðtappa aftur. Þá var það úr sögunni. Þetta var þvílík blaut tuska í andlitið. Maður veit ekki hvað maður á að gera við svona upplýsingar. Við töluðum nokkrum dögum síðar við krabbameinslyfjalækninn sem útskýrði þetta betur fyrir okkur og sagði að fólk í þessari stöðu gæti alveg átt gott líf en það væri ekki hægt að segja til um neinn tíma sem eftir væri.“

Óskar fór á líknandi meðferð og fær lyfjagjöf á tveggja vikna fresti. „Lyfin hægja á krabbameinsfrumunum og halda þessu í skefjum. Hversu lengi er svo persónubundið en það verður aldrei hægt að lækna hann og ekki skera þetta í burtu.“

Óskar fór á líknandi meðferð og fær lyfjagjöf á tveggja vikna fresti

Ágústa Sverrisdóttir

Áfallastreituröskun

Ágústa segist lengi hafa verið kvíðamanneskja en að kvíðinn hafi aukist eftir að Óskar greindist með krabbameinið og að hún sé búin að glíma við áfallastreituröskun eftir að hún fann hann meðvitundarlausan á baðherbergisgólfinu vegna blóðtappanna.

„Þetta er búinn að vera rosalegur tilfinningarússíbani. Þetta er allt búið að reyna á. Stundum átta ég mig ekki á því hvernig mér líður en á sama tíma er ég að leita mér hjálpar. Við fáum aðstoð hjá Ljósinu og Krafti þar sem við höfum talað við gott fagfólk sem þar starfar. Þjónustan sem við sækjum er ekki bara tengd Óskari. Við höfum bæði sótt þar viðtöl – þá helst í gegnum fjarfundabúnað. Það er stundum eins og ég fyllist miklum krafti og eins og ég fái eitthvað „boozt” sem ýtir mér áfram þegar ég þarf að redda og gera.“

Stundum átta ég mig ekki á því hvernig mér líður en á sama tíma er ég að leita mér hjálpar

Ágústa segir að hún hafi áður fyrr verið feimin en að þessi reynsla hafi kennt sér að þora. „Maður þarf líka að vera ákveðinn og tala við starfsfólk ýmissa stofnana eins og sjúkrahúsa og ég þarf að hringja og fylgja eftir hlutum. Ég er farin að vera svolítið meira á hnefanum.“ Hjónin eiga fjögurra ára gamlan son og segir Ágústa að hann taki eftir að foreldrum hans líði öðruvísi en áður og að pabbi hans finnur oft til auk þess sem hann er búinn að vera mikið á sjúkrahúsi. „Við getum ekki útskýrt þetta fyrir honum nema upp að vissu marki og fáum við hjálp við það frá fagfólki hvernig best sé að útskýra þetta fyrir honum en við eigum ekki að halda þessu leyndu fyrir honum. Börn skilja og skynja miklu meira en maður heldur. Þetta mun alltaf hafa áhrif á son okkar sama hversu mörg ár hann á með pabba sínum. Það þarf ekki að gera merkilega hluti til að búa til minningar.“

Ágústa Sverridsóttir

Sonur þeirra hefur spurt að ýmsu sem tengist veikindunum. „Hann spurði pabba sinn um daginn hvort hann hafi dottið út af því að hann hefði verið með Covid. Það er svo mikið verið að tala um Covid í þjóðfélaginu, eðlilega.“

Hann spurði pabba sinn um daginn hvort hann hafi dottið út af því að hann hefði verið með Covid

Ágústa og Óskar giftu sig 21. desember í fyrra. „Við höfðum talað um það áður að gifta okkur en við gerðum það svo í flýti; við ákváðum það þá um morguninn. 21. desember er afmælidagur mömmu og ég hringdi í hana og spurði hvort hún vildi koma austur og verða vottur fyrir okkur. Það skiptir máli að hafa þessa hluti í lagi pappírslega séð til að vera með allt á hreinu ef illa færi. Á þessum tímapunkti vissum við ekki mikið um stöðu sjúkdómsins. Við getum haldið brúðkaupsveislu seinna en það þarf ekkert endilega að halda veislu. Við fengum okkur pítsu um kvöldið á veitingastað.“

 

Óskar hafði í mörg ár unnið sem öryggisvörður hjá Securitas og segir Ágústa að hann hafi nokkrum mánuðum áður en hann greindist verið sagt upp vegna skipulagsbreytinga og var hann atvinnulaus þegar hann greindist. Ágústa vinnur hálfan daginn á leikskóla á Stokkseyri. „Ég er búin að vera mikið frá vinnu vegna sjúkraleyfis. Ég er byrjuð að mæta aðeins meira en ég næ ekkert að sofa mikið á nóttunni. Að minnsta kosti ekki neinn gæðasvefn. Ég hef oft fengið martraðir eftir að Óskar greindist. Ég er endalaust þreytt.“

Ágústa Sverrisdóttir

Nágranni hjónanna stakk upp á að hafin yrði söfnun vegna þeirra og geta þeir sem vilja styrkja hjónin á þessum erfiðu tímum lagt þeim þannig lið.

Kt.: 190688 2089

Reikningsnúmer: 0325 26 203

Ágústa Sverrisdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -