Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Alexandra vissi mjög ung að hún vildi vera stelpa: „Mér fannst ég vera að ljúga að kærustum mínum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tilkynnt var í dag að Alexandra Briem muni taka að sér hlutverk forseta borgarstjórnar Reykjavíkur í næstu viku. Alexandra hefur verið varaborgarfulltrúi Pírata í þrjú ár. Hún segir að með því að fara í þetta starf sé verið að sýna að í Reykjavíkurborg geti transkona verið forseti borgarstjórnar og geti það skipti máli úti í hinum stóra heimi þar sem transfólk, og þá sérstaklega transkonur, búa sums staðar við ofbeldi.

Alexandra Briem hefur síðastliðin þrjú ár verið varaborgarfulltrúi Pírata og var tilkynnt í dag að hún muni taka að sér hlutverk forseta borgarstjórnar Reykjavíkur.

 

„Það er svolítið stórt skref að fara í einu stökki úr því að vera varaborgarfulltrúi yfir í að vera forseti,“ segir hún. „Ég hef gert mér far um að vera í húsi; fylgjast með öllum borgarstjórnarfundum og öllu sem er að gerast. Ég hef mætt á alla fundi fyrir utan nokkra sem ég hef misst af en þá var ég veik eða á sjúkrahúsi í kynleiðréttingarferli.“

 

Alexandra segir að þegar hún tekur við muni hún reyna að ná meiri böndum á umræðuhefðina ef hún getur og bætir við að það sé auðvitað alltaf svolítið erfitt.

- Auglýsing -

 

„Kjörnir fulltrúar eru náttúrlega kjörnir af almenningi og hafa mikið umboð og frelsi þannig að það er erfitt að hamla því mikið. Eitt sem fer mikið í taugarnar á mér er þegar kjörnir fulltrúar eru að atast í starfsmönnum eða embættismönnum sem eru ekki í borgarstjórn og hafa ekki sama aðgang að fjölmiðlum og geta ekki kannski varið sig. Ég get alveg skilið þessa hörku í pólitík en mér finnst vera mikilvægt að hún beinist að málefnum, hugmyndafræði og kannski flokkunum en ekki að ákveðnu fólki.

Ég vil líka halda áfram því sem bæði Pawel Bartoszek og Dóra Björt hafa unnið að. Það gerðist í tíð Dóru að Píratar samþykktu að hafa fulltrúa minnihlutans sem varaforseta og við formfestum líka vissa uppskiptingu á uppröðun mála en fyrir þann tíma hafði það verið þannig að málum minnihlutaflokkanna var kannski frestað endalaust og kannski tekin fyrir í lok fundar. Mér finnst vera valdeflandi að þeir hafi fastan sess í uppröðuninni en þó ég sé alveg ósammála að miklu leyti flokkunum í minnihlutanum þá finnst mér bara vera lýðræðislegt að við hleypum þeim líka að og við reynum að vinna þetta aðeins saman.“

- Auglýsing -

 

Aðspurð um drauma tengda starfinu segir Alexandra að stóri draumur sinn sé fyrsta og fremst að sjá vissa hluti breytast á Íslandi sem hún telji vera réttlætismál.

 

„Margt af því er bara hægt að breyta á Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stærsta málið er ný stjórnarskrá sem mér finnst að við verðum að innleiða og það er í rauninni grátlegt að þetta hafi verið samþykkt árið 2012 og það bólar ekkert á þessu níu árum síðar. Mér finnst það vera réttlætismál að það klárist. Þá finnst mér að það þurfi að breyta úthlutunaraðferðinni á kvóta; ef við fáum réttláta rentu inn til ríkissjóðs af notkun kvóta þá myndi það geta hjálpað okkur að greiða fyrir mjög mikið af félagslegum úrbótum sem væri gott að sjá.“

 

Alexandra gerir ráð fyrir að gefa kost á sér í borgarstjórn á næsta kjörtímabili.

 

„Ég mun örugglega einhvern tímann vilja reyna fyrir mér á þingi. Það veltur á því hvernig Píratar meta störf mín og hvernig gengur í borginni.“

 

Viss skilaboð

Alexandra segir að með því að vera kjörin forseti borgarstjórnar sé verið að senda ákveðin skilaboð.

 

„Ég er ekki upptekin af titlum en ég er meðvituð um hvaða skilaboð er verið að senda. Það er verið að segja að ég njóti viss trausts; að mér sé treyst til þess að vinna þetta erfiða starf og í rauninni oft flókna starf. Þetta er starf sem krefst vissrar vandvirkni og vissra heilinda. Mér finnst það líka vera mikilvægt að verið sé að senda þau skilaboð að í Reykjavíkurborg geti transkona verið forseti borgarstjórnar eins og hver önnur. Ég hef hvorki í þessu meirihlutasamstarfi né innan Pírata nokkurn tímann upplifað að ég sé einhvers konar skraut eða leppur til að sýna hvað þeir séu voðalega framsýnir en það er ekkert verra að senda þau skilaboð að þetta sé eitthvað sem þeir vilji gera.

 

Transfólk er sá hópur á heimsvísu, og þá sérstaklega transkonur, sem lendir í hvað mestu ofbeldi og er mest myrtur miðað við höfðatölu. Þó svo að málin séu í rauninni fín á Íslandi fyrir fólk eins og mig þá eru þau það ekki í heiminum í stóru samhengi. Það eru lönd sem ég get ekki séð fyrir mér að fara til eins og málin standa. Ég bara myndi ekki geta treyst á öryggi mitt þar. Það að senda þessi skilaboð að hér geti transkona verði foresti borgarstjórnar eru mikilvæg í tengslum við önnur lönd.“

 

Alexandra segir að sem transkona sem verði áberandi í samfélaginu þá verði hún að vissu leyti talskona eða fyrirmynd hvort sem henni líkar betur eða verr.

 

„Mér finnst vera ábyrgðarhlutur að gera það vel. Ef ég myndi gera eitthvað sem færi illa í fólk sem borgarfulltrúi eða forseti borgarstjórnar þá myndi það óneitnalega einhvern veginn virka neikvætt á allt transfólk og allt hinsegin fólk, allavega í augum þeirra sem eru á móti okkur. Ég ætla auðvitað að vinna hlutverk mitt eins vel og ég get og þetta er eitthvað sem ég hef alltaf í huga.“

 

Kynleiðréttingarferlið breytti miklu
Alexandra fæddist í karlmannslíkama árið 1983. Hún segist hafa verið fjögurra eða fimm ára þegar hún fór að hugsa um að hún vildi verða stelpa. Hún fór að hugsa meira um þetta þegar hún var 11-12 ára og fór stundum í stelpuföt.

 

„Ég uppgötvaði það snemma að það skipti mig engu sérstöku máli að vera í kjólum, með sítt hár eða með farða en dags daglega er ég í gallabuxum og peysu en ég mun klæða mig upp eftir að ég verð forseti borgarstjórnar.“

 

11-12 ára fór Alexandra að leita á netinu upplýsinga um þessar tilfinningar sínar og hún var 17-18 ára þegar hún gerði sér grein fyrir að hún væri trans. Hún heillaðist af konum og gat á þeim tíma ekki hugsað sér að byrja í kynleiðréttingarferli.

 

„Svo er ég stór og var karlmannleg í útliti og mér fannst að það yrði ótrúlega mikið vesen að fara í kynleiðréttingarferli og ég ákvað að reyna að takast ekki á við þetta. Þetta er sennilega lélegastsa ákvörðun sem ég hef tekið en ég festist í 10-15 ár í einhverju hjólfari, einhverju limbói, þar sem ekkert gekk hjá mér. Ég kláraði ekki skóla og ég var ekki góður starfsmaður og ég meikaði ekki að vera í samböndum af því að mér fannst ég vera að ljúga að kærustum mínum. Í raun og veru fór áratugur í ruslið hjá mér af því að ég var ekki að takast við þetta.“

 

Alexandra fékk ADHD-greiningu í kringum 2015 og fór henni að líða betur eftir að hún fór að taka ADHD-lyf og í kjölfarið fór hún til geðlæknis og eftir það fór boltinn að rúlla. Hún byrjaði í kynleiðréttingarferli; fór að taka kvenhormóna og er búin að fara í nokkrar aðgerðir.

 

Það var mikill léttir að hafa farið í gegnum kynleiðréttingarferlið.

 

„Það að vera tarns og að vera í karlmannslíkama truflaði allt sem ég var að gera. Ég fór áður ekki í líkamsrækt af því að mér fannst ég þá ekki vera að byggja upp líkama sem mér líkaði við. Ég gat ekki deitað konur af því að ég gat ekki sagt þeim að ég væri kona. Ég gat ekki einbeitt mér í skóla. Og ég gat ekki einbeitt mér í vinnu. Núna get ég fókuserað á það sem ég er að gera og einbeitt mér að mínum pólitísku hugsjónum.“

 

Hún segir að hún hafi fyrir kynleiðréttingarferlið haft sjálfstraust en það var frábrugðið sjálfstraustinu í dag.

 

„Ég hef aldrei verið í raunverulegum vandræðum með sjálfstraust en áður fyrr var kannski minni innistæða fyrir því.“

 

Og hún valdi sér nafnið Alexandra.

 

„Mér finnst nafnið vera fallegt, mér finnst það hafa vissan styrk og það er alþjóðlegt. Þegar ég var að spila tölvuleiki, hlutverkaleiki eða Dungeons & Dragons við vini mína og gaf persónum nöfn þá sparaði ég alltaf þetta nafn; ég vildi ekki ofnota það í einhverja vitleysu af því að ég vildi eiga það fyrir sjálfa mig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -