Miðvikudagur 30. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

„Allt sem hann kann í handbolta lærði hann af mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég skal koma í viðtal við Mannlíf en legg til að við göngum á Úlfarsfell og viðtalið fari þar fram,“ svarar Guðni Th. Jóhannesson Mannlífi um viðtal fyrir komandi forsetakosningar.

Þetta skilyrði forsetans var í senn kærkomið og sjálfsagt. Ég hafði tveimur árum fyrr farið þess á leit við forsetann að hann yrði einskonar leynigestur í göngu Fyrsta skrefs Ferðafélags Íslands á fjallið. Það var með hálfum huga að ég bar upp erindið við hann þá daga en forsetinn samþykkti mér til gleði. Guðni fór á kostum á efsta tindi þar sem hann flutti tölu fyrir 70 manna hóp og sagði frá næstum óbærilegri feimni sinni á unglingsárum.

Alzheimer-buffið

Við göngum áfram stíginn í gegnum skóginn, áleiðis á Hákinn. Það rignir dálítið en ekki þó teljandi. Hallur ljósmyndari er himinlifandi með að fá forsetann öðruvísi en uppstilltan í sparifötum með bindi. Því meiri rigning, því betra. Guðni er með Alzheimer-buffið fræga um hálsinn. Mynd Sigurðar Boga blaðamanns af forsetanum með buffið varð fræg. Guðni segir það hafa verið tilviljun að einmitt þetta buff með áletrun þeirra frómu Alzheimersamtaka hafi orðið fyrir valinu þegar hann valdi sér buffið á sínum tíma þar sem hann var viðstaddur vígslu á upplýsingaskilti við Skansinn á Bessastaðanesi, í hvassviðri og kulda.

„Ég greip af hendingu buff sem lá í hrúgu heima og las á það. Alzheimersamtökin, það er gott að styðja þau, hugsaði ég. Ég var heppinn að hafa ekki dottið niður á buff með föllnu bönkunum,“ segir hann og hlær.

Við viljum ólmir sjá hann með buffið í ennishæð. Eftir nokkrar fortölur fellst forsetinn á að setja það upp sem höfuðfat gegn því þó að þetta verði ekki forsíðumynd.

- Auglýsing -

„Hugsaðu þér þau gæði sem við höfum inni í borginni með þennan unaðsreit sem Úlfarsfellið er. Svo er það auðvitað Heiðmörkin og Álftanesið,“ segir Guðni þegar við göngum áfram í gegnum skóginn.

Mynd á forsíðu / Hallur Karlsson

Ástúð og öryggi

Ég spyr um bernsku Guðna. Hann ólst upp með tveim bræðrum, Patreki og Jóhannesi. Foreldrar hans eru Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari við Menntaskólann í Reykjavík og fræðslufulltrúi hjá Íþróttasambandi Íslands, og Margrét Thorlacius barnakennari. Var hann hamingjusamt barn?

- Auglýsing -

„Já, ég naut ástúðar og öryggis. Lífið snerist um skólann þegar hann var í gangi og svo íþróttir og leiki utanhúss. Pabbi var íþróttaþjálfari og fór meðal annars með frjálsíþróttahóp okkar Íslendinga á Ólympíuleikana í München 1972. Hann var um tíma aðstoðarlandsliðsþjálfari í körfuknattleik hjá Einari Bollasyni og í handboltanum með Jóhanni Inga Gunnarsyni. Við bræðurnir ólumst því upp í heimi íþróttanna.“

Patrekur, yngri bróðir Guðna, varð þjóðþekktur sem landsliðsmaður í handbolta. Var ekkert erfitt fyrir Guðna að standa í skugga litla bróður síns?

„Allt sem hann kann í handbolta lærði hann af mér,“ segir Guðni og skellihlær.

Guðni stundaði handbolta af kappi sem unglingur og stefndi langt í þeirri íþrótt.

„Þegar ég var á aldrinum 16 til 17 ára og Patti 12 ára gerði ég mér grein fyrir að hann var orðinn betri en ég í handbolta. Þá sá ég að það væri meira vit í að snúa mér að einhverju öðru. Ég get samt sagt með réttu að það varð mér sem táningi mikið áfall þegar ég áttaði mig á því að ég yrði aldrei landsliðsmaður í handbolta. Þetta er eitt af því sem ég hef hugleitt í embætti mínu sem forseti að við verðum að finna rétt jafnvægi í lífinu. Við viljum fá ungmenni til að hreyfa sig og hafa þau í skipulögðu æskulýðs- og íþróttastarfi en við getum ekki eingöngu búið til afreksfólk. Hvað verður um fjöldann er það sem við þurfum að huga að. Íþróttafélögin verða að huga ögn meira að því að láta alla njóta sín í íþróttastarfi á eigin forsendum. Auðvitað viljum við hlúa að þeim sem skara fram úr en við sjáum of mikið brottfall unglinga, 15 til 16 ára. Þá verða skilin svo skörp milli þeirra sem ná lengst og hinna sem sjá að það er ekki þeirra braut. Það þarf að finna þeim farveg. Þar að auki er nú alls ekki alltaf augljóst hverjir munu í raun skara fram úr þegar á reynir.“

Lestu viðtalið við Guðna í Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -