Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Ásta hefur leitað að blóðföður sínum í 20 ár: „Mamma mín var dularfull kona”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég býð með opin arminn,“ segir Ásta Kristín Guðrúnar- og Pálsdóttir, hljóðtæknir og listakona, sem leitar að blóðföður sínum. ,,Mamma dó úr krabbameini aðeins þrítug að aldri og núna, þegar ég er orðin 34 ára gömul sjálf, hef ég verið að átta mig á hversu óskaplega ung hún var í raun.“

Hér má sjá færslu Ástu:

„Halló kæru vinir, vandamenn, ættingjar og hver sem nennir að deila þessu á vegginn sinn á Facebook, fyrirfram þökk fyrir hjálpina.

Ég fæddist í Reykjavík árið 1987, og ólst þar upp, og bý þar enn. Ég ólst upp hjá góðri fjölskyldu og á frábæran föður. Mamma mín dó árið 1991 og ég komst að því á fullorðinsárum að ég ætti annan líffræðilegan föður. Ég veit hinsvegar ekki hver það er og hef engar upplýsingar, en mig myndi langa til að reyna að finna hann.
Móðir mín hét Guðrún Margrét Þorbergsdóttir, bjó í Reykjavík, og var mikið í dansi og vann meðal annars á Prikinu og Orkustofnun.
Ef einhver telur sig geta hjálpað mér með þetta eða vill aðstoða mig má vinsamlegast hafa samband við mig á facebook.
Bestu kveðjur, Ásta“
Fjölskyldan er klettur

Ásta Kristín var aðeins fjögurra ára gömul þegar móðir hennar féll frá en segist muna eftir veikindaferlinu og fráfallinu. „Þetta var ekki eins erfitt og margir hefðu kannski getað haldið. En átti svo gott fólk að. Pabbi og öll stórfjölskyldan stóðu eins og klettur saman í gegnum þetta. Og gera enn.“

Það er augljóst að Ásta Kristín elskar föður sinn heitt, burtséð frá því að í ljós hafi komið að hann sé ekki blóðfaðir hennar. „Ég ólst upp hjá honum ásamt bróður mínum sem er fjórum árum eldri en ég. Öll þessi lífsreynsla sem við höfum farið í gegnum saman hefur gert okkur enn nánari, hann hefur alltaf stutt mig og verið til staðar. Ég hefði ekki getað átt betri föður.“

Byrjaði allt í líffræðitíma

- Auglýsing -

Saga Ástu Kristínar hefst fyrir tuttugu árum síðan, nánar tiltekið í líffræðitíma. „Við vorum að læra um blóðflokkana og áttum að skrá niður blóðflokka okkar og foreldra okkar. Þegar ég fór að spyrjast fyrir var strax augljóst að eitthvað var ekki að ganga upp. Blóðflokkarnir pössuðu ekki. Þá byrjaði ég að hugsa málið betur og fá hugmyndir. Ég leit líka svolítið öðruvísi út en hinir í fjölskyldunni. Það snerist allt á hvolf og þetta fór að sækja á mig.”

Ásta Kristín velti málinu fyrir sér án þess að grípa til aðgerða í tæpan áratug. „Þegar ég var 24 ára gömul fannst mér tímabært að lifa í sannleikanum og komast að þessu í eitt skipti fyrir öll. Fá málin á hreint og upp á borð. Ég vildi samt ekki gera þetta án stuðnings og samþykkis pabba, sem fannst reyndar hugmyndin fáránleg fyrst. Við fórum síðan í DNA próf sem staðfesti grun minn.”

Niðurstöðurnar komu Ástu ekki á óvart en voru henni erfiðar. „Ég fann til sömu tilfinninga og þegar ég uppgötvaði þetta með blóðflokkana þegar ég var krakki. Ég sá í andartak fyrir mér eittthvað svona Oliver Twist munaðarleysingjadæmi en ekkert breyttist. Maður missir ekki ástvini sína út frá einhverju svona.”

- Auglýsing -

Mamma var dularfull

Ásta er þess fullviss að föður hennar hafi verið brugðið. „Ég er þess fullviss að hann grunaði þetta aldrei. En hann er bara svo sterkur karakter, svo fullur af kærleika og veljvilja, að samband okkar hefur styrkst enn meira í þeirri vitneskju hvað við elskum hvort annað mikið og erum góðir vinir. Hann er aðalgæinn í að hjálpa mér í leit minn. Ég geri mér vel grein fyrir að staðan hefði getað verið öðru vísi.“

Og í kjölfarið hófst leit Ástu Kristínar sem hefur nú staðið yfir í áratug. Hún segist hafa mætt miklum skilningi á vegferð sinni. „Ég hef talað við bókstaflega alla, hef grafið upp alla þá sem höfðu einhverja tengingu við mömmu. Ég hef náð að kynnast mömmu vel í þessu ferli mínu. Ég hef komist að því að hún var dul og ekki mikið fyrir að ræða sín mál. Fólk sem var afar náið henni á sínum tíma vissi ekki margt um hennar málefni. Ég fæ ólíkar sögur úr ólíkum áttum. Mamma mín var dularfull kona.”

Pollurinn að tæmast

Aðspurð að því af hverju hún hafi tekið það skrif núna að leita til samfélagsmiðla segir Ásta Kristín að hún sé að verða uppiskroppa með heimildir. ,,Pollurinn er að tæmast. Ég er búin að tala við að ég held flesta sem þekktu mömmu. Ég er líka búin að leita til DNA gagnabanka og keyra þær niðustöður við Íslendingabók, sem er mikil vinna, en án árangurs.

Ásta Kristín segist oft hafa íhugað að fara þessa leið en núna hafi hún fundið öryggið til að taka stökkið.

„Ég vona að einhver þarna úti hafi upplýsingar og hafi samband við mig. Ég vona að eitthvað komi nú í ljós, og myndi taka öllum vel,“ segir Ásta Kristín.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -