„Það sem ekki hefur breyst í gegnum öll þessi ár er að þolendum virðist ekki trúað nema af litlum hópi fólks. Mér verður hreinlega flökurt við að heyra þessa frasa að það sé ,,verið sé að taka menn af lífi” og að fólk sé „saklaust uns sekt er sönnuð,” segir Ásta Knútsdóttir, ráðgjafi hjá Drekaslóð sem hefur í yfir tvo áratugi verið öflugur talsmaður gegn kynferðisofbeldi.
Sumir vilja kalla Ástu fyrsta metoo talsmann Íslands þótt hún sé nú ekki alveg sammála þeirri nafngift. „Það voru auðvitað hugrakkar konur og karlar á undan mér sem veltu hlössum og brutu múra og þar er auðvitað nærtækast að minnast á biskupsmálið. Það er í kringum 1995-96 sem það kom upp í fjölmiðlum og sú sem hafði kjarkinn til að tala fyrir hop þessara kvenna þurfti að flýja land. Við vorum afar nánar vinkonur, hún er því miður látin í dag”.
Hótanir og svívirðingar
Ásta segir að á tíma biskupsmálsins hafið áreitið og ofsóknirnar á hendur þolendum verið með öðru sniði.,,Þá voru engir samfélagsmiðlar, fólk var ekki einu sinni með gsm síma,bara heimasíma og símsvara og þar voru hótanirnar og svívirðangarnar að berast. Aðrir mættu hreinlega heim til hennar”. Hún segir það sama hafa gerst árið 2010 þegar landsþekktur trúarleiðtogi var ásakaður um kynferðisbrot.
Ásta segir að það hafi aldrei verið ætlun sín að feta þessa slóð. „Ég var nýlega byrjuð innan trúfélags þegar forstöðukonan í þeim söfnuði kom til mín og bað mig að hitta þrjár til fjórar konur sem höfðu verið í sálgæslu hjá henni. Sjálf var hún ekki þolandi kynferðisofbeldis og bað mig að hitta þessar konur og veita þeim jafningjastuðning, þolandi til þolanda þar sem ég hafði orðið fyrir kynferðisofbeldi sem barn. Og svo springur þetta út og endaði hópurinn í sjö þolendum sem ég varð stuðningsaðili fyrir. Mig óraði aldrei fyrir hversu stórt og alvarlegt samfélagsvandamál var og er um að ræða”.
Gerendur brugðust eins við
Ásta segir erfitt að lýsa ótta þeirra kvenna sem komu fram undir nafni á þessum tíma. „Sumar þorðu ekki að vera einar heima, það var komið heim til þeirra, það var hangið á hurðinni, bankað, hringt og hótað. Þarna voru 14 ár liðin frá biskupsmálinu og hafði lítið sem ekkert breyst. Það er reyndar merkilegt að bera saman þessi tvö mál því báðir gerendur brugðust eins við. Fyrst var reynt að þagga niður í konunum með hótunum og svo var farin dómstólaleiðin. Í fyrra málinu dró biskupinn sig til baka og hætti málarekstri áður en dómur féll en hinn, trúarleiðtoginn, tók málið alla leið og dró mig, ásamt fleirum, til að mynda fjölmiðlum og öðrum sem fjöllum um málið, fyrir dóm þar sem hann krafðist samtals 15 milljóna króna í miskabætur”.
Svo fór að trúarleiðtoginn fékk aðeins fimm ummæli af 21 dæmd dauð og ómerk og áttu þessi fimm ummæli það sammerkt að hafa nota orðalagið, „gerst sekur um refsiverða háttsemi”. Þarna var um lagatæknilegar forsendur að ræða.
Ásta segir trúarleiðtogann engan sigur hafa unnið, aftur á móti hafi þolendur hans fengið að segja frá sinni reynslu frammi fyrir dómara og í dómsniðurstöðu var tekið fram að frásagnir þeirra væru trúverðugar. ,,Það var kannski stærsti sigurinn. Þær voru búnar að fara kæruleiðina en öll brotin voru fyrnd þannig að það fór engin rannsókn í gang. En þær báru vitni og á þær var hlustað, það var skjalfest og verður svo um ókomna tíð”.
Þekkti tónlistarmaðurinn
Hún vill meina að þessi dómur hafi haft fordæmisgildi. „Ég tala nú ekki um í tengslum vi það sem er að gerast í dag í tengslum við þekktan tónlistarmann sem hefur ákveðið að kæra en ég tel að hann muni ekkert hafa upp úr því. Þetta var reyndar einkamál sem forstöðumaðurinn höfðaði gegn mér og fleirum en sjálfsagt verður það sama að segja um tónlistarmanninn ef hann heldur þessu til streitu”.
Ásta segir að þessi mál hafi öll verið skref í baráttunni, þolendur í dag sætti sig ekki við að í þeim sé þaggað né að þeim sé ógnað. „Breytingin á sem hefur orðið síðastliðin áratug er aðallega sá að þolendurnir eru fyrri til að opna sig sem er gríðarlega jákvætt. Í dag eru stelpurnar að átta sig á því að þær höfðu fullan rétt á að vera fullar á útiskemmtun eða hvar sem er. Það gefur engum leyfi fyrir áreiti eða misnotkun. Þær sætt sig ekki lengur við að á þær sé ekki hlustað. Og það vil ég þakka þeim sporgöngumönnum sem brutu niður múrana smátt og smátt. Þegar ég vann með konunum árið 2010 var til dæmis yngsta brotið 11 ára gamalt. Þarna sé ég mikinn mun”.
„Ég sé að það muni líka gerast í þessu máli tónlistarmannsins, að þessir þolendur, sem ég kýs að trúa, enda trúi ég alltaf þolendum, fái að koma fram fyrir dómara og segja frá sinni reynslu, jafnvel þótt það sé ekki hægt dæma því málin sé annaðhvornt fyrnd eða ekki taldar nægar sannanir”.
Ekki karlar á móti konum
Ásta leggur ríka áherslu að umræðan megi ekki fara í það sem hún kýs að kalla sorglegar skotgrafir karla á móti konum. ,,Þetta snýst einfaldega um þetta samfélagslega mein sem við erum að glíma við, að fólk skuli ekki vera að virða mörk annarra. Það hefur enginn leyfi til að snerta líkama annarra og það má ekki gleyma að konur beita líka gríðarlega miklu og margs konar ofbeldi.
Ég hef velt fyrir mér fram og tilbaka af hverju ofbeldi karla gegn konum sé svona áberandi, af hverju er ekki verið að fjalla um ofbeldi kvenna gegn körlum eða ofbeldi karla gegn körlum? Gæti það verið út af því að konur eru hugrakkari og þora frekar? Eða er það vegna þess að karlar eru sterkari og geta borið byrðarnar lengur? Ég veit það ekki. Eða er það vegna þeirra mýtu í þjóðfélaginu að karlmenn eigi að vera sterkari aðilinn og opinbera ekki tilfinningar sínar?”
Ásta er segir að þótt það sé dýrmætt að æ fleiri karlmenn komi hafi komið fram með sína reynslu á síðustu 10-15 árum, séu of margt óbreytt. ,,Ég veit persónulega til karlmanna sem hafa verið misnotaðir kynferðislega af konum, barðir af konum, ég veit líka um dæmi um að móðir hafi misnotað börn sín. Þetta snýst ekki um kynin. Ég myndi svo gjarnan vilja sjá okkur taka kynin út og tala einfaldlega um ofbeldi, gerendur og þolendur, án kyngreiningar. Ég vann til dæmis á skemmtistaðnu 22 fyrir um 30 árum og samkynhneygðir vinir mínir urðu fyrir gríðarlgu kynferðisofbeldi af hendi kvenna og það hvarflar ekki að mér að það hafi breyst. Þð er bæði furðulegt og sorgleg að það sé meira umburðarlyndi gegn brotum kvenna. Konur grípa í kynfæri karla. Er það í lagi? Nei það er aldrei í lagi”.
Fór í kulnun
Aðspurð hvort henni hafi þótt erfitt að stíga fram og ræða kynferðisbrot opinberlega segir hún svo ekki vera. ,,Ég var knúin af einhverjum innri styrk. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið uppeldi mitt. Ég var alin upp í hafa samkennd með öðrum og rétta hjálparhönd þegar einhver þarfnast hjálpar. Síðan er það trúin mín, ég á sterka trú á Jesú Krist og í þessu máli árið 2010 hafði það mest áhrif að þessi trúarleiðtogi hafði svo mikil völd. Ég var í öðrum söfnuði en þekkti þennan ákveðna söfnuð, bar mikla virðingu fyrir forstöðumanninum og leit upp til hans. En að leiðtogi geti staðið fyrir framan hóp fólks og predikað orð Guðs, verandi með svona verknað á samviskunni. Það var of mikið. Ég hef undir höndum bréf frá aðila sem sagði mér að fyrstu upplýsingarnar um gjörðir hans hafi verið 36 ára gamlar, þá þegar var farið að vara við þessum einstaklingi”.
Hún viðurkennir þó að þetta hafi verið ákaflega erfiður tími, sérstaklega fyrir þolendurnar. ,,Ég var ótrúlega keik, sterk og hugrökk á þessum tíma en eftir því sem tíminn leið fann ég hvað þetta tók stóran toll af mér og hafði mikil áhrif. Tveimur árum eftir að dómurinn féll, árið 2016, var ég komin í kulnunarástand og er með 50% skerta starfsgetu í dag, auðvitað ekki alfarið vegna þessa máls, en það hafði klárlega áhrif.
Ég hafði gengið í gegnum margt en ég held að það hafi verið þessi barátta sem endanlega kláraði mig”.
„Ljót og heimsk“
Ásta segir stóran part af úrvinnslunni að að koma fram og segja sögu sína sem þolandi og það sé mjög misjafnt hvenær fólk komi að þeim tímapunkti. ,,Það sem allir þolendur eiga sammerkt er skömin að hafa lent í þessu, hvort sem það er karl eða kona eða hán. Þolandinn ásakar sjálfan sig fyrir að hafa verið einhvern vegin klæddur, drukkinn eða á vitlausum stað og á vitlausum tíma. Sjálfsmyndin brotnar og oft kemur mikil andúð á manni sjálfum”.
Hún segist hafa upplifað þetta sjálf, fundist hún ljót og heimsk og ekki eiga neitt gott skilið
„Ég hugsa að það hafi tekið mig um 25 ár að vinna úr minni reynslu og er eflaust enn að. Ég hef enga þörf fyrir að kyngreina minn gerenda og búin að aðskilja brotið frá þeim aðila. Ég get hitt viðkomandi án þess að upplifa kveikjur frá ofbeldinu“.
Ásta var 10 ára gömul þegar hún lenti í sínu fyrsta áfalli. ,,Ef viðkomandi hefi ekki verið á unglingsaldri, heldur einhver í valdastöðu eins og prestur eða kennari, ég veit ekki hvernig ég hefði tæklað það. Því dáist ég óskaplega að þeim komum sem bæði eru að stiga fram í dag, konunum mínum árið 2010 svo og í biskupsmálinu, ég dáist að hugrekki þeirra og styrk, að þora gegn svona valdamiklum mönnum.
Það fylgja því mikil völd og tengslanet að vera opinber persóna á Íslandi. Og í hvert skipti sem viðkomandi kemur fram opinberlega rífur það ofan af sári þolanda og það fer að blæða, aftur og aftur”.
Enn langt í land
Ásta bætir við að þegar þolandi sé kominn á veg í úrvinnslunni, þá komi að þeim tímapunkti að hann sé búinn að losna við skömmina, vitandi að að þetta hafi ekki verið á þeirra ábyrgð né þeim að kenna og þá komi baráttuandinn smám saman. ,,Og þá langar suma að takast á við gerandann. Það er aftur á móti mjög mismunandi hvað það tekur fólk langan tíma að ná þangað. Engir tveir þolendur fara á sama hátt í gegnum þetta ferli þótt afleiðingar ofbeldis séu næstum undantekingalaust þær sömu”.
Ásta segir að þótt skref hafi verið tekin í rétta átt sé enn langt í land. ,,Við búum við veikburða réttarkerfi í þessum málum en bara það að fyrningarfrestur í kynferðisbrotamálum gegnum börnum hafi verið afnuminn er stórt skref. Við verðum að horfa á það sem er gott í dag en það sem er aftur á móti svo merkilegt með kynferðisbrot er að það er eins og þau séu tekin út fyrir sviga, það er alltaf meira vafamál í kringum þau. Ef einhver er barinn eða stuningin niður í bæ er ekki talað um ,,meintan” geranda en þannig er það alltaf í kynferðisbrotamálum; „meintir” gerendur og „meintir” þolendur. Þetta er alveg stórmerkilegt. Ég vil taka þetta orð, „meintur” út úr orðabók”.
Ásta segir enn þann dag í dag mjög sársaukafull reynslu að ganga í gegnum kæruferli í réttarkerfinu. Það taki gríðarlega á og margir sem gangi í gegnum það lýsi því sem annars konar ofbeldi. Fólk sé spurt um endalaus smáatriði sem það muni ekki þar sem heilinn eigi einfaldlega til að frjósa við slíkt áfall. „Svo kemur niðurstaðan og málinu þá kannski vísað frá því það eru kannski ekki neinar sannanir, brotið firnt eða málið ekki talið líklegt til sakfellingar. Það er annað áfall. Það er er ekkert skrítið að ungt fólk sem hefur orðið fyrir nauðgunum veigri sé fyrir að fara þessa leið. Ferlið er gríðarlega erfitt”.
Sannleikurinn sigrar að lokum
Ásta segir hótanir vera óbreyttar þótt þær hafi að sumu leyti breyst eftir að samfélagsmiðlar komu fram. „Í máli trúarleiðtogans vissi ég um einstakling sem svaf með barefli undir rúminu. Í dag er það dómstóll götunnar með sínu hatri og heift. Svo er það óttin við að vera dregin fyrir dómstóla, ótti við atvinnumissi, fjárhagsöryggi, líðan fjölskyldu og illt umtal. Það hefur ekkert breyst. En aftur á móti finnst mér fjölmiðlar standa sig vel í dag”.
Hvaða ráð hefur Ásta að gefa eftir allar sína reynslu? „Við þolendur vil ég segja, haldið áfram, standið keik, ekki láta brjóta ykkur niður og fagnið því að fá kærurnar. Farið með sannleikann alla leið. Við þá sem finna sig knúna til að tjá sig opinberlega, sérstaklega á samfélagsmiðlum, segi ég: Ef þið þekkið ekki til málsins. Látið kyrrt liggja, ekki bæta á sársauka þolenda með því að tjá ykkur um sekt eða sakleysi. Sannleikurinn sigrar alltaf að lokum,” segir Ásta Knútsdóttir að lokum.