Mánudagur 25. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Síðustu skilaboð Axels heitins: „Fyrirgefðu mamma, að ég hef ekki verið í meira sambandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Katrín Sjöfn Sveinbjörnsdóttir, móðir Axel Jósefssonar Zarioh, sem fannst sjórekinn í flæðarmáli fjöru á Vopnafirði í apríl síðastliðnum segir fjölskylduna frávita af sorg en staðfesting barst á fæðingardegi unga mannsins. „Við fengum staðfestingu þann 26. maí síðastliðinn, á afmælisdeginum hans,“ segir Katrín Sjöfn. „Axel hefði orðið tvítugur þennan dag.“

Sást síðast kortéri áður en skipið kom

Það var 1. apríl sl. sem lögreglunni barst tilkynning um mannabein í fjörunni á Vopnafirði, en af ummerkjum mátti strax greina að líkamsleifarnar höfðu legið lengi í sjó. Lögreglan á Austurlandi fór í upphafi með rannsókn málsins en kennsl voru borin á unga manninn með töku lífsýnis sem sent var til DNA greiningar í Svíþjóð. Axel, þá átján ára gamall, var í sinni fyrstu sjóferð með fiskiskipinu Erlingur KE-140 í maí í fyrra þegar hann virðist hafa fallið frá skipi á leið til hafnar.

Katrín Sjöfn segir enn of snemmt að segja til um atburðarás, ef sannleikurinn komi þá nokkru sinni að fullu í ljós. „Hann [Axel] sást síðast um kortéri áður en skipið kemur að landi. Eftir það er ekkert vitað.” Hún segir ennfremur óvíst hvort rannsókn verði haldið áfram eða með hvaða hætti.

Axel var við kokkanám í M.K. og stefndi á húsakaup en hann var átján ára gamall þegar hann lést
Biður fyrir því að allir þeir sem týnast megi finnast

Framundan er jarðsetning unga mannsins og segir Katrín stuðning þann og hlýju sem fjölskyldan hefur mætt vera ómetanlegan. „Ég græt en gleðst yfir því að fólk skuli samhryggjast okkur og ég þakka Guði fyrir að vera svo lánsöm að fá að jarða hann elsku Axel okkar, því það er ekki sjálfgefið,” segir móðir unga mannsins og vísar hún þar til orða Bubba Morthens sem söng um stúlkuna sem starir á hafið. „Þegar ég heyri lögin hans Bubba í dag, bið ég fyrir því að þeir sem týnast megi finnast,” segir hún jafnframt.

„Ég bið fyrir því að þeir sem týnast megi finnast,” segir Katrín en ár leið þar til Axel fannst
Axel var í kokkanámi og stefndi fullur bjartsýni á húsakaup

Axel var lífsglaður ungur maður að sögn móður sinnar og horfði fullur bjartsýni til framtíðarinnar. „Hann var í MK þar sem hann var í kokkanámi, en tók sér hlé frá námi til að afla peninga. Hann fór frá Reykjavík með besta vini sínum sem var á þessu skipi í sinn fyrsta túr. Þeir voru búnir að landa á Vopnafirði einu sinni eða tvisvar vegna vélabilunar en þetta var samt svo skrýtið allt saman. Hann talaði við mig á föstudeginum áður en þeir fóru út þessa helgi og svo gerist þetta allt saman svo hratt. Þetta voru hálfgerðir dagróðratúrar og þá fara þeir í tvo daga út, koma svo heim, landa og fara. Ég held að hann hafi þegar verið búinn að fara einu sinni í land.”

Síðustu skilaboðin sendi Axel móður sinni örfáum mínútum fyrir atvikið

Á mánudagsmorgun, skömmu áður en skipið kom að landi, sendi Axel svo síðustu skilaboðin til mömmu sinnar, sem Katrín segir hafa komið henni á óvart en þau mæðgin höfðu ekki notað samskiptamiðla mikið sín á milli til þessa. „Hann hafði þá hringt í mig og beðið mig að færa sér handklæði því þeir ætluðu að fara í sund saman, vinirnir, meðan skipið lægi við bryggju. Fáeinum mínútum áður en hans er saknað sendi hann mér svo Snapchat þar sem hann sagði meðal annars: „Fyrirgefðu mamma, hvað ég hef verið í litlu sambandi við þig”.

- Auglýsing -
Axel ásamt Aðalheiði Láru Jósefsdóttur systur sinni en hann var tveimur árum eldri en hún
Ekki hægt að endurheimta síðustu skilaboðin 

„Við höfum reynt, ég og lögreglan, að endurheimta þessi síðustu skilaboð sem sonur minn sendi mér af samskiptamiðlinum, en án árangurs. Von okkar var sú að geta komið nánari böndum á atburðarásina þennan morgun, með það fyrir augum að skilja hvenær hann féll frá borði en lögreglan segir ekki hægt að endurheimta skilaboðin, þar sem Snapchat eyði upplýsingum jafnóðum og visti ekkert slíkt á sínum vefþjónum.”

Lífsglaður og ungur maður sem stefndi á húsakaup

Allt leit eðlilega út að sögn Katrínar þegar síðustu skilaboð Axels bárust henni og hafði sonur hennar meðal annars sent móður sinni ljósmyndir frá borði þar sem þeir félagar voru að spila póker sín á milli. „Þetta var bara rosa gaman hjá þeim strákunum, en hann hafði verið þarna í átta eða níu daga. Þessi lífsglaði, ungi strákur var að vinna hjá Olís samhliða sínu námi í MK og ætlaði að kaupa sér hús. Hann var fullur bjartsýni og hafði gert flottar framtíðaráætlanir.”

Vinurinn hringdi og spurði hvort strákurinn hefði stungið af 

Það var svo klukkan hálf eitt, þann 18. maí 2020 sl. að besti vinur Axels og klefafélagi um borð hringdi í Katrínu og spurði hvort sonur hennar hefði gefist upp á sjónum og stungið af. „Hann spyr mig í síma hvort sonur minn hafi stungið af frá borði og hvort strákurinn hafi gefist upp á sjómennskunni. Þá hafði hann hvergi sést og enginn rekist á hann. Ég hringdi þá strax og athugaði hvort einhver hefði sótt son minn til bryggju, en svo var ekki.”

- Auglýsing -
Axel ásamt litla bróður sinnum, Sveinbirni Tuma Jósefssyni
Myndavélar um borð allar óvirkar

Atburðarásina segir Katrín vera á huldu og að rannsóknaraðilum þyki furðulegt. „Skipið leggur við bryggju klukkan 08.06 þennan morgun og einn skipsverji sér Axel um borð rétt fyrir klukkan átta. Ég veit í sjálfu sér ekki hvað Axel þá að gera um borð en eftir það er ekkert vitað. Tvær myndavélar voru um borð en í ljós kom síðar að þær voru báðar óvirkar en myndavélar við bryggju frusu tvisvar þennan morgun. Auðvitað átti að hefja leit samstundis og sjálfri þykir mér þetta allt mjög skrýtið.”

Axel var nýliði um borð

Hún segir jafnframt áhyggjur vekja að fimmtán manna áhöfn skuli ekki hafa grennslast fyrir um unga manninn strax. „Sonur minn var nýliði um borð og var að fara í sína fyrstu sjóferð, en þegar ljóst var að Axel var horfinn voru átta klukkustundir liðnar frá því að skipið lagði við bryggju. Hann ætlaði að sækja buxur og vinnufatnað sem hann bað mig að senda sér ásamt handklæði því hann var á leið í sund. Ég sendi honum auðvitað fatnaðinn, en þeir voru ekki í miklu símasambandi um borð þá um helgina. Þess vegan heyrði ég svona lítið frá honum síðustu dagana. Vinur hans var farinn að skimast um eftir honum og aðrir menn voru farnir að leita líka, en skipstjórinn hringdi svo í mig klukkan hálf tvö og greindi mér frá því að Axel væri hvergi að finna.” Í kjölfarið var svo hringt í lögreglu. Þegar leið á leitartímann var svo leitað í öllum flugsamgöngum, bílaleigum og hreint út sagt alls staðar. “Enginn vissi hvort Axel hefði komist frá borði eða hvort hann hefði fallið í sjóinn. Tímaramminn var svo þröngur.”

Katrín ásamt Guðrúnu Láru Sveinbjörnsdóttur, systur sinni og börnum þeirra um jólahátíð
Áleitnar hugsanir eðlilegar 

Katrín segir erfitt að geta líkum að því hvað kunni að hafa valdið sjóslysinu. „Auðvitað hef ég farið ítrekað yfir allt sem vitað er og velt því fyrir mér hvort skipið hafi tekið ranga beygju. Kannski hefði verið hægt að bjarga honum. Þetta er auðvitað hugsun sem hefur ásótt mig undanfarið. En þetta eru bara hugsanir og ég kenni engum um. Ég veit að svo er ekki. Þetta er einfaldlega leiðinlegt mál og hræðilegur missir.”

Varla nokkurri áhöfn bjóðandi

Þegar móðir Axels hafði rætt við lögregluna fór hún svo sjálf um borð til að sækja farangur sonar síns og til að líta á aðstæður með eigin augum. „Sjálf hefði ég ekki getað eytt einni sekúndu þarna og þykir aðstaðan um borð ekki mönnum bjóðandi og það þótti lögreglufulltrúanum sem ég ræddi við, ekki heldur. Þó er aðstaðan um borð með öllu lögleg en þetta þó er gamalt skip sem er hannað fyrir átta manna áhöfn, að mér skilst. Klefinn hans var pínulítill og þeir voru káetufélagar, hann og besti vinur hans. Þetta var eins og lítill fataskápur. Þetta voru þó bara unglingar sem veltu aðstöðunni um borð lítið fyrir sér. Þetta voru bara ungir strákar á sjó sem vildu afla peninga.”

Biðin langa eftir fregnum var hræðileg 

Tólf mánaða þrautatíma lauk svo með símtalinu sem barst Katrínu nú í vor. „Biðin eftir upplýsingum og svörum var hræðileg,” segir hún um þann tíma sem fjölskyldan beið milli vonar og ótta eftir fregnum af Axel. “Ég myndi ekki óska mínum versta óvini að bíða svona milli vonar og ótta,” segir hún. „Hann var ekki með neina reynslu en hann var bara átján ára gamall þegar hann lést. Þetta var hans fyrsti sjótúr.“

Katrín ásamt börnum sínum, Axel og Aðalheiði Láru Jósefsbörnum
Flókið að úrskurða einhvern látinn

En hvert gat Katrín leitað meðan á biðinni stóð og hvar var hjálp að finna? „Ég er svo lánsöm að mamma mín er með manni sem er prestur. Sá maður á frænda sem er lögfræðingur og aðstoðaði mig við þetta mál. Það er ekkert grín þegar manneskja týnist og það er ekki einfalt að úrskurða einhvern látinn hér á Íslandi. Þá þarf að kalla til vitni og sanna með beinum hætti að viðkomandi sé dáinn þrátt fyrir að líkið hafi ekki fundist. Á móti kemur svo að ríkið kallar sjálft til lögmann sem reynir með öllum leiðum að afsanna að andlátið hafi átt sér stað. Þetta stendur einfaldlega í íslenskum lögum. Það er ekki bara hægt að stíga fram og úrskurða einhvern látinn.”

Fá sambærileg mál til á skrá og fordæmin engin

Þó reglugerðir hafi tekið breytingum í samræmi við breytta samfélagsskipan undanfarin ár hafði fjölskyldan þó ekki úrskurðað Axel látinn þegar drengurinn fannst í fjöru nú í apríl. „Lögmaðurinn minn sagði mér að ekki væru til mörg sambærileg mál sem hægt væri að taka mið af og því erfitt að finna fordæmi. Lögreglan sagði það sama við mig, þeir vita í raun ekkert og málið er á allan máta mjög óeðlilegt.”

Vaknaði með slæma tilfinningu þennan morgun 

Katrín segir lögregluna meta málið nær fordæmislaust en þó hafi aldrei kviknað sá grunur að um hættulegt athæfi hafi verið að ræða. „Nei, við erum ekki að tala um saknæmi í þessum efnum, en þó hefur rannsókn ekki enn verið lokið. Sannleikurinn mun jafnvel aldrei koma fram”.

Eins og fram kemur fyrr í viðtalinu, fékk Katrín síðustu skilaboðin frá syni sínum sama morgun og hann hvarf frá borði. „Ég vaknaði með slæma tilfinningu þennan morgun og símtalið síðar þann sama dag var auðvitað mjög erfitt. Ég hafði fengið snapp frá Axel sem virðist hafa verið sent tveimur til þremur mínútum áður en hann hvarf en í skilaboðunum sagði hann einfadlega – „Fyrirgefðu mamma, að ég hef ekki verið í sambandi” en ég fékk aldrei snöpp frá honum, því við töluðum ekki mikið saman á Facebook og Snapchat, þrátt fyrir að samband okkar hafi verið gott að öllu leyti. Kannski var hann með snappið á sér þegar hann lést. Þetta gerðist allt svo hratt”.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -