Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-7.8 C
Reykjavik

Birgir Hólm í fremstu víglínu: „Þeir voru alltaf tilbúnir að láta kaupa fyrir sig litasjónvarp“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það stendur upp úr fraktin hjá mér og eins vinnan á skrifstofu Sjómannafélagsins; ég var þar í 20 ár,“ segir Birgir Hólm Björgvinsson í hlaðvarpi Sjóarans þegar hann er spurður hvað standi upp úr á löngum ferli en Birgir var á sínum tíma stjórnarmaður og fulltrúi í samninganefnd hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur auk þess að hafa verið sjómaður.

Það voru hörð átök.

„Það hafðist ekkert öðruvísi. Það voru bara hreinar línur.“

Það þýddi ekkert mjálm.

„Nei, það þýddi ekkert mjálm.“

Birgir er spurður hvað sé minnisstæðast úr baráttunni.

- Auglýsing -

„Það eru eiginlega slagsmálin,“ segir hann og segir eina sögu af slagsmálum sem tengdust útgerðarmanninum Guðmundi Kristjánssyni sem hafði yfirtekið Útgerðarfélag Akureyringa. „Hann var að fækka á togaranum hjá sér og talaði hvorki við kóng né prest. Við vorum hirtir af lögreglunni.“

Komuð þið að sunnan til að berjast?

„Ég og Jónas Garðarsson komum héðan. Svo var hann á Akureyri hann Konni og Sævar hjá Sjómannasambandinu kom líka.“

Þær voru að sprauta á okkur vatni, kerlingarnar í frystihúsinu.

- Auglýsing -

Og þetta voru bara slagsmál.

„Þær voru að sprauta á okkur vatni, kerlingarnar í frystihúsinu.“

Hvað voruð þið að gera þá?

„Við vorum búnir að setjast á karið; þeir ætluðu að fara að hífa það upp í togarann og við settumst á það svo þeir gátu ekki híft. Svo endaði þetta með að lögreglan kom og hirti okkur.“

Voruð þið settir inn?

„Já, já, það var bara tímabundið. Nokkra klukkutíma. Tvo þrjá tíma.“

Í fangaklefa?

„Já.“

Hvernig leið þér með það?

„Mér leið ekkert illa.“

Hvernig fór málið á endanum?

„Það leystist. Þeir héldu áfram sömu mönnuninni.“

Þannig að þetta endaði vel.

„Já.“

Birgir segir aðra sögu.

„Þegar Guðmundur hjá Nesskip ætlaði að reyna að byrja að manna skipið sitt með Pólverjum þá mættum við í Hafnarfjörðinn þegar hann kom og spottanum var hent í sjóinn; hann sagði allri áhöfninni upp eða öllum hásetunum og spottanum var hent aftur í sjóinn þegar kastlínan kom frá bryggju. Svo sat ég með Guðmundi í Nesskip alla nóttina í jeppanum og talaði við hann. Það var gott að tala við Guðmund. Hann hafði nefnilega vit á þessu. Hann vissi alveg hvað hann var að gera. Þetta var enginn háskólamaður eða fræðingur. Hann hafði mjög mikið vit á fraktskipum og annað í kringum það. Og það fór svoleiðis að það voru Íslendingar áfram um borð. Það hefði ekki skeð nema með þessu. Með látum.“

Ég þótti ekkert voðalega kúltíveraður.

Birgir er spurður hvort hann hafi einhvern tímann orðið fyrir hnjaski í baráttunni.

„Nei.“

Og aldrei ráðist á þig?

„Nei. Smotterí bara.“

Birgir er spurður hvort hann hafi verið svona ósvífinn.

„Ég þótti ekkert voðalega kúltíveraður.“

 

Verkalýðsbaráttan hálfléleg

Birgir er spurður hvort þessi barátta hafi skipt sköpum.

„Mér finnst það. Mér finnst hún svo aumingjaleg í dag að ég á ekki orð yfir því. Núna til dæmis eru fraktsjómennirnir komnir á mjög góð laun. Það hefði aldrei náðst nema af því að við gátum stoppað skip af. Það næst ekkert með því að mjálma svona á móti einhverjum hagfræðingum og lögfræðingum. Það er alveg útilokað. Það er alltaf reynt að teygja lopann og bara tala saman.“

Það er bara harkan sem gildir; samningar fiskimanna eru nú ekkert á góðum stað.

„Nei, nei, það er nú eitt. Ég held ég hafi nú skýringuna á því af hverju það er; þeir eru bara á svo djöfull góðum launum þessir á togurunum. Þetta eru góð laun sem þessir strákar hafa og þeir eru ekki tilbúnir að fara í slag.“

Þeir vilja ekki slást?

„Nei, ég held að það sé svo. Annars get ég ekki fullyrt það. Þetta eru menn sem eru kannski með 18-20 milljónir á ári fyrir hálft árið.“

Þeim líður bara vel.

„Þeim líður bara svo vel og þetta eru orðin fín og flott skip.“

Ég er ekki kommi en mér líst langbest á Sólveigu hjá Eflingu.

Svo eru verri skip. Þeir vilja kannski berjast.

„Já, það er eins og það sé. Mér finnst eins og hún sé orðin hálfléleg þessi varkalýðsbarátta. Ég er ekki kommi en mér líst langbest á Sólveigu hjá Eflingu. Þeir eru skíthræddir við hana.“

Þú ert ánægður með hana.

„Já.“

 

Einn á móti mörgum

Birgir er spurður hvort hann hafi farið sáttur frá Sjómannafélaginu á sínum tíma.

„Nei.“

Varstu hrakinn út?

„Ég vil helst ekkert ræða það.“

Hann var mjög áberandi í baráttunni og grjótharður. Var þarna í forystusveit.

„Já, ég var þarna lengi og það tók mig 10 ár að koma okkur út úr Alþýðusambandinu.“

Hann er spurður hvers vegna hann hafi ekki viljað vera þar.

„Þetta er bara skriffinnska. Ég fór einu sinni á ASÍ-þing og fór þá upp í ræðupúlt; ég er ekki mikið fyrir að gera svoleiðis og kann ekki mikið fyrir mér í því. En þegar Ásmundur Stefánsson hagfræðingur tók við ÁSÍ þá byrjaði þessu öllu að hraka.“

Hann var hagfræðingur og vann sig upp í það að verða forseti.

„Já, og þegar hagfræðingur situr hérna megin og hagfræðingur hinum megin við borðið frá atvinnurekendum og lærðu í sama bekk. Þá eru þeir með sömu fræði.“

Þá kemur sami grauturinn.

„Já, þá kemur sami grauturinn. Þá fannst mér allt byrja að fara niður á við.“

Þetta er skrýtið. Maður hefði haldið að forseti ASÍ yrði að koma úr grasrótinni.

„Já, maður hefði haldið það.“

Birgir segist vera frekar vinstrisinnaður.

„Núna kýs ég manninn, ekki flokk, ef mér líst vel á einhvern.“

Ég var með opinn kjaftinn alltaf þegar ég gat.

Hann fór í pólitík á tímabili.

„Já, Sverrir Hermannsson hringdi í mig af því að ég var á móti kvótanum þegar það kom á. Sverrir hringdi í mig; ég veit ekkert af hverju. Ég var með opinn kjaftinn alltaf þegar ég gat. Hann spurði hvort ég vildi koma með honum í þetta.“ Og Birgir segist einhvern tímann hafa verið í þriðja sæti í Reykjavík. „Svo komu tveir menn inn í flokkinn og þá labbaði ég bara út.“

Hann segir að skoðanir þeirra hafi verið svo fjarri sínum.

Og Birgir hætti í pólitík.

„Ég hef aldrei haft neinn áhuga á að vera í pólitík svoleiðis. Ég er bara með mínar pólitísku skoðanir. Ég stend oft í stappi í þeim. Einn á móti mörgum.“

 

Þá var smyglað

Birgir Hólm Björgvinsson segist hafa verið polli þegar hann fór á sjóinn.

„Ég hef líklega verið 13 til 14 ára þegar ég byrjaði á Esjunni gömlu,“ segir hann en Esjan var strandferðaskip.

„Ég var þá settur í vél; frændi minn var vélstjóri og það vantaði einhvern og ég var ráðinn þar um borð. Það voru bara afleysingar og ég fór nokkra túra. Þá var ég kallaður „Pusi svarti“ af því að ég var svo skítugur. Þeir tróðu mér alls staðar á bak við.“

Þú varst notaður í að þrífa þar sem var erfitt að komast að.

„Já.“

Léttadrengur á Esjunni. Svo háseti og síðar bátsmaður.

Birgir vann hjá Eimskip í um 25 ár og var í millilandasiglingum.

Smyglaðir þú?

„Það var ekkert annað að gera.“

Menn sögðu að þetta hefði verið helmingurinn af laununum.

„Það var meira en það. Menn gátu ekkert lesið þessi tollalög. Það var svo smátt letur.“

Það var bara smotterí. Það var bara heimilisbrúk.

En þú hefur alltaf sloppið í gegn.

„Nei, nei.“

Varstu tekinn?

„Já, það var voða lítið. Það var bara smotterí. Það var bara heimilisbrúk,“ segir Birgir og bætir svo við að hann og skipsfélagar hans hafi lent í sjónvarpssmyglinu á Dettifossi þegar litasjónvörpin komu.

„Þá ætluðu allir að taka eitt tæki. Við vorum 22 í áhöfn. Við ætluðum að taka 11 tæki fyrri túrinn og svo aftur 11 næsta túr. Bara í fyrsta túrnum kjaftaði einhver frá. Það er alltaf svoleiðis. Ég var ekki með og þá fengu þeir að fljúga sem áttu tækin. Þeir voru reknir. Einn, fyrsti stýrimaður, sat í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur út af einu sjónvarpstæki. Hann rétti þeim miða upp á hvað þeir skulduðu honum fyrir að halda honum inni. Hann var hörku nagli.“

Hvað voru þeir að kreista fram?

„Hverjir áttu hin tækin.“

Hann sagði ekkert frá því?

„Nei.“

Hvaða afleiðingar hafði þetta fyrir menn?

„Það voru flest allir ráðnir aftur.“

Stýrimaðurinn fór þó ekki aftur um borð.

„Það var oft mikið fjör í kringum þetta. Það væri alveg í heila bók.

Ég vissi alveg hvar þeir ættu að leita.

Ég get sagt þér fyndnasta dæmið sem ég lenti í. Það var eftir að ég kom í land en þá fór ég allaf tvo túra á ári. Ég fór einu sinni með Goðafossi og þar var helvíti góð hola.“ Góður geymslustaður. „Dettifoss og Goðafoss sigldu sama rúntinn. Svo létu þeir okkur vita á Dettifossi að það væri búið að finna þessa holu og þá vorum við á leiðinni heim. Þá datt einum snillingnum um borð í hug að skrifa á stórt spjald og setja það í holuna. Svo komu tollararnir um borð. Ég var þá um borð og þóttist vera að leita um allt; ég vissi alveg hvar þeir ættu að leita. Svo fundu þeir holuna og litu á spjaldið og þar stóð „fyrirgefið, við erum nýfluttir“. Þeir urðu alveg æfir.“

Það var hægt að gauka að tollurunum einni og einni flösku og þá fóru menn hægt og hljótt um.

„Það var ýmislegt keypt fyrir þá. Þeir voru alltaf tilbúnir að láta kaupa fyrir sig litasjónvarp og svona.“

Svo komu rassíurnar inn á milli.

„Já.“

Birgir kunni vel við sig í millilandasiglingunum.

„Það var mjög gott að vinna hjá Eimskip. Ég slasaðist nokkrum sinnum og það var allt gert fyrir mann sem þeir þurftu ekkert að gera.“

 

Tveir krabbar og tvö hjartaáföll

Birgir er á eftirlaunum og hefur glímt við veikindi.

„Ég er búinn að fara í gegnum töluverð veikindi. Tvo krabba og tvö hjartaáföll. Ég er orðinn þrælvanur.“

Þú lítur helvíti vel út.

„Ég hef alltaf gert það. Ég segi það við stelpurnar.“

Þú berð ekki yfirbragð sjúklings. Ertu búinn að sigra þetta allt saman?

„Nei, þetta blundar einhvers staðar eitt af þessu. Eða tvö.“

En það er samt hægt að halda þessu niðri.

„Já, ég pæli ekkert í þessu.“

Þú ert ekkert hræddur?

„Allir sem fá þetta, krabbamein, sjokkerast. Það er enginn það mikil hetja þó hann segist vera það að hann sjokkerist ekki.

Hreyfingin bara bjargar, segja læknarnir.

Ég er svo heppinn að ég var það hraustur fyrir eins og þegar þurfti að skipta um fjórar æðar í hjartanu. Það var nú allt í lagi með það. Ég hafði mig út úr því en svo fékk ég krabbamein í bakið og þá þurfti að dæla í mig þessum helvítis óþverra á Landspítalanum. Og fólkið var ælandi sem var í næstu stólum við hliðina á mér en ég gat étið Prins Pólo og drukkið kók. Ég fann ekki fyrir því. Hreyfingin bara bjargar, segja læknarnir.“

Birgir segist alltaf vera á ferðinni.

„Ég er töluvert í golfi og svo á ég sumarbústað fyrir austan og maður er alltaf eitthvað þar og svo labba ég mikið. Það heldur manni í lífinu. Það er bara svoleiðis.“

Ertu hræddur við dauðann?

„Nei, ég hef ekki mikið pælt í þvi. Hann kemur. Ég veit að hann kemur.“

Það sleppur enginn.

„Nei, nei, ég er ekki hræddur en mig langar ekki í hann.“

Podcastið með viðtalinu við Birgi er að finan hér. 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -