Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ekkjan Dagný ræðir manninn sinn, ástina, dauðann og sorgina: „Var allt í þoku eftir að hann dó“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dagný Björk Pétursdóttir er ekkja. Hún missti mann sinn, Gísla Pálsson, í byrjun þessa árs. Banamein hans var krabbamein. Dagný Björk talar hér um manninn sinn, ástina, krabbameinið, dauðann og sorgina.

Tónabær snemma á 8. áratugnum. Hún var 14. Hann 15. Þau dönsuðu saman við lagið „You Ain´t seen nothing yet“ með hljómsveitinni Bachman Turner Overdrive.

„Það var svo gaman að dansa við hann,“ segir Dagný Björk Pétursdóttir með áherslu. „Það var æðislega gaman. Hann var líka með svo flott hár.“

„Hann“ var Gísli Pálsson.

Þau voru ekkert skotin í hvort öðru. Ekki þá.

Árin liðu. Áratugir. Leiðir þeirra fléttuðust af og til saman eins og fingur elskenda.

- Auglýsing -

„Leiðir okkar hafa legið saman á hinum ólíklegustu stöðum. Það voru margir þættir sem tengdu okkur alltaf saman í gegnum tíðina án þess að við vissum að leiðir okkar ættu eftir að liggja svona saman.“

Þau bjuggu meira að segja um tíma í húsum sem stóðu hlið við hlið og börnin þeirra voru saman í skóla. Þau kynntust svo fyrir alvöru fyrir 16 árum síðan og urðu vinir. Góðir vinir. Þau voru þá bæði einhleyp. Úr því varð svo ástarsamband árið 2006 og síðar hjónaband. Gísli hafði kvænst áður. Hún hafði verið í sambúð. Hann átti þrjú börn. Hún tvö.

„Þegar ég hitti hann svo og kynntist honum vel þá vorum við bæðin orðin fullorðin og ég hugsaði með mér að hann ætti eftir að verða vinur minn alla ævi. Það var mjög sérstök tilfinning. Þetta var ekki „ást við fyrstu sýn,“ segir Dagný Björk því þetta var vissulega ekki í fyrsta sinn sem hún hitti hann, „heldur „vá, við eigum eftir að verða vinir alla ævi“. Við vörðum löngum tíma í það að vera vinir áður en við hófum samband okkar.“

- Auglýsing -
Dagný missti manninn sinn.

Voru þau sálufélagar?

„Já, ég myndi segja það.“

Dagný Björk er spurð hvað hafi heillað hana við Gísla.

„Hann var mjög skemmtilegur maður, mjög fyndinn og hann var þessi klettur. Hann elskaði án skilyrða; það var skilyrðislaus ást. Við gátum verið við sjálf og ræktað hvort annað; við ræktuðum samband okkar og hjónaband. Við vorum hjón dags daglega en ef við fórum til útlanda eða í helgarferð þá vorum við kærustupar.“

Þau voru bæði rómantísk.

„Við buðum hvort öðru í óvissuferðir og fórum stundum alla leið frá Kópavogi þar sem við bjuggum um tíma og til Reykjavíkur og gistum þar yfir helgi.“

Ég trúi því að við Gísli eigum eftir að hittast aftur og mynda okkur framhaldssögu hvort sem það er sem hjón eða vinir. Ég trúi því að Gísli sé á góðum stað.

Hlátur.

„Við gerðum þetta reglulega, vorum eins og ferðamenn í höfuðborginni. Svo kom það stundum fyrir að ég færði honum rósir og og hann mér sama daginn. Þannig að við gátum verið svolítið fyndin með þetta.“

Hún hélt á stórri rós á brúðkaupsdaginn 30. júní fyrir 14 árum síðan – en það var fyrir algera tilviljun að viðtalið var tekið á brúðkaupsdaginn þeirra.

„Við giftum okkur í Kópavogskirkju. Ég var í bleikum kjól. Brúðarvöndurinn var ein stór rós sem var handsaumuð úr tug lifandi rósa. Svo var veisla strax á eftir. Það var fjör, góður matur og var dansað inn í sumarnóttina. Veðrið var yndislegt.“

Falleg lög hljómuðu í veilsunni svo sem Memory úr Cats og Lagið She.

 

She may be the face I can’t forget

The trace of pleasure or regret

May be my treasure or the price I have to pay

She may be the song that summer sings

Maybe the chill that autumn brings

Maybe a hundred different things

Within the measure of a day

„Við fórum heim til okkar eftir veisluna. Vinkonur mínar voru búnar að skreyta allt með rósablöðum og amma hafði gefið okkur sængurföt í brúðargjöf. Þetta var allt eins og það átti að vera.“

Og ástin blómstraði.

„Auðvitað eru öll sambönd upp og niður en minningin um okkur Gísla er fullkomin. Ég staldra ekki við eitthvað sem fór miður því ég man það ekki einu sinni.“

Krabbamein í hrygg

Svo dró ský fyrir sólu.

Gísli greindist með blöðruhálskrabbamein árið 2016. Hann fór í aðgerðir, geisla- og sprautumeðferðir og var talinn hafa komist yfir krabbameinið tveimur árum síðar. Hann hafði unnið sem smiður í áratugi en vegna veikindanna skipti hann um vinnu.

Hjónin voru á ferðalagi í fyrrasumar þegar Gísli fór að tala um að honum væri svo illt í bakinu.

Dagar og vikur liðu. Gísli fór til læknis síðar um sumarið og var honum sagt að fara í ræktina og fara þar á göngubretti og ná þessu úr sér. Hann fór stuttu síðar til annars læknis sem ráðlagði honum að fara til sjúkraþjálfara.

„Hann var orðinn svo kvalinn í ágúst að það var ekkert eðlilegt. Ég hringdi á læknavaktina og vildi yndislegur hjúkrunarfræðingur á vakt þar, Ragna, að sjúkrabíll kæmi heim og kæmi Gísla á sjúkraús.“

Gísli var settur í rannsóknir. Niðurstaðan: Krabbamein í hrygg. Gísli hafði farið í eftirlit í mars og voru öll gildi eðlileg.

Við tóku meðferðir og aðgerðir næstu mánuði.

„Hann var svo æðrulaus yfir veikindum sínum. Við vorum algerlega í umsjón Heru líknarþjónustu sem sá um alla heimaþjónustu. Þar vinnur kona sem heitir Lilja sem var gullmoli.

Gísli náði jólum og áramótum með okkur en svo var lungnabólga búin að yfirtaka allt saman. Þegar Gísli fór á spítalann 3. janúar þá var mér réttur bæklingurinn „Að leiðarlokum“. Það var rosalegt sjokk fyrir mig.“

Sorg er ekki ferli sem á að vera búið eftir mánuð eða fimm ár. Sorg er það sem maður lærir svo að lifa með.

Gísli komst ekki strax inn á krabbameinsdeild vegna plássleysis heldur lá hann á bráðamóttöku í tvo sólarhringa. Hann komst svo inn á krabbameinsdeildina tæpum sólarhring áður en hann lést þar aðfaranótt 9. janúar.“

Útför Gísla var gerð frá Lindakirkju. Kistulagning fór fram samdægurs. Gísli var í sparifötunum og lá á koddaveri sem Dagný Björk var búin að láta útbúa þar sem barnabörnin fimm voru búin að skrá niður minningarorð um afa sinn.

„Þau fá svo öll alveg eins koddaveri í jólagjöf. Gísli hélt upp á íþróttafélagið Víking og voru allir kistuberarnir með svartar grímur með Víkingsmerkinu sem vinur okkar, Raggi, hafði látið sér detta í hug.

Jarðarförin var ofsalega falleg og söng sama söngkona og hafði sungið í brúðkaupinu okkar.“

Lagið „She“ var spilað í útförinni eins og í brúðkaupinu.

 

Me, I’ll take her laughter her tears

And make them all my souvenirs

And where she goes I’ve got to be

The meaning of my life is

She, she

Oh, she

 

Valdimar söng lög eftir Bubba Morthens. Þá var sunginn sálmurinn Hærra minn guð til þín.

 

Hærra, minn Guð, til þín,

Hærra til þín,

Enda þótt öll sé kross

Upphefðin mín.

Hljóma skal harpan mín,

Hærra, minn Guð, til þín,

Hærra til þín.

Þegar ég þurfti að gráta og var sorgmædd þá var ég vön að fara inn á gestasalernið, bíta í handklæði og gráta.

Kistan var í viðarlit og kistuskreytingin í fánalitunum.

„Ég afþakkaði kransa og blóm en ég vildi frekar að Hera og Ljósið myndi njóta.“

Bálför Gísla fór síðan fram hálfum mánuði síðar og duftker hans sett í Kópavogskirkjugarð.

„Gísli var smiður og með einstaka smiðshönd. Hann var alltaf að koma við við og horfa á kvistina. Krossinn sem ég valdi á leiðið er í sama lit og kistan og sumarbústaðurinn okkar sem hann smíðaði.“

Fyrir afmælið hans 28. maí smíðaði Dagný Björk síðan ramma utan um leiðið hans úr við úr sumarbústaðnum og málaði með lit bústaðarins. Hún fór síðan upp í sumarbústað og fyllti þar nokkrar hjá fötu af rauðamöl sem hún setti svo á leiðið.

„Leiðið hans er mjög sérstakt.“

Sorgin

Dagný Björk fór að upplifa sorgina þegar Gísli greindist fyrst árið 2016.

„Ég gerði þá þann feil að ég leitaði mér ekki aðstoðar. Gísli fór sjálfur í gegnum þetta af æðruleysi; að þetta yrði allt í lagi. Við vorum svo örugg um að þetta myndi ganga upp. Þegar ég þurfti að gráta og var sorgmædd þá var ég vön að fara inn á gestasalernið, bíta í handklæði og gráta.“

Þögn.

„Það var það sem ég gerði á þeim tíma sem var rosalegur feill. Það á maður ekki að gera. Ég fór í einn tíma til sálfræðings á þessum tíma og hann gerði þau mistök að rétta mér bók sem heitir „Makalaust líf“ og sagði mér að lesa hana. Þess vegna fór ég ekki aftur til hans vegna þess að ég var ekki komin á þann stað. Þetta var eins og blaut tuska í andlitið af því að við Gísli ætluðum að sigra og við vorum örugg á því að við myndum sigra. Við áttum svo gott líf. Þegar Gísli greinist síðan í ágúst 2020 var krabbameinið komið um allt og var talið að blöðruhálskrabbameinið hefði stökkbreyst og var kallað smáfrumukrabbamein.“

Dagný Björk fékk að minnka við sig vinnu svo hún gæti verið meira til staðar fyrir Gísla og hún fór í viðtal hjá Ljósinu þar sem hún gerði sér grein fyrir því að hún væri byrjuð að syrgja mann sem væri ennþá á lífi.

„Eftir dauðsfall Gísla fór ég að fá alls kyns hræðsluköst og ég held ég hafi farið allt í einu að upplifa mikinn kvíða sem fór að þróast með mér. Ég vann svolítið með það og við sjálf áttum ofsalega heiðarleg samskipti og töluðum mikið saman. Gísli fór í sálfræðiviðtöl sem gerðu mikið fyrir hann.“

Dagný missti manninn sinn.

Og hjónin nutu lífsins og ræktuðu ástina.

„Við lifðum bara fyrir stundina. Við fórum í „picknick“ með hundinn á sunnudegi. Við fórum upp í sumarbústað um helgi. Við keyptum okkur eðalsteikur og höfðum það huggulegt og bara héldum áfram við þessa rækt okkar sem hjón. Sem vinirnir. Sem sálufélagarnir. Við slepptum aldrei takinu þar.“

Gísli var hættur að geta gengið.

„Maðurinn minn gat ekki gengið nema með háa göngugrind og var ofboðslega kvalinn allan sólarhringinn. Það var aldrei frí. Er þetta það sem maður vill einhverjum sem maður elskar? Eins og það er sárt að segja það þá fór ég til hans, lagðist hjá honum og sagði að ef hann þyrfti að fara…“

Þögn.

Hún grætur.

„…þá yrði hann að fá að fara. Og það var rosalegur sársauki. Ég skil ekki enn þann dag í dag hvernig ég gat þetta.“

Þögn. Löng þögn.

Hún grætur.

„Það er mjög erfitt að rifja þetta upp. Við erum bæði mjög trúuð og ræktuðum okkar trú. Og styrkur okkar var þar. Við eigum mjög góða fjölskyldu, vini og nágranna og það var alltaf hátíð hjá okkur. Það voru allir að hugsa um okkur og færa okkur mat, blóm og kerti, viðra fyrir okkur hundinn og bjóða fram aðstoð.“

Hann var mjög skemmtilegur maður, mjög fyndinn og hann var þessi klettur. Hann elskaði án skilyrða; það var skilyrðislaus ást.

Jólin.

Heims um ból, helg eru jól,

signuð mær son Guðs ól,

frelsun mannanna, frelsisins lind,

frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind

meinvill í myrkrunum lá.

„Ég var að stússast í matnum á aðfangadag og Gísli lá í sófanum. Þá sagði hann mér allt í einu að koma; hann sagðist þurfa að tala við mig. Ég ætlaði að halda á ausunni eða pískinum eða hvað sem ég var með en hann sagði mér að sleppa öllu, slökkva á eldavélinni og koma. Hann var strangur. Þá var hann í rauninni að kveðja mig þó ég hafi ekki gert mér grein fyrir því þá. Hann talaði um ástina og allt sem við höfðum upplifað og hvað það hafði gefið honum mikið. Þetta var hans kveðja.“

Hjónin fóru upp í sumarbústað á milli jóla og nýars og þar sem Gísli var orðinn svo veikur þá hringdi Dagný Björk í 112 um miðja nótt og var Gísli sóttur og farið með hann á sjúkrahús í sjúkrabíl. Og hann dó nokkrum dögum síðar.

„Það var allt í þoku eftir að hann dó.“

Dagný Björk segist vera viss um að dauðinn sé ekki endanlegur.

„Ég trúi því að við Gísli eigum eftir að hittast aftur og mynda okkur framhaldssögu hvort sem það er sem hjón eða vinir. Ég trúi því að Gísli sé á góðum stað. Ég sagði barnabörnunum einu sinni í sumarbústaðnum að velja sér stjörnu og að þau gætu sagt að það væri stjarnan hans afa. Þau eru líka að ganga í gegnum rosalega sorg. Ég er ekkert að reyna að fegra. Þau vita að ég græt og þau hafa séð mig gráta.“

Krassaði

Dóttir Dagnýjar Bjarkar og barnabarn dvöldu hjá henni í töluverðan tíma eftir andlát Gísla en hún fór þó strax að vinna eftir jarðarförina.

„Ég var svo mikill jaxl. Ég ætlaði alltaf að komast áfram á hörkunni. Ég hélt ég myndi redda mér og það voru margir hissa á því hvað ég væri dugleg. Það endaði með því að ég sat í bílnum eitt kvöldið og hafði misst mátt í öllum líkamanum. Ég gat ekki slökkt á bílnum en ég hafði haft vit á því rétt áður að hringja í son minn og vinkonu og láta þau vita hvernig mér liði. Ég sagði að mér liði mjög einkennilega. Þau hringdu á 112.“

Hún gat ekki talað þegar sjúkrabíll kom og var hún flutt á sjúkrahús.

Ég hélt ég myndi redda mér og það voru margir hissa á því hvað ég væri dugleg. Það endaði með því að ég sat í bílnum eitt kvöldið og hafði misst mátt í öllum líkamanum.

Taugaáfall?

„Já og nei. Ég hef ekki fengið skilgreiningu á þessu en einhvers staðar segja líkami og sál „stopp“. Hingað og ekki lengra. Nú yrði ég að snúa við blaðinu sem ég gerði og fór í veikindaleyfi og er að byggja mig upp. Ég hef undanfarna mánuði mætt í vinnuna einu sinni í viku. Það þarf í fyrsta lagi að hlusta á sjálfan sig, hlusta á hjartað sitt, líkama sinn og sálina sína. Þetta er náttúrlega bara ein tenging. Sorg er tilfinning og hún verður að fá að koma. Það er ekki hægt að ýta henni í burtu og segjast ætla að komast áfram á hnefanum. Það er ekki þannig.

Svo var ég svo lánsöm að Lilja hjá Heru kom til mín eftir svolítinn tíma og vísaði mér leiðina niður í Krabbameinsfélag og er ég búin að vera þar hjá Sigrúnu, hjúkrunarfræðingi/ráðgjafa, og einnig hjá sálfræðingi og það er mjög gott. Ég náði í öll bjargráð sem ég gat. Ég fór í viðtal hjá Sorgarmiðstöðinni og hitti þar konu sem hafði gengið í gegnum það sama og ég. Það er svolítið gott að spegla sig í öðrum með sömu reynslu. Og ég fór á námskeiðið „Húmor er dauðans alvara“ hjá Eddu Björgvins hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og var seinni hlutinn af því „jákvæð sálfræði“. Ég byrjaði að segja Eddu að ég væri ekkja, að ég væri að leita að húmornum í sjálfri mér og ég væri bara að hjálpa sjálfri mér. Þetta var bara alveg frábært námskeið.

Ég leigði mér rafmagnshjól til að fara út og hreyfa mig, ég dreif mig í vatnsleikfimi einu sinni í viku og þegar ég fer að gráta þar þá sér það enginn vegna þess að þá skvetti ég bara sundlaugarvatni framan í mig. Ég má gráta og ég leyfi mér að gráta. Og maður grætur alls staðar. Ég græt heima. Ég græt í bílnum. Ég græt stundum þegar ég er úti að labba með hundinn. Það má gráta. Og það má syrgja. Maður verður að leyfa þessu að koma og ekki bægja tilfinningunum frá. Það er stórt lykilatriði.

Hann talaði um ástina og allt sem við höfðum upplifað og hvað það hafði gefið honum mikið. Þetta var hans kveðja.

Allt sem ég geri, geri ég á mínum hraða. Það er enginn sem segir hvað ég eigi að gera eða rekur mig áfram. Ég verð bara að læra, þykja vænt um sjálfa mig, finna þarfir mínar og gera hlutina á mínum hraða. Sorg er ekki ferli sem á að vera búið eftir mánuð eða fimm ár. Sorg er það sem maður lærir svo að lifa með.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -