Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Dauðinn stór partur af lífi Brynju Dan: „Sorgin er svo fallegt fyrirbæri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fann meira fyrir því þegar ég var að alast upp en í dag. Þá voru fáir dökkir í skólanum og óneitanlega var ég meira öðruvísi en í dag,“ segir áhrifavaldurinn Brynja Dan Gunnarsdóttir, sem var ættleidd frá Sri Lanka. Brynja mun skipa annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður í Alþingiskosningunum í haust. Hún er með BS-gráðu í rekstrarverkfræði, er þekkt fyrir að vera dugnaðarforkur og að vera með mörg járn í eldinum og hún segist vinna best undir álagi. Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hún missti foreldra sína á unglingsárunum. Missirinn gerði hana sjálfstæðari, sterkari og ákveðnari en um leið hrædda en auðmjúka fyrir lífinu. Brynja er í Helgaviðtali Mannlífs. 

Sri Lanka er eyríki út af suðausturströnd Indlandsskaga og er án efa svolítið ævintýralegt í huga margra: Höfuðborgin heitir Srí Jajevardenepúra og opinberu tungumálin kallast singalíska og tamílska. Wikipedia segir þetta um Sri Lanka:

„Fornminjar benda til þess að menn hafi sest að á Srí Lanka á fornsteinöld fyrir allt að 500.000 árum. Leifar af balangodamanninum (Homo sapiens balangodensis) eru frá miðsteinöld og eru taldar elstu leifar líffræðilegra nútímamanna í Suður-Asíu. Elsta vísunin til Srí Lanka í rituðum heimildum er í sagnakvæðinu Ramayana frá 5. eða 4. öld f.Kr. Hugsanlega voru elstu íbúar Srí Lanka forfeður veda sem nú eru lítill hópur frumbyggja á eyjunni. Á miðöldum varð Srí Lanka fyrir innrásun Chola-veldisins á Indlandi og síðan Kalinga Magha árið 1215 og eyjunni var skipt milli hinna ýmsu konungdæma. Portúgalir lögðu strandhéruð eyjarinnar undir sig á 17. öld en Hollendingar náðu þeim brátt af þeim. Í upphafi 19. aldar lögðu Bretar eyjuna undir sig. Srí Lanka lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum árið 1948 en fljótlega settu átök milli sinhalamælandi meirihluta og tamílskumælandi minnihluta svip sinn á stjórnmál landsins þar til borgarastyrjöld braust loks út árið 1983 milli stjórnarinnar og Tamíltígra. Árið 2009, eftir mikið mannfall, tókst stjórnarhernum að sigra Tamíltígra.“

Ung móðir á Sri Lanka, Ranjani, ákvað árið 1985 að gefa nýfædda dóttur sína til ættleiðingar. Ung, íslensk hjón urðu foreldrar hennar. Snjólaug heitin Stefánsdóttir og Dan Gunnar heitinn Hansson. Þau gáfu dóttur sinni nafnið Brynja Dan.

Brynja nokkurra mánaða með móður sinni, Snjólaugu.

„Ég ólst upp í Hafnarfirðinum. Ég var aldrei íþróttastelpa en hélst í kór alveg í 10 ár og æfði á píanó. Keppnisskap er ekki til í mér þegar kemur að íþróttum en þegar kemur að einhverju öðru þá blossar það upp. Ég var frekar rólegt barn og unglingur með einstaka undantekningu að sjálfsögðu. Mér gekk vel í skóla og átti minn trausta vinahóp. Ég var alltaf frekar feimin og í grunninn er ég mjög prívat þó feimnin hafi þroskast af mér.“

„Negrarnir inn að aftan“

- Auglýsing -

Það hafði áhrif að vera ættleidd; að vera með dekkri húð en flestir aðrir krakkar á Íslandi „Það er kannski erfitt að útskýra það en maður er alltaf meðvitaður um að maður sé aðeins öðruvísi þegar maður kemur á flesta staði og er eina dökka manneskjan á svæðinu. Hins vegar hef ég alltaf litið á það sem kost að skera mig úr fjöldanum og það hefur oft verið styrkur minn. Ég fagna fjölbreytileikanum og tek því fagnandi þegar fólk spyr mig hvaðan ég sé og vill fræðast og læra. Mér finnst það alls ekki vera móðgandi. Fólk hefur spurt mig hvort það megi koma við til dæmis hárið á mér og húðina og ég skil það svo vel. Ég hef alveg viljað snerta til dæmis afróhár því það er eitthvað sem ég er ekki með og mér finnst það vera fallegt; mann langar að snerta til að finna eitthvað sem er manni framandi og læra. Það finnst mér vera fallegt.“

Hún rifjar upp nokkur dæmi þar sem hún hefur oriðið fyrir fordómum – viljandi eða óviljandi.

„Íþróttakennari sýndi mjög óviðeigandi framkomu í skólaferðalagi sem stóð yfir í nokkra daga. Hann tók okkur tvö dökku fyrir og lét okkur gera 100 armbeygjur. Ég gat það ekki þá og ekki nú en bekkjarfélagar mínir voru fljótir að rísa upp á afturfæturna okkur til varnar og þessi kennari var látinn fara eftir þetta atvik. Mér var einu sinni sagt að fara inn bakdyramegin á skemmtistað; „negarnir inn að aftan“ var kallað yfir röðina. Ég svo sem tók það ekki til mín þó viðkomandi hafi vissulega verið að tala við mig en ég er ekki svört og mér fannst það lýsa fáfræði hans meira en eitthvað annað. Ein lítil í sundi neitað að fara ofan í því henni fannst að ég væri svo skítug; þetta er bara krúttlegt og börn eru börn og segja bara það sem þeim dettur í hug en það sem við segjum á móti er það sem skiptir máli. Allt eru þetta hlutir sem hafa í stóra samhenginu engin áhrif á mig. Ég ólst upp við það að virði mitt kemur ekki út frá áliti annarra og það er eðlilegt að vera hræddur við það sem maður þekkir ekki. Þess vegna er fræðsla það sem skiptir svo miklu máli þegar við tölum við börnin okkar.

- Auglýsing -
Brynja og blóðmóðir hennar árið 2016 þegar þær hittust á Sri Lanka eftir 30 ár.

Ég held að við séum markvisst að vinna í því að uppræta alls konar fordóma. Það varð bylting í kjölfar dauða George Floyds og fólk er mun meðvitaðra í dag en bara fyrir ári. Ég tek eftir því að unga fólkið okkar er mjög vel upplýst þegar kemur að rasisma og er fljótt að kynna sér og tileinka sér nýja hluti og er viljugt til þess að kynna sér sögu annarra og þeirra baráttu sem hafa staðið yfir svo lengi. Síðasta árið höfum við átt mjög lærdómsrík samtöl um hvað má og hvað má ekki, það er fullt af hlutum sem við gerðum fyrir stuttu en gerum ekki í dag. Við erum öll að læra hvað við getum gert sem lyftir öðrum menningarheimum upp. Við erum ekki lengur að lesa „10 litlir negrastrákar“ og við hættum því fyrir löngu en núna bara síðasta öskudag fór af stað umræða um alls konar búninga og það var mikilvægt að átta sig á því hvað er í lagi og ekki; að við skiljum að búningadagur er ekki dagur þar sem við getum leyft okkur að klæða okkur upp eins og við tilheyrum annarri menningu eða trú en höfum svo dags daglega ekki rými til þess að leyfa fólki af þeirri menningu eða trú að vera þannig í samfélaginu okkar án fordóma.“

Hvað með son hennar, Mána? Hefur hann orðið fyrir fordómum vegna dökks litarhafts?

„Strákurinn minn er frekar sterkur karakter og hefur alltaf verið vinamargur. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem við urðum vör við fordóma í fyrsta sinn og það virkilega reynir á mömmuhjartað. Hvernig skólinn tók á því var algjörlega til fyrirmyndar og auðvitað ber þeim að taka svona málum alvarlega. Ef það er ekki gert í byrjun þá geta þau auðveldlega þróast i eitthvað miklu stærra og alvarlegra.“

Sorgin

Systurnar eru tvær en Brynja á systur sem er tveimur árum yngri. Það var ekki allt eins og það átti að vera. Faðir Brynju glímdi við þunglyndi og alkóhólisma og tók eigið líf þegar hún var 13 ára. Snjólaug fékk síðan heilaæxli og lést þegar Brynja var 18 ára.

„Missir mótar mann alltaf en svo er bara að velja hvernig það mótar mann. Þetta gerði mig sjálfstæðari, sterkari og ákveðnari en um leið hrædda en auðmjúka fyrir lífinu. Þetta tók mig út úr skelinni minni og ég neyddist til þess að taka pláss, hafa hátt og gera mitt besta til þess að nýta það til góðs. Sorgin er svo fallegt fyrirbæri eins skringilega og það hljómar. Þessar hráu tilfinningar neyða mann til að horfast í augu við sjálfan sig og velja hvernig maður ætlar að nýta hana sem kraft. Mér finnst vera svo mikilvægt að leyfa sér að finna allar tilfinningarnar. Hver og einn syrgir á sinn hátt og engin leið er réttari en önnur. Ég varð rosalega reið en svo klárar maður það tímabil og þá tekur næsta skref við í átt að aðeins minni sársauka og á endanum lærir maður svo að lifa með sorginni. Það er samt þannig að maður er oft svolítið að syrgja framtíðina svo það er ný sorg sem fylgir hverju skrefi. Mamma og pabbi voru ekki hér þegar ég eignaðist barn, þau sáu mig ekki útskrifast, þau verða ekki til staðar ef ég gifti mig einn daginn og hver mun þá leiða mig upp að altarinu? Svo eru þau einfaldlega að missa af barnabörnunum sínum og því sem maður er stoltastur af. Í dag er það til dæmis þannig að þó ég sakni þeirra á jólunum þá sakna ég þess meira að þau fái ekki að njóta stráksins míns, hafi misst af ömmu- og afahlutverkinu og að hann hafi aldrei fengið tækifæri til að hitta þau.“

Brynja í fangi blóðmóður sinnar á Sri Lanka.

Hvað er dauðinn í huga Brynju?

„Dauðinn er eitthvað sem ég hugsa líklega aðeins of oft um. Hann er stór partur af mínu lífi og auðvitað óumflýjanlegur eins og við öll vitum. Og ég er mjög meðvituð um það og reyni að lifa lífinu svolítið þannig að ég sjái ekki eftir neinu. Ég hef haft það fyrir reglu í mörg ár að segja „já“ við sem flestu ef ég get gert það en það hefur opnað svo margar dyr og búið til svo óteljandi ævintýri. Lífið verður svo mun skemmtilegra ef maður reynir að segja „já“ við sem flestu.“

Óttast Brynja dauðann?

„Já, auðvitað, mig grunar að það geri það flestir. En það þýðir víst lítið að staldra lengi við þá hugsun. Vonandi verð ég gömul og grá, ég er reyndar löngu orðin grá,“ segir hún og hlær, „en ef ekki þá er ég með alls konar undirbúið. Brennt barn forðast eldinn á kannski við þar en ég er með bréf til stráksins míns sem ég skrifa á hverju ári á afmælisdaginn hans og sting inn í albúmið hans því ég vil að hann eigi eitthvað frá mér hvort sem við lesum það saman eftir mörg ár á hans stærstu dögum í lífinu eða ekki; vonandi verður það þannig en hvað veit maður og þá á hann þau. Þá eru þessi bréf allavega til. Ég gæfi aleiguna fyrri að eiga svona bréf frá foreldrum mínum.“

Ættleidd

Móðir, blóðmóðir, á Sri Lanka. Brynja hefur alltaf átt mynd af blóðmóður sinni. Myndin hefur alltaf verið það dýrmætasta sem hún hefur átt fyrir utan fólkið sitt. Á myndinni stendur blóðmóðir hennar með hana í fanginu. Brynja á líka skartgripi og ýmsa muni frá Sri Lanka. Það var svo vegna sjónvarpsþáttarins „Leitin að upprunanum“ sem hún ákvað að hafa samband við dagskrárgerðarmanninn og boltinn fór að rúlla. Hún vildi fara til Sri Lanka og leita að blóðmóður sinni. Og það tókst. Þess má geta að þegar Brynja var unglingur hafði hún séð fyrir sér að leita uppruna síns með móður sinni, Snjólaugu, en móðir hennar vildi að hún fyndi ræturnar. Frumrit allra skjala tengd ættleiðingunni voru og eru geymd í bankahólfi í Landsbankanum og þar voru þær vísbendingar sem hún þurfti: Nafn blóðmóður hennar, nafn heimbæjar hennar og sjúkrahúsið þar sem Brynja fæddist.

Mér finnst vera mikilvægt að vera með tekjur á mismunandi stöðum og hef alltaf stefnt á að vera ekki háð einni vinnu.

Það var árið 2016 sem Brynja fór ásamt syni sínum, Mána, sem nú er 13 ára, og dagskrárgerðarfólkinu til Sri Lanka. Þau lentu í Colombo og fóru síðan til strandbæjarins Bentota. Hitinn var kæfandi. Ávextir héngu á trjám og margir voru berfættir.

Svo rann dagurinn upp þegar Brynja hitti blóðmóður sína sem tók dóttur sína strax í fangið. Hún og aðrir ættingjar þefuðu af Brynju. Öll voru þau brosmild. Ljúf. Hún hitti til dæmis systur sína, Dilmi, og bróður sinn, Pran. Geðhræring Brynju var mikil. Þetta var eins og í draumi. Og svo hitti hún líka ömmu sína og frændsystkini. Hún fékk líka knús frá henni. Og þeim. Ættingjarnir á Sri Lanka hafa það betra en Brynja bjóst við.

„Ég hugsaði í rauninni aldrei þannig um blóðmóður mína nema bara hvort hún væri á lífi eða ekki. Á myndinni sem ég á af henni sá ég alltaf að við værum líkar og það einhvern veginn tengdi mig við hana. Þegar við svo hittumst þá var það bara eins og móðir að hitta barnið sitt.

Vissulega 30 árum seinna en samt var allt svo eðlilegt. Ég var hins vegar allt of stutt úti og hefði eftir á að hyggja átt að taka mér meiri tíma í allt ferlið.“

Brynja segist hafa lent á vegg við heimkomuna.

„Þetta var bara ofsalega krefjandi á líkama og sál; langt og strangt ferðalag og svo algjör tilfinningarússíbani. Að koma svo heim og eiga heila, nýja fjölskyldu en vera svo langt frá þeim var bara erfitt í alla staði. Að byrja á því að sakna þeirra aftur og aftur og hafa verið svona stutt með þeim. Þetta var spennufall vegna þess að 30 ára draumur hafði ræst, allir voru á lífi og allir vildu mig. Þetta var bara eins og Disney-ævintýri en ofsalega lærdómsríkt og gefandi ferli.“

Brynja óskaði eftir því að systir sín fengi að koma til Íslands og fékkst það.

„Hún kom hingað en fékk því miður bara leyfi til þess að vera hérna í fimm daga. Hún ferðaðist því í næstum því 30 klukkustundir fyrir fimm daga á Íslandi. Ég hefði helst viljað hafa hana hér í að minnsta kosti þrjár til fjórar vikur en það er ekki í boði.“

Brynja er í góðu sambandi við ættingja sína á Sri Lanka og segist heyra í þeim oft í mánuði.

Hún er spurð hvað hún hafi lært um sjálfa sig við að finna ættingja sína.

„Hvað það er góð tilfinninng að líkjast einhverjum og fá svör sem manni innst inni hefur dreymt um að fá einn daginn. Ég fór út algjörlega varnarlaus og vissi ekkert hvað biði mín en þau voru bara dásamleg og tóku mér svo vel. Það er hins vegar bara þannig að það er í eðli okkar að vilja vita hvaðan við komum og þetta var púslið sem mig vantaði. Því miður hafa ekki allir tök á því að finna þetta púsl og maður lifir vel án þess en það er óneitanlega gott að hafa fundið það. En auðvitað er þetta strembið ferli og ákveðið spennufall.“

Brynja er spurð hvað Sri Lanka sé í huga hennar.

„Sri Lanka er hin eyjan mín. Fallegra land hef ég ekki séð. Algjörlega magnaður staður. Fólkið er svo gott og litirnir og orkan þar svo nærandi.“

Sjálf er Brynja jú móðir eins og þegar hefur komið fram.

„Móðurástin er náttúrlega bara eitthvað yfirnáttúrulegt sem kemur yfir okkur. Að vera mamma er það sem ég lifi fyrir. Ég á einmitt á myndband af mér fjögurra ára þar sem mamma spyr hvað mig langi til að verða þegar ég verð stór og svarið er „mamma“. Það breytir okkur flestum að fá manneskju í fangið sem maður ber 100% ábyrgð á og ég held að við upplifum öll ákveðið varnarleysi. Allt í einu er þessi litla mannvera komin og heimurinn stækkar og allt hræðir mann við hann á sama tíma. Þó maður vilji meina að heimurinn sé fallegur þá er svo margt sem hræðir mann fyrir hönd barnanna sinna. Ég fékk lítinn „ellilífeyrisþega“, segir hún og á við Mána, „og við erum ofboðslega náin og gerum endalaust af skemmtilegum hlutum saman svo þetta er svolítið eins og að eiga besta vin sinn. Það er hins vegar engin lygi að það þarf heilt þorp til að ala svona unga upp og við erum einstaklega heppin með þorpsbúana okkar. Það sem kom mér kannski mest á óvart er það hvað það er magnað að finna hvað það skiptir mann miklu að líkjast einhverjum. Loksins var einhver sem líktist mér og það er alveg einstök upplifun og eitthvað sem flestir kannski spá ekki mikið í en þegar maður hefur aldrei fundið það þá er það alveg magnað.“

Á fyrirtæki og er í stjórnum

Jú, Brynja Dan er dugnaðarforkur. Hún vann með bæði menntaskóla- og háskólanámi.

„Ég vann í Landsbankanum með háskólanámi og fór svo í markaðsstörf hér og þar eftir að ég útskrifaðst frá HR með próf í rekstrarverkfræði.“

Hún vann við markaðsmál þangað til hún stofnaði eigið fyrirtæki fyrir tveimur árum síðan.

„Ég er alltaf með frekar mörg járn í eldinum og vinn best undir álagi. Það hentar mér vel að taka svona skorpur nokkrum sinnum á ári eins og Singles Day er en þá vinnur maður myrkranna á milli í nokkrar vikur og svo er það bara búið á sólarhring,“ segir hún en hún er upphafsmaður Singles Day hér á landi og hefur haldið það fyrir netversalnir undanfarin sex ár. „Mér finnst vera mikilvægt að vera með tekjur á mismunandi stöðum og hef alltaf stefnt á að vera ekki háð einni vinnu. Síðan mín 111.is heldur utan um tilboðsdaga á netinu og var upphaflega til þess að lyfta íslenskri netverslun. Síðustu tvö ár hef ég síðan staðið vaktina í Loppunni minni sem hefur verið eitt lærdómsríkasta ferli sem ég hef tekið þátt í.“

Extraloppan. Hvað er það? Jú, tæplega 200 básar fullir af notuðum vörum sem eru til sölu. Á síðu Extraloppunnar segir meðal annars að þar geti fólk bæði keypt og selt notaðan vel með farinn fullorðinsfatnað, fylgihluti og húsbúnað. Sem seljandi leigir viðkomandi bás í eina viku að lágmarki og verðleggur sjálfur vörurnar sínar. Rúmlega 11.000 manns hafa líkað við Facebook-síðu Extraloppunnar þar sem fást notuð föt, skór, töskur, sólgleraugu, heimilisvörur.“

Brynja er komin í „business“. Hvað þýðir það fyrir hana? Að vera kona í viðskiptalífinu?

„Mér finnst það vera ofsalega gaman og það er gaman að fá að taka þátt í viðskiptalífinu; fá að kynnast ölllum hliðum, vera sjálf að reka fyriræki og kynnast uppbyggingu fyrirtækis frá grunni, allt frá samningum um leiguverð og yfir í mannauðsmálin.“

Svo situr hún í stjórnum. Hún hefur setið í stjórn Barnaheilla í fjögur ár og nýlega settist hún í stjórn Íslenskrar ættleiðingar. Henni finnst að bæta mætti ýmislegt varðandi málefni ættleiddra barna.

„Á síðasta ári komu fimm börn til landsins sem er mun minna en þegar ég til dæmis kom en þá hafa þau líklega verð 40 eða fleiri. Svo það er töluvert minna um það að fólk sé að ættleiða og talsvert færri umsækjendur hjá félaginu eins og staðan er í dag. Það hins vegar gerist líka að íslensk börn sem eru að leita að fósturforeldrum eru pöruð við fólk sem er á bið hjá ÍÆ.

Það er grunnskylda okkar sem samfélag að aðstoða börn sem búa við erfiðar aðstæður í landinu og við vitum að umsækjendur ÍÆ hafa stundum farið inn í fósturkerfið. Löndin sem eru opin í dag eru Kína, Kólumbía, Tékkland og Tógó og við erum að vinna í því að gera samninga við Indland aftur og Dóminíska lýðveldið svo það eru spennandi tímar fram undan.

Móðurástin er náttúrlega bara eitthvað yfirnáttúrulegt sem kemur yfir okkur. Að vera mamma er það sem ég lifi fyrir.

Það sem ég myndi vilja sjá er einhvers konar eftirfylgni. Í dag er ÍÆ að sjá um eftirfylgnina en það ætti að vera á ábyrgð ríkisins. Nú erum við að láta foreldra greiða fyrir þjónustu eftir ættleiðingu sem er fráleitt að mínu mati og því þarf að breyta. Það þarf að koma á eins konar ungbarnaeftirliti eða þjónustu eftir ættleiðingu; eitthvað sem nýbakaðir foreldrar fá en ekki þeir sem ættleiða. Svo er það þessi eftirfylgni, mörg börn koma hingað með skilgreindar þarfir og rannsóknir sýna að snemmtæk íhlutun ber miklu meiri árangur heldur en að bíða með vandann þar til hann er orðinn of stór og illviðráðanlegur. Það væri draumur að þegar barn er ættleitt að þá færi eittvað ferli í gang sem fylgdi því í leikskólann og grunnskólann sem og fræðsla fyrir þá sem kenna og annast barnið sem er núna greitt af foreldrum.“

Áhrifavaldur

Margir fylgja Brynju á samfélagsmiðlum og má geta þess að hún er með um 16.400 fylgjendur á Instagram. Hún er spurð hvaða máli það skipti fyrir hana að vera áberandi á samfélagsmiðlum. Að vera „áhrifavaldur“.

„Það var alls ekki planið og æxlaðist bara þannig en það eru auðvitað kostir og gallar við það að hafa svona stóran vettvang. Það er ansi tímafrekt og oft mun meiri vinna en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Þetta er bara eins og að reka sinn eigin miðil. Maður setur kannski ekki alveg hvað sem er þarna inn þó ég reyni nú að halda í húmorinn og hafa þetta ekkert of formlegt. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé tilgangslaust að vera með stóran vettvang og nýta hann ekki til þess að láta gott af sér leiða. Í grunninn er það þess vegna það sem ég geri því mér finnst ég geta haft áhrif og kannski vakið fólk til umhugsunar á alls konar málefnum. Mér finnst vera svo mikilvægt að ræða hlutina og að við venjum okkur við gagnrýna hugsun.

Það hefur skapast neikvæð umræða um þetta orð eða starfsheiti, „áhrifavaldur“, en í grunninn er það samt svo jákvætt að vilja hafa áhrif og í dag á tímum samfélagsmiðla eru svo sem allir áhrifavaldar. Hver kannast ekki við að hafa séð vini eða vandamenn snæða eitthvað gott á Snapchat, Facebook eða annars staðar og langað að prófa sama stað? Flest erum við með þúsund manns bara á Facebook og notum þann stað til þess að deila hlutum. En að starfa við þetta er svo miklu meiri vinna en fólk gerir sér grein fyrir; maður er í raun að skapa efni, taka myndir, myndbönd og búa eitthvað til. Vanalega væru fleiri sem koma að þessu en þarna er maður bara einn að sjá um allar hliðar. Svo ég vil alls ekki meina að þetta sé auðveld vinna.“

Í framboð

Brynja vill meira; konan sem segist alltaf vera með mörg járn í eldinum og vinna best undir álagi. Hún mun skipa annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður í Alþingiskosningunum í haust. Hún segist aldrei áður hafa verið skráð í flokk; segist hafa alist upp í stórri kratafjölskyldu svo hún eigi ekki langt að sækja löngunina í pólitík.

Að ég geti lagt eitthvað af mörkum til betra samfélags. Mér finnst það vera tilgangur minn og það sem ég vonast til þess að ná fram til dæmis með framboðinu. Að ég geti breytt einhverju til hins betra.

„Þetta hefur kannski alltaf verið svolítill draumur. Ég hef verið dugleg að ræða um alls konar málefni og taka umræður sem eru ekki alltaf vinsælar. Ég hef verið að lauma þessu út í „kosmósið“ af og til og svo kom að því að einhver hlustaði og ég ákvað svolítið bara að láta slag standa eftir að Ásmundur Einar boðaði mig á fund og við sáum að við erum á sömu blaðsíðu. Þá var bara um að gera að stökkva í djúpu laugina og vonandi fáum við að sameina krafta okkar.“

Hvers vegna Framsókn?

„Ég hef tekið eftir því hvað Ásmundur Einar er búinn að gera magnaða hluti og auðvitað Lilja líka og í málefnum sem ég brenn fyrir. Eftir að hafa svo hitt fólkið í flokknum þá sá ég að við erum eins misjöfn og við erum mörg og það er svo heillandi hvað við erum með mismunandi bakgrunn. Ég fann strax að mig langaði til að vera partur af þessari heild og leggja mitt af mörkum.“

Brynja er spurð á hvað hún myndi vilja leggja áherslu.

„Ég vil auðvitað gera betur þegar kemur að börnunum okkar. Það má alltaf bæta umhverfi þeirra og til dæmis barna sem búa við erfiðar aðstæður, barna sem verða fyrir missi, eftirfylgni með ættleiddum börnum til dæmis og börnum af erlendu bergi brotnu. Ég vil sjá einstaklingsmiðað nám í grunnskólum og að leitað verði leiða svo að allir geti vaxið og dafnað. Mér finnst fátt vera fallegra en tungumálið okkar og vil alls ekki glata því og held að við þurfum að halda því vel að börnunum okkar og láta nýjustu tækni eins og snjallsímana vinna með okkur en ekki a móti okkur.“

Eigandi Extraloppuna telur að það sé kominn tími til stjórnvöld fari í einhverjar aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

„Áhersla stjórnvalda undanfarin ár og þá sérstaklega nú í heimsfaraldrinum Covid-19 hefur verið fyrst og fremst á stærri fyrirtækin. Að mínu mati þurfum við að beina kröftum okkar í miklu meira mæli til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru undirstaða íslensks atvinnulífs. Um það bil 70% fyrirtækja í landinu heyra þarna undir og því er nauðsynlegt að hlúa enn frekar að þessu hópi fyrirtækja en verið hefur. Þessi stærð af fyrirtækjum féll einhvern veginn ekki undir neinar aðgerðir stjórnvalda því miður og róðurinn er oft mjög þungur og sérstaklega núna síðasta árið. Það er nú samt þannig að þetta eru mikilvæg störf og stór partur af því að halda atvinnulífinu gangandi. Landslag rekstraraðila hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum er oft svolítið snúið og flókið. Kerfið þarf að vera einfalt og skilvirkt og aðstoða okkur en ekki öfugt.“

Brynja er spurð um draum varðandi stjórnmálin. Hvað með ráðherrastól ef allt gengur að óskum? Og ef svo er – hvaða ráðherrastól?

„Ég verð að segja að félags- og barnamálaráðherra heillar mikið þegar maður sér hvað það er hægt að gera mikið og hafa mikil áhrif eins og Ásmundur Einar hefur sýnt og sannað. Ég á eftir að læra mikið af honum.“

Konur og karlar. Konur í stjórnmálum. Er alltaf tekið jafnmikið mark á þeim og körlum?

„Já, ég held að það hafi breyst mikið síðustu ár og bara síðasta árið ef út í það er farið. Við erum komin með svo flottar, sterkar konur í stjórnmálin, frábærar fyrirmyndir fyrir okkur allar og okkur öll. Ég held að það heyri sögunni til að það sé eitthvað minna marktækt það sem kona segir. Auðvitað er það þannig að það eru ekki allir allra en að það sé háð kyni er frekar undantekningin en hitt í dag. Það hefur aðeins borið á aldursfordómum í pólitíkinni en aldur manneskju segir svo lítið til um hæfni hennar eða reynslu. Það er bara virkilega gaman að sjá hvað það eru margar konur komnar í pólitík og ungar konur. Varðandi klæðaburð þá held ég að það sé nú kannski aðeins að breytast og fólk sé meðvitað um að vera snyrtilegt til fara en um leið að vera það sjálft; fötin okkar og stíll segja svo margt um okkur og er bara ein tjáningarleið. Ég er mjög lítil hælamanneskja og fátt sem getur breytt því og ef við horfum á Kamala Harris þá er hún oftast í Converse-strigaskóm við sín föt.“

Brynja Dan Gunnarsdóttir vill gera þjóð sinni gagn.

Hún er spurð hvað Ísland sé í huga hennar.

Ég vil auðvitað gera betur þegar kemur að börnunum okkar. Það má alltaf bæta umhverfi þeirra og til dæmis barna sem búa við erfiðar aðstæður, barna sem verða fyrir missi, eftirfylgni með ættleiddum börnum til dæmis og börnum af erlendu bergi brotnu.

„Ísland er land öryggis og sjálfstæðis . Land jafnréttis og baráttu og á að vera það sem við erum að sjá svo skýrt núna. Við erum að berjast fyrir því að gera betur þegar kemur að ofbeldismálum. Ísland er land sterkra kvenna og kvenímynda sem ryðja brautina fyrir komandi kynslóðir. Ísland er land fegurðar hvort sem það er náttúran okkar eða fólkið okkar. Við stöndum saman þegar á reynir, erum ekki alltaf sammála en tökumst á og sættumst.“

Hver er draumur Brynju?

„Svona fyrir utan að allir lifi lengi og séu heilsuhraustir í kringum mig þá er það að reynsla mín nýtist öðrum. Að ég geti lagt eitthvað af mörkum til betra samfélags. Mér finnst það vera tilgangur minn og það sem ég vonast til þess að ná fram til dæmis með framboðinu. Að ég geti breytt einhverju til hins betra. Það er eitthvað sem ég hugsa út í daglega; hvað má betur fara og hvernig hægt sé framkvæma það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -