Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

„Ég skelf ekki á beinunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég viðurkenni að það er erfitt að takast á við svona stór öfl. Ég er þó hvergi banginn og mun ekki stressa mig út af þessu. Hver sem útkoman verður þá verð ég bara að sætta mig við hana,“ segir Jóhann Helgason, tónlistarmaður og lagahöfundur, sem staðið hefur í löngum málaferlum við bandaríska útgáfurisa.

Fyrsta plata Jóhanns kom út áður en sá sem þetta skrifar kom í heiminn þannig að vel lukkaður tónlistarferillinn spannar langt tímabil. Hann var hins vegar grýttur niður af sviðinu á fyrstu tónleikunum ungur að árum. Feimni tónlistarmannsins olli honum mikilli vanlíðan framan af og Jóhann faldi sig bak við loðfeld og sólgleraugu. Sögur um dópneyslu hans og samkynhneigð fylgdu honum lengi og særðu hann mjög.

Jóhann þakkar tíðum kúrekaleikjum í æsku í drullupollasveitinni Keflavík fyrir baráttuandann sem hefur gagnast honum í erfiðum málaferlum við risana í Los Angeles.

Pizzur í stað ýsunnar

Jóhann segist ekkert eiga nema góðar minningar úr æsku og segir það hafa verið algjört ævintýri að alast upp í Keflavík. Hann var langyngstur fimm systkina og nálægðin við bandaríska herinn var sveipuð ævintýraljóma. „Þarna var Keflavík bara dullupollasveit og mikið brallað. Við krakkarnir veiddum á bryggjunni, sóttum timbur í slippinn til að búa til boga og tálguðum mikið út. Ég man eftir öllu umstanginu í kringum herinn og það fannst mér alltaf mjög ævintýralegt og flott. Þar komst maður líka á veitingastaðina þar sem fengust hamborgarar og pizzur, það var breyting frá soðnu ýsunni heima,“ segir Jóhann brosandi.

Þegar Jóhann komst á kynþroskaskeiðið tóku erfiðleikarnir við. Unglingsárin voru erfiðasti tími sem lagahöfundurinn upplifði. „Mínar erfiðustu minningar eru frá því tímabili. Ég var mjög feiminn og viðkvæmur, ákaflega tilfinningaríkur, og það háði mér lengi vel.“

- Auglýsing -

Sögur um samkynhneigð

„Ég byrjaði eiginlega að drekka af því ég var svo feiminn og þegar voru komnar fullt af stelpum í kringum mig sá ég þetta sem leið til að vinna úr því. Hins vegar varð þessi feimni til þess að ég þorði lítið að tala við stelpurnar og þorði ekki að gera neitt þegar þær reyndu við mig,“ segir Jóhann sem segir að feimni hans við stelpurnar hafi líklega orðið til þess að sögur um samkynhneigð hafi farið á kreik. Þær hafi verið erfiðar sökum þess hvernig samfélagið var á þessum tíma og samkynhneigð varla viðurkennd.

„Þess vegna fóru af stað þessar sögur um að ég væri samkynhneigður. Þær voru andstyggilegri á þessum tíma þegar henni fylgdi enn svo mikil skömm. Ég reyndi hvað ég gat til að taka þetta ekki nærri mér en mér fannst þetta mjög erfitt og leiðinlegt. Það er svo auðvelt að koma svona sögum af stað og þetta loddi lengi við mig. Eftir á held ég þó að margir hafi skammast sín fyrir að bera út þessar sögur,“ segir Jóhann alvarlegur í bragði.

„Að verða frægur með þann galla að vera svona feiminn var hins vegar mikil áskorun og hér áður fyrr afþakkaði ég oft verkefni því mér fannst þetta svo óþæginlegt.“

- Auglýsing -

Gleraugun til varnar

Jóhann bendir á að það sé auðvelt að ýta undir sögusagnir og að þegar hann hafi verið að koma sér áfram í tónlistinni hafi margir haldið hann vera algjöran dóphaus. „Ég var á þessum tíma frekar skrautlegur til fara, í þykkbotna skóm og loðjökkum og var með sólgleraugu, sem var bara samasemmerki um að ég væri bara alltaf útúrdópaður. Gleraugun notaði ég sem vörn út af viðkvæmninni og feimninni,“ segir Jóhann.

Til að friða foreldra sína hóf Jóhann nám í Iðnskólanum en það entist aðeins í eitt ár því tónlistin átti einfaldlega hug hans allan. Þrátt fyrir feimnina hefur hann náð langt og telur það sér til happs að hafa kynnst eiginkonunni ungur að árum. „Ég átti mér fljótlega þennan draum að fara í tónlistina þó að foreldrar mínir hafi viljað að ég færi í meira nám. Mig langaði alveg í nám en það varð aldrei neitt úr því þar sem tónlistin togaði svo mikið í. Þegar ég byrjaði í tónlistinni var hreinlega ekki aftur snúið.“

Heltekinn af Bítlunum

Jóhann var 13 ára gamall þegar Bítlaæðið braust út sem varð til þess að hann sá ekkert annað en tónlistina. Fram að þeim tíma hafði hann aðeins notað gítarinn til að stríða heimilskettinum.

„Ég kunni ekkert á gítarinn en strauk oft strengina til að að framkvæma hljóð sem kötturinn þoldi ekki. Ég varð síðan alveg heltekinn af Bítlunum og í raun allri bresku bylgjunni á þessum tíma. Þarna fór ég að læra á gítarinn og í framhaldinu bæði að semja og syngja því mig langaði til að gera eitthvað í líkingu við þessa tónlist,“ segir Jóhann.

Fyrstu tvo áratugina á ferli Jóhanns átti hann stundum erfitt með að koma fram opinberlega vegna feimninnar. Um aldamótin síðustu tókst honum að yfirstíga hana. „Hér áður var ekkert auðvelt að koma fram. Ég hef hins vegar lært að höndla þetta betur og stýra því. Lífið væri mikið leiðinlegt ef maður þyrfti ekkert að tálga til hjá sér. Að verða frægur með þann galla að vera svona feiminn var hins vegar mikil áskorun og hér áður fyrr afþakkaði ég oft verkefni því mér fannst þetta svo óþæginlegt. Ég náði hins vegar að taka á þessu og í dag finnst mér þetta bara gaman.“

Grýttir niður á vellinum

Fyrsta skiptið sem Jóhann kom fram með hljómsveit var með hljómsveitinni Rofar árið 1964 í Pólarklúbbnum á Keflavíkurflugvelli sem var stór klúbbur fyrir óbreytta hermenn. Þeir tónleikar gengu reyndar ekkert sérstaklega vel, rifjar hann upp. „Að spila á flugvellinum var dálítið gaman því Kanarnir voru yfirleitt þakklátir fyrir tónlistina. Undantekningin voru fyrstu tónleikarnir mínir enda hermennirnir vanir góður hljómsveitum en flutningurinn hjá okkur var dáldið brotakenndur og textarnir ekki alveg á hreinu kannski. Við þurftum að forða okkur eftir nokkur lög þegar þeir fóru að grýta bjórdósum í okkur. Við létum þetta okkur að kenningu verða og æfðum mjög vel í kjölfarið,“ segir Jóhann.

Jóhann hefur átt langt og farsælt samstarf við tónlistarmanninn Magnús Þór Sigmundsson. Á unga aldri voru þeir búsettir í Keflavík og Njarðvík en á þeim tíma var erfiðara að komast á milli en er í dag. „Við byrjuðum á því að semja sitt í hvorulagi og hringdum svo í hvorn annan til að hlusta á lögin. Þannig byrjaði þetta og okkar samstarf hefur verið kjölfestan í ferlinum. Hjá mér var aldrei aðalmálið að koma sjálfur fram heldur meira að semja og fá lögin í hendurnar á öðrum.“

Símtalið kom á óvart

Þegar Jóhann var 22 ára gamall, árið 1972, fékk hann óvænt símtal frá stórtækum tónlistarútgefanda sem bauð honum og Magnúsi útgáfusamning. Hann hafði ekki haft hugmynd um að þá hafði tónlist þeirra félaga verið í dreifingu meðal ungs fólks á íslandi. „Einhvern veginn komst blaðamaður yfir kasettu með okkar efni og dreifði henni víða í skólum. Út frá þessu frétti síðan öflugur útgefandi af þessu og bauð okkur í kjölfarið útgáfusamning. Ég vissi í raun aldrei af þessari kasettu og því kom símtalið á óvart. Það var vissulega bæði mjög gaman og óvænt því þarna sjáum við að tónlistin okkar ætti erindi til annarra,“ segir Jóhann kátur.

Aðspurður um hvað honum þyki vænst um á tónlistarferlinum segir hann það vera að hafa auðnast að semja lög sem hafa fallið í kramið og lifað lengi. „Ég er fullur þakklætis fyrir þetta tækifæri að starfa við tónlist svona lengi. Það er alveg ómetanleg tilfinning því þetta er alls ekki sjálfsagt og ég sé það betur með árunum. Að hafa náð að semja lög sem flytjast milli kynslóða er mjög gaman og að vita til þess að lögin komi til með að lifa mig er líka mjög gaman.“

„Ég byrjaði eiginlega að drekka af því ég var svo feiminn og þegar voru komnar fullt af stelpum í kringum mig sá ég þetta sem leið til að vinna úr því,“ segir Jóhann.

Prófaði flest

Jóhann viðurkennir að á þessum árum hafi hann prófað flest þau vímuefni sem á markaðnum finnast og að það hversu illa hann kunni við áhrifin hafi bjargað honum frá því að ánetjast þeim. Áfengið reyndist honum erfiðast. „Ég prufaði jú flest þessi efni sem voru þarna en ég slapp sem betur fer við að láta það leiða mig lengra. Það voru allir í kringum mig með eitthvað í álpappír en ég var oftast bara inni í eldhúsi á meðan. Ég bara fílaði ekki þessi efni, hefði ég gert það hefði ég samt örugglega verið með,“ segir Jóhann og rifjar upp allar sögurnar sem um hann gengu á sínum tíma varðandi dópneyslu.

„Einhvern tímann var Maggi stoppaður af fíkniefnalöggunni sem dró hann til hliðar og fór að ræða við hann um hvað staðan á mér væri slæm. Ég væri hreinlega alltaf skakkur með sólgleraugun. Þá held ég hins vegar að Maggi hafi sjálfur verið nýbúinn að fá sér eina feita. Ég hef oftast náð að höndla áfengi en ég hef líka oft ekkert hagað mér sérstaklega vel með víni. Ég hef verið leiðinlegur og sýnt á mér agressívari hliðar en ég hefði viljað. Ég sé auðvitað eftir því enda enginn sómi af.“

Lítið í ísskápnum

Heimsókn Jóhanns til systra hans í Bandaríkjunum árið 1964 var mikið ævintýri og síðar reyndi hann að gerast umboðssali fyrir amerískt tyggigúmmi á Íslandi. Aðspurður um hvort hægt sé að lifa af tónlist hér á landi segir hann það ekki alltaf hafa verið auðvelt og það hafi ekki hjálpað til að eiginkonan hafi líka verið í listum. Þó að börn hans og barnabörn hafi sum erft tónlistargenin er Jóhann feginn því að þau hafi ekki farið út í bransann. „Það er hægt að lifa á tónlist ef þú ert með alla anga úti. Það komið mörg tímabil þar sem lítið var til í ískápnum og fulltrúinn í bankanum hefur skammað okkur hjónin að vera bæði í listum. Sú staðreynd að við erum bæði listafólk hefur hins vegar leyft okkur að kenna hvort öðru um að hafa ekki valið tekjuhærri starfsvettvang,“ segir Jóhann og brosir út í annað.

„Já, genin eru þarna. Fjölskyldan mín er auðvitað mesta gæfan. Fyrir utan tónlistina er ég ríkur maður í dag. Ég hef hvorki hvatt börnin né latt þau áfram í tónlistinni en ég vildi ekki ýta þeim út í bransann því hann er ekki auðveldur fyrir neinn. Að lifa á tónlistinni er þannig að stundum fiskast vel og stundum ekki. Hefði ég sjálfur átt að velja mér eitthvað annað hefði ég valið arkitektúr. Þar er maður líka að búa til einhver falleg form. Maður verður hins vegar að velja það sem hjartað kallar á og ég sé alls ekkert eftir því.“

Ekki mikill rappari

Jóhann hjólar mikið og þá kýs hann að hafa eldri tónlist í eyrunum frekar en nýrri verk. Engu að síður segir hann það magnað hvað mikið er til af góðri tónlist á Íslandi í dag. „Það er meira gamalt efni í tækinu hjá mér því sú tónlist fer algjörlega með mig á staðinn þar sem ég var staddur hverju sinni. Ég fylgist aðeins minna með því sem nýrra er en sonur minn hefur aðeins laumað rappinu að mér.

Það eru augljóslega miklir hæfileikar í landinu en ég get nú ekki sagt að ég sé mikill rappari samt. Hins vegar efast ég ekkert um að það er örugglega gaman að vera rappari,“ segir Jóhann.

Árið 2004 hóf Jóhann höfundaréttarstríð við norska lagahöfundinn Rolf Løvland. Hann kallar vinnubrögð Norðmannsins apasmíðar. „Þetta hefur verið mikill skóli fyrir mig og ég sá mig nauðbeygðan til að fara í þetta mál þar sem lagið var metið svo líkt mínu. Textinn er líka endurspeglun af textanum í Söknuði. Líkindin eru ótrúleg, bæði lag og texti, enda hefur hitt lagið ratað alveg sama veg inn á jarðarfarir og stórar minningarhátíðir.“

„Svona risar svífast einskis og lögfræðingar þeirra af svipuðum meiði.“

Réðst á risana

Frá árinu 2018 hefur orrustan verið við útgáfurisana Universal Music og Warner í Bandaríkjunum. Málinu var vísað frá nú í apríl og segir Jóhann vonbrigðin gífurleg. „Ég er dálítið brenndur. Niðurstaðan er vissulega vonbrigði og kom mér auðvitað á óvart. Ég er hins vegar alls ekkert hræddur því maður var alltaf meðvitaður um að hinn aðilinn gæti haft betur. Ég skelf ekki á beinunum þótt þessi fyrirtæki heiti Universal og Warner,“ segir Jóhann ákveðinn. Hann á von á því að málið taki allavega 1-2 ár til viðbótar meðan áfrýjunin verður tekin fyrir.

„Allan tímann gerði ég mér grein fyrir því að móttaðilinn væri sterkur og myndi beita öllum tiltækum brögðum. Svona risar svífast einskis og lögfræðingar þeirra af svipuðum meiði, þeir fá borgað fyrir að verjast með hvað ráðum sem er og málstaðurinn skiptir engu. Þessum risum er alveg nákvæmlega sama svo fremi sem að lagið hafi gert það gott fyrir þá.“

Gaman að berjast

Hvernig sem höfundaréttarmálið endar segist Jóhann alls ekki sjá eftir því að hafa farið í mál. Til að verja sig persónulega var málið höfðað af bandarísku fyrirtæki sem hann stofnaði en hann telur það samt ekki útilokað að útgáfurisarnir sækist eftir peningum hans hér heima fari svo að hann tapi. „Það er auðvitað ekkert gaman að standa í þessum málaferlum, þetta er eitthvað sem ég bað aldrei um og hefði alveg viljað vera laus við. Mér finnst málið bara þess virði og hefði örugglega nagað mig í handabökin fyrir að hafa ekki farið af stað og látið aurana stoppa mig,“ segir Jóhann.

„Sem betur fer finnst mér ekkert leiðinlegt að berjast, í æsku var ég alltaf í einhverjum kúrekaleikjum og skylmingum. Núna þarf dómarinn að ákveða hvort ég eigi að borga útgáfufyrirtækjunum þennan pening.“

Sama um frægðina

Þó að málið í Bandaríkjunum hafi reynst erfitt er Jóhann afar þakklátur stuðningnum sem hann hefur fundið fyrir á Íslandi. Sjálfur gerir hann hins vegar lítið úr því að vera poppstjarna. „Fólk hefur mikið verið að lýsa yfir stuðningi sínum við mig úti á götu eða úti í búð vegna málsins. Fólk sem ég þekki ekkert og mér hefur þótt mjög jákvætt að finna þann stuðning. Það hefur virkilega yljað mér um hjartarætur,“ segir Jóhann.

„Ég er ekki mikið fyrir athyglina og sækist ekki eftir henni. Hún virðist samt alltaf elta mann án þess að maður fái við það ráðið. Ætli það sé ekki þannig að ef maður gerir eitthvað rétt þá kallar það á athygli. Ég tek það ekkert sérstaklega alvarlega að vera frægur, mér finnst það ekkert merkilegra en hvað annað.“

Deilan við risana í hnotskurn:

Árið 1977 kom út lagið Söknuður eftir Jóhann í flutningi Vilhjálms Vilhjálmssonar. Árið 2004 kom út lagið You Raise Me Up eftir Norðmanninn Rolf Løvland í flutningi Josh Groban. Bæði lögin hafa náð miklum vinsældum. Jóhann fór í mál við alþjóðlegu útgáfurisana Universal Music og Warner þar sem hann taldi síðara lagið vera stolið og líktist lagi hans, Söknuði. Málaferlin hafa lengi staðið yfir en varnaraðilar lögðu áherslu á að í raun væru bæði lögin byggð á eldra lagi, laginu Oh Danny Boy sem samið var af Frederic Weatherly árið 1913. Málinu var nýverið vísað frá dómi í Bandaríkjunum og lögmenn risanna hafa farið fram á tæpar 50 milljónir frá Jóhanni vegna tilhæfulausra ásakana um lagastuld. Íslenski lagahöfundurinn hefur áfrýjað og lagastuldardeilunni er því ekki alveg lokið enn.

Lestu nánar um málið í Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -