Laugardagur 18. janúar, 2025
0.3 C
Reykjavik

Eik fjármagnaði námið sitt með þjórfé: ,,Mætti með feitt umslag…“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

,,Ég borgaði námið mitt með öllu tips-inu sem ég fékk á Hard Rock,“ segir Eik Arnarsdóttir, margfaldur meistari í hundasnyrtingum og eigandi hundasnyrtistofunnar Sassy Dogs í Gautaborg. Eik flutti til Svíþjóðar fyrir tæpum tíu árum síðan, um leið og 18 ára afmælisdagurinn rann upp. Ákvað hún að segja engum frá fyrirhugðum flutningum heldur sagðist hún einungis ætla að heimsækja vinkonu sína þar. ,,Mig vantaði svo að flýja stað og stund. Þannig ég stökk liggur við bara upp í flugvél með nokkrar nærbuxur í bakpoka og tíu þúsund kall í vasanum.“ segir hún kímin.

Á sófanum hjá vinum og vandamönnum

Fyrst um sinn bjó hún í raun hvergi. ,,Ég fékk að gista á sófanum hjá hinum og þessum þar til ég fékk svo loksins leigt herbergi. Ég er búin að flytja svona hundrað sinnum síðan ég flutti hingað en það kom aldrei til greina að fara aftur heim til Íslands.“ Það var mikið gæfuspor fyrir Eik að fá vinnu sem þjónustustúlka á veitingastaðnum Hard Rock tveimur dögum eftir að hún lenti í Svíþjóð. ,,Ég kunni ekki staf í  sænsku eða neitt og var engan veginn að búast við því að fá vinnu svona fljótt,“ segir hún. Hún segir það jafnframt hafa bjargað öllu að hafa fengið starf með jafn skjótum hætti, þá aðallega vegna þjórfé menningarinnar sem ríkir í Svíþjóð. ,,Ég fékk pening strax! Því meira sem ég vann því meira tips gat ég fengið. Ég sá það frekar fljótt að þannig gæti ég sett meira og meira fyrir.“

Nám í hundasnyrtingu

,,Ég vissi að ég ætlaði ekki að vinna á Hard Rock alla ævi og ákvað á einhverjum tímapunkti að skrá mig í hundasnyrtinám og vann meðfram náminu. Hundar hafa alltaf verið stór partur af mér. Ég og hundarnir skiljum hvort annað einhvern veginn,“ segir Eik sannfærandi. Lærimeistari Eikar sá strax hvaða hæfileikum hún bjó yfir og fyrr en varði var Eik boðið starf á hundasnyrtistofu. ,,Ég þáði það auðvitað með þökkum og vann á hundasnyrtistofunni á daginn og tók vaktir á Hard Rock á kvöldin og um helgar. Maður vann í rauninni allan sólarhringinn,“ segir hún. Þessi mikli dugnaður bjargaði Eik, því hún gat greitt fyrir námið sitt með peningunum sem hún hafði þjénað í gegnum þjórfé á veitingastaðnum. ,,Ég mætti bara með feitt umslag og borgaði fyrir námið, það var góð tilfinning að geta gert þetta sjálf,“ segir Eik, stolt af sjálfri sér. Stuttu síðar kveður hún þjónastarfið á Hard Rock. Hundasnyrtirinn átti hug hennar allan. ,,Ég byrja á fullu á hundasnyrtistofunni, fæ mikið af nýjum kúnnum og svona. Svo gerist það að eigandi stofunnar þarf skyndilega að fara í veikindaleyfi og þá þurfti ég bara að gjöra svo vel að standa mig,“ segir hún, og þurfti á þeim tímapunkti að sjá alfarið um stofuna upp á sitt einsdæmi um nokkurt skeið. ,,Mér er bara grýtt í djúpu laugina þarna, tvítugri stelpu. En vá, hvað ég lærði mikið.“

Hundar skipa stóran sess í lífi Eikar. Mynd / Tova Maria Rud.

Keppnir víða um heim með sænska landsliðinu í hundasnyrtingu

- Auglýsing -

Þegar þarna var við sögu komið ákvað Eik einnig að taka þátt í sinni fyrstu keppni í hundasnyrtingu. Þar kom hún, sá og sigraði í sínum flokki. ,,Ég vann í byrjendahópnum með kóngapúðla og fékk þar með delluna fyrir því að keppa. Ég er keppnismanneskja inn við beinið.“ Eik hefur keppt á hundasnyrtimótum víðs vegar um heiminn og oftar en ekki unnið til verðlauna fyrir verk sín. ,,Ég hef til dæmis farið til Írlands, Noregs, Belgíu og svo auðvitað keppt hér innanlands í Svíþjóð. Ég fer ekki á mót til þess að tapa. Mér finnst alltaf jafn erfitt að keppa á mótum. Ég eiginlega hata það á sama tíma og ég elska það. Skil ekki afhverju ég geri mér þetta aftur, og aftur, og aftur. Ég held að ég elski ég að ögra sjálfri mér,“ segir hún ákveðin. Eik hefur unnið til fjölda verðlauna og er Svíþjóða- og Noregsmeistari í hundasnyrtingu í púðluflokki og einnig yfir alla flokka fyrir árið 2019. En sökum Covid heimsfaraldursins þá var mótið blásið af árið 2020 og einnig heimsmeistaramótið sem átti að fara fram í Frakklandi. Á sama tíma var hún valin hundasnyrtir ársins í Svíþjóð. ,,Það er erfitt að keppa á svona mótum. Hafa einhvern dómara hangandi yfir sér allan tímann og dæma það sem maður er að gera. Svo eru keppnisaðstöðurnar jafn misjafnar og þær eru margar, plássið og ljósið og allt þetta. Þetta getur allt skipt mjög miklu máli.“

Þrátt fyrir þessar blendnu tilfinningar sem Eik hefur fyrir keppnunum þá er hún ein af sex liðskonum sænska landsliðsins í hundasnyrtingum. ,,Ég sver það, ég skil ekkert hvernig stendur á því að ég sé í landsliðinu. Ég á það til að brjóta mig sjálfa niður og finnast það sem ég geri ekki nógu gott. Það er það fyndna við það. En af einhverri ástæðu er ég á þessum stað – það hlýtur að vera,“ segir Eik og hlær.

Stína fína með feldinn í lagi. Mynd / Tova Maria Rud.

Kaup á stofu

- Auglýsing -

Fyrir um fimm árum síðan ákvað Eik að festa kaup á stofunni sem hún hafði starfað hjá. ,,Eigandi stofunnar hafði ákveðið að hætta þannig ég sá tækifæri í því,“ segir Eik sem á og rekur nú eina vinsælustu hundasnyrtisofuna í Gautaborg í Svíþjóð. Fyrst um sinn fann hún fyrir miklum fordómum, bæði hvað varðar kyn hennar og aldur. ,,Það vill enginn lána lítilli stelpu pening fyrir þessari glötuðu hugmynd. Ég þurfti svoleiðis að höstla mig í gegnum það að fá lán,“ segir Eik og hlær. Hún segist hafa þurft að ganga á milli fjármálafyrirtækja og hafi alltaf komið að lokuðum dyrum hvert sem hún leitaði. Það var þó einn aðili sem svaraði kallinu sem varð svo til þess að Eik gat loksins fest kaup á stofunni. ,,Ég fann einhvern skrýtinn mann sem átti eitthvað lítið lánafyrirtæki sem var til í að lána mér pening. En það var bara af því að ég var frá Íslandi og hann elskaði íslenska hesta – ég nýtti mér það.“

Í dag starfa fjórir hundasnyrtar hjá Sassy Dogs og segir Eik stofuna rekna með hagnaði. ,,Við erum allar fullbókaðar alla daga og getum ekki tekið inn nýja kúnna, þannig það er nóg að gera,“ segir hún, sannfærandi. ,,Ég er með góða verðskrá og fagmenn í vinnu og það skapar gott orðspor. Svo legg ég líka mikið upp úr því að reka stofuna með gleði og traust að vopni, bæði fyrir starfsfólkið mitt og viðskiptavinina. Það hefur gert mér og rekstrinum gott.“

Eik hefur unnið til fjölda verðlauna eins og sjá má. Mynd / Tova Maria Rud.

Aukin tækifæri í heimsfaraldrinum

Eik hefur ekki setið auðum höndum síðastliðið ár. Í miðjum heimsfaraldri sá hún tækifæri í því að setja á laggirnar verslun sem selur gæðavottaðar vörur fyrir hunda. ,,Það hefur verið mikið að gera hjá okkur í Covid. Ég held að það sé vegna þess að fólk er meira heima og hefur haft tíma til þess að pæla í dýrunum sínum. Ég ákvað svo að nýta tímann og láta verða að hugmyndinni um að opna búð með ýmsum vörum fyrir hunda, eins og föt og svona. Mér fannst vöntun á svona verslun hér í Gautaborg og þetta smellpassar við ,,concept-ið“ mitt.“ Aðspurð segist Eik ekki vera á leiðinni heim til Íslands á næstu misserum. „Nei, ég held að það sé ekki að fara gerast strax. Kærastinn minn er sænskur og hér höfum við komið okkur vel fyrir. Svo er ég líka svolítið stjórnsöm. Held ég myndi ekki geta verið á Íslandi og látið einhvern annan stjórna á stofunni sem ég hef lagt jafn mikla vinnu í að eignast og gera að minni. En maður veit aldrei – aldrei að segja aldrei,“ segir þessi hörkuduglegi hundasnyrtir að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -