Laugardagur 28. desember, 2024
-1.4 C
Reykjavik

Elísa upplifði áfall þegar framkalla þurfti fæðingu: „Tók náttúrlega mikið á andlega og líkamlega“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta tók náttúrlega mikið á andlega og líkamlega; það var rosalegt fyrir líkamann að fara í gegnum þetta. Öll starfsemi líkama nýbakaðrar móður byrjaði þótt maður hafi misst þar sem meðgangan var hálfnuð,“ segir Elísa Katrín Guðmundsdóttir um sína fyrstu meðgöngu árið 2016. Þar sem fæðingargalli kom í ljós var ákveðið að framkalla fæðingu. „Hormónin voru náttúrlega á fullu og þetta sat í manni í langan tíma. Maður reynir bara að lifa með þessu. Það er í rauninni ekkert sem maður getur gert. Við bara unnum í okkar málum sjálf.“

Elísa og eiginmaður hennar, Gísli Ólafur, eignuðust svo son árið 2019. Hún segir að fyrri reynsla hennar hafi haft áhrif á andlega líðan hennar á þeirri meðgöngu sem og nýjustu meðgöngunni, en hjónin eignuðust annan son í byrjun desember í fyrra. „Ég hafði miklar áhyggjur á báðum meðgöngunum; það voru alltaf þessar undirliggjandi áhyggjur um að eitthvað myndi gerast þótt að allt liti eðlilega út og allt gengi vel.“

Hjónin kusu heimafæðingu í fyrra og voru það ljósmæður á vegum Lífsins – heimafæðingar sem tóku á móti yngri syni hjónanna. Elísa segir að nokkrar ástæður liggi að baki því að þau völdu þennan kost. Í fyrsta lagi var það erfið reynsla af fyrstu fæðingunni, í öðru lagi hröð og stressandi fæðing þegar þau eignuðust eldri son sinn og svo spilaði heimsfaraldurinn inn í, en vegna hans hafa margir feður ekki mátt mæta í skoðanir og einungis fengið að vera viðstaddir virka fæðingu. Þá vildu hjónin einfaldlega hafa meiri ró og næði í fæðingunni og hafa stjórn á hlutunum og svo nefnir Elísa að ekki hefði þurft að vekja son þeirra ef hún hefði þurft að fara á sjúkrahús um miðja nótt.

Elísa Katrín Guðmundsdóttir
Mynd: Harpa Ósk.

 

Ýmislegt getur komið upp á í fæðingum og segir Elísa, sem býr á Suðurnesjum, að þar sé HSS í boði fyrir fæðandi konur og að þar séu engin inngrip gerð í fæðingum þannig að munurinn sé að konum sem fæða heima sé ekki boðið upp á glaðloft. „Ef það þyrfti inngrip þá þyrfti konan að fara með sjúkrabíl til Reykjavíkur og það hefði ekki tekið lengri tíma að aka mér í sjúkrabíl frá heimili mínu til Reykjavíkur. Við vorum með allt undirbúið ef ég þyrfti að fara á sjúkrahús; við vorum með tilbúnar töskur.“

 

- Auglýsing -

Tilfinningarússíbani

Elísa segir að ljósmæðurnar hjá Lífinu – heimafæðingum bjóði upp á heimaþjónustu síðustu vikur meðgöngunnar og þegar hún svo fékk hríðir komu tvær til að skoða hana en fóru svo en komu aftur þegar fæðingarferlið var lengra komið.

„Þegar ég átti á sjúkrahúsi var svo mikið um að ljósmæður væru að kíkja á mig og ég var ekki alltaf upplögð í það að það væri endalaust margt fólk að koma til mín. Ég fékk hins vegar að vera í friði heima og kom önnur ljósmóðirin á undan hinni í seinna skiptið og svo sat hún og drakk kaffi með manninum mínum og ljósmyndara sem við fengum til að taka myndir þennan dag eða þangað til ég fór í baðið þar sem ég átti barnið. Við fengum að hafa þetta eins og við vildum. Við gátum alveg verið í rólegheitunum. Maðurinn minn hefði mátt koma ofan í baðið ef hann hefði viljað.“

- Auglýsing -

Eldri sonur hjónanna fékk að fylgjast með hluta tímans en hann var þó ekki viðstaddur þegar litli bróðir hans fæddist. Hann fékk þó að koma inn fljótlega eftir það.

Elísa Katrín Guðmundsdóttir
Mynd: Harpa Ósk.

„Hann fékk að koma ofan í fyrst til að byrja með eða þar til ég byrjaði að finna fyrir rembingi, en amma hans fór síðan með hann inn í herbergið hans en hann kom aftur inn þegar litli bróðir hans var fæddur. Þetta var tilfinningarússíbani fyrir hann. Okkur fannst þetta hafa góð áhrif á hann. Á meðan hann var ofan í lauginni þá var hann alltaf að strjúka bakið á mér og þegar maðurinn minn gerði það sama þá ýtti hann á hönd pabba síns, af því að hann hélt að hann væri að meiða mig. Svo fór hann að hágráta þegar hann kom inn eftir að bróðir hans fæddist. Hann fann náttúrlega fyrir öllum tilfinningunum sem voru í gangi; hann hágrét og þurfti að jafna sig í smátíma áður en hann fékk að koma til mín. Þá fékk hann að sjá litla bróður sinn og snerta hann. Þá áttaði hann sig á því hvað var að ske.“

 

Meiri stjórn

Hvað með lærdóm af því að hafa átt heima?

„Maður getur meira en maður heldur. Maður hefur á meðgöngu yfirleitt mestar áhyggjur af verkjunum í fæðingu en þegar ég var búin að ákveða að eiga heima þá fann ég að ég varð miklu rólegri og fór undirmeðvitundin að undirbúa sig. Í fyrri fæðingum var ég með glaðloftið á fullu en núna andaði ég mig léttilega í gegnum þetta og var róleg í staðinn fyrir að vera í panikki þegar hríðirnar voru. Svo getur maður stjórnað svo miklu sjálfur í heimafæðingu. Það er hægt að undirbúa sig, maður getur verið með kertaljós og hlustað á tónlist. Svo hef ég verið treg að hringja bjöllunni þegar ég hef verið á sjúkrahúsi eftir fyrri fæðingarnar tvær, en núna var ég óhrædd við að spyrja. Maður færi meiri þjónustu í heimafæðingu og hefur meiri stjórn.“

Elísa Katrín Guðmundsdóttir
Mynd: Harpa Ósk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -