„Ég hef alltaf staðið við allar mínar skuldbindingar og aldrei skuldað neinum neitt. En núna er ég í þeirri stöðu að brotna saman á skrifstofu Tryggingarstofnunar og þurfa að grátbiðja um hjálp. Ég upplifi ekkert nema höfnun frá kerfinu og finnst eins og barnið mitt sé ekki velkomið inn í þetta samfélag,“ segir tveggja barna móðir í viðtali við Mannlíf.
Hrædd við kerfið
Kvölviðtal Mannlífs er með nokkuð öðru sniði þar sem viðmælandi kemur ekki fram undir nafni. Upphaflega ætlað konan að koma fram undir nafni en óttaðist mjög neikvæðar afleiðingar, við að „kerfið” myndi refsa henni á einhvern hátt fyrir að segja sínu sögu. Hún sagði blaðamanni rétt fyrir birtingu viðtalsins að hún væri hrædd og upplifði sig varnarlausa gagnvart kerfinu. Hún þorði ekki að fara á móti því með birtingu viðtals.
Sama kerfi og hefur framtíð hennar í höndum sér.
Konan var miður sín og sagði sér afar erfitt að opinbera mál sín, ekki síst fjölskyldu sinnar vegna en féllst þó á að koma fram nafnlaust. „Það er kominn tími til að ræða þetta“.
„Eitt veit ég og það er að það sem ég hef þurft að díla við og græja er aldeilis ekki að hjálpa mér á vinnumarkaðinn aftur, fjær honum ef eitthvað er. Það er búið að vera sorglegt og óendanlega erfitt að eiga við þetta kerfi. Ég lendi á vegg hvert sem ég er send. Ég fæ sting í hjartað við að tala um það.
Barnið ekki velkomið
Forsaga málsins er að konan var búin að vera í endurhæfingu frá 2018 vegna stoðkerfisverkja, kvíða og áfallastreituröskunar. Hún varð svo ófrísk árið 2020. „Öll meðgangan gekk illa, ég fékk mikla grindargliðnun og var verkjuð alla meðgönguna. Þess utan var Covid í hámarki og maðurinn minn missti vinnuna”.
Hún segir tilheyrandi tekjutap og kvíða hafa tekið mjög á sig. Hún eignast drenginn sinn í október 2020 og sama mánuð útskrifaði VIRK hana úr endurhæfingu með þeim orðum að ekkert gengi upp. „Það helltist yfir mig sú tilfinning að barnið væri ekki velkomið í heiminn og það væri verið að refsa mér fyrir að eignast hann”.
VIRK gerir kröfu um um daggæslupláss sem konan segir vandfundið sínu bæjarfélagi auk þess sem það kosti 75 þúsund krónur á mánuði.
Viðkvæm og varnarlaus
Hún fékk greiðslu endurhæfingalífeyris frá Tryggingarstofnun 1. október en var hafnað í nóvember á þeim forsendum að það vantaði meiri „félagslega þætti“.
„Gott og vel en hvar átti ég að sækja um námskeið í miðju Covid ástandi? Það var allt lokað. En ég gerði það sem ég gat, stundaði mína endurhæfingu og fór í reglulega í viðtöl til sálfræðings og sundleikfimi sem ég greiddi sjálf að fullu“.
„Þetta var korter í jól, þarna var ég með nýfætt barn, í henglum eftir fæðinguna, maðurinn minn atvinnulaus og ég, tekjulaus, í því að hringja og senda endalaus gögn út um allt. Ég var viðkvæm og varnarlaus, skammaðist mín og vildi ekki tala um þetta við neinn, ekki einu sinni manninn minn. En ég hef þagað of lengi.
Ég veit til þess að það eru margir í þessari stöðu og örugglega einhverjir sem eru verr staddir en ég“.
Vill enga ölmusu
Konan hefur alltaf stefnt á að fara aftur á vinnumarkaðinn og unnið að því hörðum höndum. „Ég er ekki að kvarta eða biðja um ölmusu, sem ég myndi aldrei þiggja. Ég er einfaldlega að segja að ég er í óviðráðanlegri aðstöðu núna en fæ hvergi hjálp til að komast úr henni”.
Í janúar á þessu ári óskaði hún eftir fæðingastyrk, sem er 80 þúsund krónur á mánuði. Það var það eina sem hún hefði rétt á. Hún átti ekki rétt á fæðingarorlofi þar sem hún hafi verið á endurhæfingarlífeyri. Þetta er því þriðji tekjulausi mánuðurinn frá fæðingu barnsins.
„Ég var í fullri vinnu þegar ég átti eldra barnið mitt og það gekk eins og draumur, ég fékk að vera með barninu mínu í 9 mánuði á sex mánaða fæðingarorlofi. En ef þú eignast barn á meðan þú ert í endurhæfingu eru allar bjargir bannaðar. Þetta er engin óskastaða”. Hún segir að eins og alla mæður hafi hún verið skimuð fyrir fæðingarþunglyndi. „Ég get ekki ímyndað mér að ég hafi skorað vel þar”.
Konan átti aðeins rétt á einum mánuði afturvirkt og fékk 160 þúsund krónur greiddar fyrir desember og janúar. „En ekki nóg með það. Það var tekinn 100% skattur af þessari veglegu upphæð svo ég fékk heilar 110 þúsund krónur”.
Of tekjuhá fyrir aðstoð
Hún leitaði til síns bæjarfélags sem hafnaði beiðni um aðstoð á þeim forsendum að fjölskyldan væri of tekjuhá. Þá voru einu tekjur fjölskyldunnar atvinnuleysisbætur mannsins hennar, 230 þúsund krónur, sem voru ætlaðar fjögurra manna fjölskyldu.
Konan vildi þó ekki gefast upp og skráði sig í skóla sem kallaði á að hún færi frá þriggja mánaða barni sínu tvö kvöld í viku og annan hvern laugardag. Með því uppfyllti hún meðal annars kröfu Tryggingastofnunar um „félagslega þætti“. Hún segir það hins vegar hafa verið súra stöðu að þurfa að minnka brjóstagjöfina til að geta sinnt náminu og svo fór að hún missti mjólkina. Hún telur að streita hafi einnig átt sinn þátt í því.
Núna þegar skólanum er lokið veit hún ekki hvert skal leita. Hún leitaði til VIRK sem ráðlagði henni að fara á vinnumarkað. Sálfræðingur mat það hins vegar svo að hún væri ekki vinnufær auk þess sem læknirinn hennar synjaði henni um vinnuhæfnisvottorð á sömu forsendum.
Veit ekki hvað tekur við
Konan segir vonda tilfinningu fylgja því að fá stöðugt hafnanir og jafnvel skammir frá kerfinu. „Nú er ég aftur að sækja um endurhæfingarlífeyri og læknirinn minn gerði ítarlega endurhæfingaráætlun. Það gleymdist aftur á móti að segja mér að læknirinn getur ekki sent þessi gögn rafrænt til Tryggingarstofnunar, sem ég gerði ráð fyrir. Ég þurfti víst að sækja þau sjálf sem þýddi að mánaðarmót voru liðin og þar missti ég heilan mánuð sem ég hefði getað nýtt. Það tekur einhverjar sex vikur að vinna úr gögnunum, núna er allir dottnir í sumarfrí, og ég verð því tekjulaus þennan mánuðinn og hugsanlega þann næsta“.
Konan segist hreinlega ekki vita hvað taki við en þakki þó fyrir að maðurinn hennar sé komin með vinnu eftir fjórtán mánaða atvinnuleysi. Hún er óvinnufær að mati lækna og sálfræðinga. Ef hún væri það heppin að komast aftur að hjá VIRK er gerð krafa um dagskrá sem kallar á dagvist fyrir barnið og hún veit ekkert hvenær Tryggingarstofnun ákvarðar um enduhæfingalífeyri. ,,Þetta er óþægileg staða að vera í. Ég vil ekki þurfa að nýta barnabæturnar í að lifa, börnin eiga rétt á því fé. Ég er að reyna af krafti að komast aftur á vinnumarkaðinn og sinni endurhæfingunni á eigin kostnað en það er enginn til að grípa mann í þessari stöðu.
Þetta er ekki boðlegt og maður er endalaust hissa yfir þessum hringjum sem maður er látinn hlaupa,“ segir móðirin, sem kallar eftir breytingu á viðhorfi og verklagi innan kerfisins.