Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Erla Björg, ritstjóri Stöðvar 2, varð föðurlaus 10 ára: „Ég hætti að treysta á fegurðina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er ný áskorun og mikill heiður. Ég er mjög stolt af hópnum á fréttastofunni sem ég hef unnið með síðustu ár, bæði við hlið hans og sem fréttastjóri. Ég veit hvaða hæfileikar eru í hverju horni og hlakka til að næra þá. Ég lít svo á að ég sé í þessari stöðu til að leiða hópinn næstu skref og þar er „leiða“ lykilorð frekar en að stjórna,“ segir Erla Björg Gunnarsdóttir var ráðin ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar þegar Þóri Guðmundssyni var sagt upp á dögunum. Hún segir að Þórir hafi verið óskaplega góður stjórnandi sem komið hafi inn á fréttastofuna á hárréttum tíma.

„Hann fylgdi fréttastofunni úr Skaftahlíðinni og í samruna við Sýn. Hann var akkúrat rétti maðurinn í það ferli. Það er þannig í fjölmiðlum, sem og öðrum brönsum, að stjórnendur sem taka svona stórt verkefni að sér gera sér yfirleitt grein fyrir því að þetta er ákveðinn kafli sem þeir muni skrifa og síðan tekur annar við þegar þeim kafla er lokið til að fara inn í næsta kafla. Og við erum bara á þeim kaflaskilum. Ég er mjög meðvituð um að núna hafi ég ákveðinn tíma til að skrifa minn kafla. Það skiptir mig miklu máli að koma þeim kafla frá mér eins vel og fallega og Þórir gerði. Þá verð ég sátt. En auðvitað verður minn kafli öðruvísi en Þóris enda erum við ansi ólík þótt við náum mjög vel saman.“

Erla Björg er að setja sig inn í nýja starfið.

„Ég lít á þessa fréttastofu sem mjög öflugt afl. Við erum með útvarp, sjónvarp og vef með óteljandi tækifærum. Stöð 2 hefur þróað með sér ákveðinn karakter í gegnum tíðina sem mig langar að undirstrika, mála sterkari litum. Við erum fljót, örugg og fagleg. Við náum að grípa mál hratt, fara í beina útsendingu hratt – á öllum miðlum – og fólkið á gólfinu er fumlaust og faglegt. Margir bera saman kvöldfréttatíma Stöðvar 2 og RÚV en ég er ekki upptekin af slíkum samanburði. RÚV er ríkisútvarp og er rekið af almannafé. Þau hafa ákveðnum skyldum að gegna og það er mjög ákveðið form á fréttatímanum þeirra. Við getum sprengt formið upp, prófað nýjar leiðir og fjallað um mál sem passa ekki endilega alltaf inn í hefðbundna fréttaboxið. Þannig færum við áskrifendum okkar traustar fréttir og um leið gott sjónvarp.“

Ég er mjög meðvituð um að núna hafi ég ákveðinn tíma til að skrifa minn kafla.

Erla Björg er þriggja barna móðir. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt, með diplóma í blaða- og fréttamennsku og lauk meistaranámi í Árósum í menningar- og fagurfræðum. Áður en hún hóf störf á fjölmiðlum, 35 ára gömul, hafði hún unnið sem verkefnastjóri í innflytjendamálum hjá Rauða krossinum og hún var síðar kynningarstjóri Forlagsins.

„Það besta sem ég veit er að fara upp á fjöll. Það er mín besta slökun og núvitund að ganga á fjöll í góðum hópi.“

- Auglýsing -

Hún fór í grunnbúðir Everst fyrir nokkrum árum.

„Það að ganga í grunnbúðir Everest er ævintýralegasta lífsreynsla sem ég hef upplifað. Það var áskorun sem ég bjóst ekki endilega við að ég myndi nokkurn tímann taka. Mesta áskorunin var þó andleg. Að halda áfram á hverjum degi. Við vorum 11 daga á leiðinni upp í grunnbúðirnar. Við sváfum í köldum og sóðalegum skálum og borðuðum sama bragðlausa matinn í öll mál dag eftir dag. Núðlur, kartöflur og hrísgrjón. Það kom mér á óvart að geta haldið í andlega styrkinn en á hverjum morgni vaknaði ég, og hafði aldrei sofið mikið um nóttina, saug upp í nefið og hélt áfram glöð í bragði. Mér leið vel allan tímann. Þetta var andleg þrekraun sem ég er mjög stolt að hafa komist yfir á æðruleysinu í raun og veru.“

 

- Auglýsing -

Erla Björg Gunnarsdóttir

 

Þetta var andleg þrekraun sem ég er mjög stolt að hafa komist yfir á æðruleysinu í raun og veru.

 

Skuggahliðin

Segja má að skuggi hafi lagst yfir líf Erlu Bjargar þegar hún missti föður sinn þegar hún var aðeins 10 ára en hann lést á mjög sviplegan hátt. „Frá því ég var 10 ára til 25 ára aldurs þá fór ég í meira en tíu jarðarfarir hjá nánum aðilum. Það er erfitt að kveðja svona marga ástvini á svo stuttum tíma og svona ungur. Þetta var kafli í lífi fjölskyldunnar þar sem hvert áfallið reið yfir á fætur öðru. Þessi missir kenndi mér á mjög erfiðan hátt að allt geti breyst á svipstundu og það brýtur niður traustið í manni.

ég hef ekki drukkið áfengi í sex ár

Þannig að ég var ansi ung þegar ég hætti að treysta á fegurðina og hamingjuna. Maður getur nefnilega orðið ansi kaldhæðinn þegar traustið er farið og jafnvel hrokafullur út í lífið. Ég var svolítið hörð; tók lífið á hnefanum út af því að ég var vön því að lífið væri barátta og maður bara harkaði af sér. Það getur verið hættulega gott að fela sig í myrkrinu og það er vörn fólgin í því að mæta lífinu með kaldhæðni, hroka og hörku. Að lokum brotnar eitthvað í manni og þegar það gerðist þá loksins vann ég almennilega úr þessu. En fyrst þurfti ég að hætta að drekka áfengi, til þess að hætta að flýja í það, og ég hef ekki drukkið áfengi í sex ár. Um leið hætti ég að fela mig í myrkrinu og horfðist í augu við alls konar í lífinu, mistök og missi, og lærði mildi gagnvart sjálfri mér og öðru fólki. Og auðmýkt. Helling af auðmýkt. Smátt og smátt fór ég að trúa og treysta á það fallega í lífinu. Þannig að þetta var sáttaferli sem ég fór í gegnum, sem ég hefði ekki getað gert án þess að hætta að drekka, og það hefur fært mér milljón gjafir. Falleg samskipti, nánari tengsl, heiðarleika og meiri einlægni. Þetta eru eiginleikar sem nýtast mér mjög vel í starfinu.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -