Fimmtudagur 16. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Felix í einangrun í Rotterdam: „Mér finnst úkraínska lagið vera alveg geggjað“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óvíst er hvort Daði og Gagnamagnið stígi á stokk í undankeppni Eurovision á fimmtudagskvöld þar sem allur íslenski hópurinn er í sóttkví vegna þess að einn Íslendinganna í liðinu er með Covid-19; þó ekki neinn í hljómsveitinni sjálfri. Annars yrði spiluð upptaka af æfingu síðastliðinn fimmtudag og hún notuð í keppninni. „Þetta var frábær æfing. Þau voru stórkostleg á þeirri æfingu. Í augnablikinu stefnum við þó ákveðið að því að koma þeim á svið“ segir Felix Bergsson, fararstjóri hópsins. 

Margir Íslendingar bíða spenntir eftir undankeppni Eurovision-söngvakeppninnar á fimmtudagskvöld en babb hefur komið í bátinn þar sem einn úr íslenska hópnum greindist í gær með Covid-19; þó ekki neinn úr hljómsveitinni. Það á því eftir að koma í ljós hvort Daði og Gagnamagnið munu stíga á stokk á fimmtudagskvöld eða hvort flutt verður upptaka sem tekin var á æfingu síðastliðinn fimmtudag. Allir í hópnum voru bólusettir í byrjun maí en það tekur jú bóluefnið nokkrar vikur að virka frá því að viðkomandi er bólusettur. Sá sem er smitaður veit ekki hvernig hann smitaðist en hann er einkennalaus. Vel er fylgst með öllum keppendum Eurovision og má geta þess að allir þátttakendur fara í Covid-próf á 48 klukkustunda fresti. Íslenska liðið dvelur á sama hóteli og það pólska en smit kom upp hjá pólska liðinu fyrir nokkrum dögum.

Rólegheit

Mannlíf hafði samband við Felix Bergsson, fararstjóra íslenska hópsins, sem er í sóttkví á hótelinu eins og aðrir í hópnum. Hann sagði að sér liði prýðilega í sóttkvínni.

 

„Við erum í rólegheitunum inni á herbergjunum okkar og bíðum frétta.“

Hann sagði jafnframt að mórallinn innan hópsins væri ágætur.

- Auglýsing -

„Við áttum öll skemmtilegt Zoom-spjall áðan en við höldum einn góðan fund á dag. Við erum mikið í sambandi og tékkum á hvert öðru. Við pöntum okkur góðan mat utan úr bæ; ég lendi í veseni af því að ég kann ekki á „delivery“ og svoleiðis vesen af því að ég er orðinn svo gamall en þau hlæja mikið að mér. Við höfum það í rauninni ótrúlega gott. Þetta er prýðilegt hótel og okkur líður vel hérna. Enginn er veikur og það er kannski fyrir mestu.“

Smásjokk

Beðið er eftir nýjustu niðurstöðum úr Covid-prófum og þá verða næstu skref tekin.

„Við vorum búin að búa okkur undir að eitthvað svona gæti komið upp á; við erum búin að vera að fara í gegnum heilsuprótókól síðan á síðasta ári þannig að þetta er eitthvað sem við vorum tilbúin undir að gæti gerst. En auðvitað er það smásjokk þegar það gerist og sérstaklega af því að þetta er ekki að koma fyrir aðra heldur okkur og svo Pólverjana. Það hefði verið kraftaverk ef allir hefðu getað komist í gegnum þetta án þess að það hefði poppað upp hérna lítið smit.“

- Auglýsing -

Stórkostleg á æfingunni

Ef íslenski hópurinn fær ekki að flytja lag Daða, 10 Years, á undankeppninni á fimmtudagskvöld mun verða notuð upptaka af æfingu síðasta fimmtudagskvöld eins og þegar hefur komið fram.

Daði og Gagnamagnið við brottförina til Rotterdam.

„Þetta var frábær æfing. Þau voru stórkostleg á þeirri æfingu. Í augnablikinu stefnum við þó ákveðið að því að koma þeim á svið. Þetta er verkefni sem allir þurfa að bregðast við við. Við tökum eitt skref í einu. Þetta er fínn og góður hópur og við höfum verið mjög samstíga í öllum okkar aðgerðum. Þetta er verkefni sem við þurfum að leysa og svo bara höldum við áfram hvernig sem þetta fer. Daði og Gagnamagnið eru stórkostlegir listamenn og það er mjög gaman að vinna með þeim.“

Fólki þykir mjög vænt um Eurovison

Felix segir að þessi reynsla hafi kennt sér að taka ekki öllu sem gefnu. 

„Það getur ýmislegt gerst og þá bregst maður við því. Það er bara svoleiðis. Það er það sem þetta starf snýst um og hefur gert frá því ég tók við því árið 2017. Það er hinn eini sanni lærdómur í þessu. Ég hef líka lært að fólki þykir mjög vænt um Eurovison og vill hag keppninnar sem mestan. Það vill að keppnin verði haldin og vill fá þennan sjónvarpsviðburð einu sinni á ári þar sem Evrópa sameinast í söng í þessum friðsama og skemmtilega viðburði og risastóra sjónvarpsþætti. Og það var mjög gott að finna það að fólk vildi virkilega fá sitt Eurovision aftur og það er gott,“ segir Felix en eins og flestir muna var keppninn ekki haldin í fyrra einmitt vegna heimsfaraldursins.

 

Love shine a light 

Felix er mikill Eurovision-reynslubolti og hefur meðal annars séð um í gegnum árin Eurovision-sjónvarpsþætti á RÚV þar sem lögin eru kynnt. Hann er spurður hvað Eurovision sé í huga hans.

„Það er bara fyrst og fremst viðburður þar sem Evrópuþjóðir koma saman, syngja saman og sýna hver annarri hvað þær geta á tónlistarsviðinu. Og þær skemmta sér saman. Þetta er mjög skemmtilegur viðburður og þeir sem hafa upplifað Eurovision finna hve mikil gleði fylgir þessum viðburði. Upprunalega er þetta friðarviðburður gerður í lok síðari heimsstyrjaldarinnar til þess að reyna að sameina stríðshrjáðar þjóðir Evrópu og í huga mínum hefur það prinsipp aldrei horfið. Þrátt fyrir að ýmislegt gangi á þá vilja menn koma saman og halda Eurovision,“ segir Felix en það gengur svo sannarlega mikið á núna í heiminum.

„Þess vegna eru Rússarnir þarna ennþá og ýmsir aðrir sem standa í stórræðum í sínum heimshluta svo ekki sé meira sagt. Í raun og veru reyna menn að leggja deilumál til hliðar; það er stóra málið í Eurovision. En svo eru menn líka bara að skemmta sér vel, hlusta á skemmtilega músík og hlæja og dást eða ekki dást að listamönnum þjóðanna.“

Felix er spurður um uppáhaldslag sitt í keppninni í ár.

„Mér finnst úkraínska lagið vera alveg geggjað. Ég er líka hrifinn af ítalska laginu. Það er stórskemmtilegt glysrokk; ég er mikill glysrokkmaður. Og Daði er með algerlega frábært lag; hann er með betra lag en í fyrra að mínu mati og sem er held ég á leiðinni að verða alheimssmellur eins og Think About Tings. Frábært lag.“

Hvað með uppáhaldslag Felix frá upphafi Eurovision?

„Þau eru ansi mörg en ég svara yfirelitt Love Sine a Light með Katrina and the Waves,“ segir Felix en þetta breska lag sigraði keppnina árið 1997.

Segja má að texti lagsins eigi vel við til að lýsa upp í huga fólks um heim allan í þessum heimsfaraldri.

Love shine a light in every corner of my heart

Let the love light carry, let the love light carry

Light up the magic in every little part

Let our love shine a light in every corner of our hearts 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -