Fimmtudagur 16. janúar, 2025
0.5 C
Reykjavik

Fjóla heiðrar móður sína á óvenjulegan hátt: „Ég hef glímt við mikla reiði síðan að hún dó“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mamma var með fullkomnunaráráttu gagnvart mat og bakstri, sérstaklega hvað varðaði útlit á matnum, hún vildi alltaf hafa allt 100%, var alltaf að fá nýjar hugmyndir af útfærslu og prófaði sig áfram óhrædd,“ segir Fjóla Sigríður Stefánsdóttir sem missti móður sína úr krabbameini í október á síðasta ári. „Mamma kaus að kalla hann krabba frænda og henni fannst hann vera orðinn mjög kræfur á háa leigu”.

Var stöðugt að undirbúa dauðann

Móðir Fjólu, Aðalbjörg Vagnsdóttir, eða Abba eins og hún var alltaf kölluð var fædd í Blönduhlíðinni árið 1951. Hún greindist með bráðahvítblæði árið 1995, þegar Fjóla var aðeins fimm ára gömul og var henni vart hugað líf. Abba náði að sigrast á því en var síðar greind með ristilkrabbamein og var fyrsta hugsun Fjólu að nú myndi hún missa mömmu sína. „Eftir að hún dó áttaði ég mig á því að ég var alltaf að undirbúa mig undir það að hún myndi deyja, hún fékk sífellt ný mein sem kölluðu á sífellt fleiri uppskurði. Mynstrið var upp og niður en mamma náði að sigrast á öllu. Ég hef glímt við mikla reiði síðan að hún dó og hef átt erfitt með að sætta mig við að þrátt fyrir alla sigrana hennar hafi hún ekki fengið að vera lengur hjá okkur. En ég vil ekki minnast mömmu sem sjúklings, ég vil minnast alls þess góða sem hún gerði“.

Abba ásamt börnum sínum fyrir andlátið.

Fjóla segir mömmu sína hafa leitað í eldamennsku og bakstur þegar henni leið illa eða hafði fengið slæmar fréttir. „Það var hennar eigin krabbameinsmeðferð.”

Minn besti vinur

Fjóla Sigríður ólst við mikla ást á matargerð. Pabbi hennar var kokkur á sjó, bróðir hennar er lærður kokkur, móðir hennar var sjálflærður kokkur og sjálf fór hún í húsmæðraskólann á Hallormsstað.

- Auglýsing -

„Mamma flutti að heiman aðeins 14 ára gömul og fór þá að sjá um heimili, elda, þrífa, passa börn og allt sem tengdist því að halda heimili. Hún lærði mikið af ömmu minni Fjólu, sem einnig var listakokkur. Fordómalaus, þolinmóð og besti vinur vina sinna eru þau orð sem lýsa mömmu best, hún tók öllum eins og þeir voru og talaði hún nánast aldrei um sín veikindi við aðra, en hún gat alltaf hlustað á aðra og veitt ráð. Ég gæti talað endalaust um mömmu, hún var minn besti vinur“.

Í eigin heimi í eldhúsinu

Fjóla rifjar upp stundirnar í eldhúsinu með mömmu sinni en eldhúsið var hennar uppáhalds staður og leið henni hvergi betur. „Hún var alltaf að sýna mér eitthvað og spá og spekúlera. Stundirnar sem standa uppúr eru þegar ég var að læra heima en þá settist mamma alltaf með mér við eldhúsborðið, tók fram alla glimmerpennana sína, stílabók og byrjaði að skrifa uppskriftir. Það var magnað að fylgjast með áhuganum og ástríðunni við skrifin, vandvirknin var einstök“.

- Auglýsing -
Abba skráði niður uppskriftirnar sínar af nákvæmi og vandvirkni.

Fjóla segir mömmu sína hafa talað mikið við sjálfa sig í eldhúsinu. „Hún var í eigin heimi, að vinna á sínu eigin kaffihúsi að elda ofaní fullt af fólki. Stærsti draumurinn hennar var að opna sinn eigin stað með sínum eigin réttum og að sjálfsögðu yrði hann frábrugðinn öllum öðrum stöðum.“

Abba elskaði að elda og baka fyrir aðra og byrjaði á jólabakstrinum í september til að tryggja að hún gæti sent fjölda sorta af smákökum til barna sinna og á vinnustaði þeirra. „Það voru allir í skýjunum við að fá sendingarnar frá henni, segir Fjóla.

Loforð á dánarbeði

Þær mæðgur hófu umræðu um útgáfu bókar með uppskriftum Öbbu fyrir mörgum árum. „Hún var alltaf ákveðin í að gera það en með árunum yrðu veikindin hennar meiri og gafst aldrei tími í að láta þessa bók verða að veruleika. Ég átti síðan samtal við hana stuttu áður en hún dó og spurði ég þá hana hvort ég mætti gefa það út. Hún sagði: „Já Fjóla, viltu gera það fyrir mig? Ég treysti þér 120% fyrir því.“

„Ég hef átt rosalega erfitt með það að kveðja hana eða syrgja hana, ég hef ekki viljað sætta mig við það að geta aldrei aftur hitta hana og fengið heita mömmuknúsið.“

Bakstur Öbbu þótti öllum betri.

Í kjölfarið kannaði Fjóla á samfélagsmiðlum hvort áhugi væri fyrir persónulegri matreiðslubók mömmu hennar. „Viðbröðin við þessari hugmynd minni fóru gjörsamlega langt út fyrir mínar væntingar og er ég rosalega klökk og ómetanlega þakklát. Fyrir mig er mjög mikilvægt að láta það verða að möguleika að gera persónulega, fallega og skemmtilega bók eftir hana. Ég vil kveðja mömmu og fá sátt og ró innra með mér með því að deila fjársjóðnum hennar og í leiðinni styrkja gott málefni, en mig langar að láta ágóða af sölu bókarinnar renna til göngudeildar krabbameinssjúkra á Akureyri en þar var mamma meira og minna sín síðustu ár og dásamaði fólkið þar endalaust fyrir góða umönnun“.

Uppskriftarbók Öbbu

Fjóla Sigríður er byrjuð á skrifum, komin með umbrot og hönnun og leitar nú til almennings eftir fjármagni til að segja sögu Öbbu.

„Það voru rosalega margir sem sögðu mér að setja inn söfnun inná karolinafund.com. Ég bar þessa hugmynd upp við þau, og þau sögu að þetta væri fullkomið verkefni til söfnunar. Ég yrði rosalega þakklát fyrir stuðning svo ég geti látið þetta gerast. Ég ætla að gefa allt í bókina og lofa því að ég mun skila henni vel af mér, ég er viss um að hún mun stytta mörgum stundirnar um ókomna framtíð, segir Fjóla Sigríður sem er ákveðin í að heiðra minningu móður sinnar á þennan undurfallega og óvenjulega hátt.

Fjóla Sigríður hefur sextíu daga til að safna fyrir útgáfu Uppskriftabókar Öbbu og geta þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta gert það hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -