Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er ekkert farinn að hægja á þrátt fyrir að vera 73ja ára. En hann undirbýr samt brotthvarf sitt. Þetta kemur fram í Mannlífinu með Reyni Traustasyni.
„Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ég er kominn á þann aldur að það má reikna með því að það þurfi einhver að taka við innan einhvers tíma. Ég er að setja saman skipulag um það hverjir taki við,“ segir Kári í Helgarviðtali Mannlífs. Hann ætlar aðspurður ekki að verða eins og Elísabet Bretadrottning sem situr enn á valdastóli 95 ára. En hann hefur samt í gegnum tíðina oft verið talinn kona.
„En það hefur hins vegar í gegnum tíðina verið gerð tilraun til að færa mig svolítið nær henni; til dæmis á hverju einasta ári síðastliðin 20 ár hefur mér verið boðið að verða aðalfyrirlesari á árlegum fundi kvenna í háskólum í Bandaríkjunum. Og í fyrra var ég valinn the Female Entrepreneur of the Year hjá evrópsku tímariti. Það á rætur sínar í því að Kari er kvenmannsnafn í Skandinavíu og næstum því undantekningarlaust ganga menn út frá því að Kári sé kona. Ég hef meira að segja ferðast víða um heim að flytja fyrirlestra og verið boðið að flytja fyrirlestra á hinum og þessum stöðum og það hefur maður verið sendur til þess að ná í mig út á flugvöll; venjulega endar það á því að ég verð að taka leigubíl vegna þess að það hvarflar ekki að þeim að þessi aldni, hvíthærði, skeggjaði maður sé Kari.“
Langar Kára ekkert til að fara að setjast í helgan stein?
„Ekki eins og stendur. En það getur breyst. Eins og stendur hef ég gífurlega gaman af þessu. Mér finnst þetta alveg feikilega spennandi.“
Helgarviðtalið við Kára í heild sinni er að finna hér.